Indland landið náttúran,
Indian flag of India


INDLAND
NÁTTÚRAN
.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Landið skiptist í þrjú náttúrufarsleg svæði.  Fjalllendið í norðurhlut-anum með frumskógum og rúmlega 8000 m háum fjallatindum er einstakt og stórkostlegt.  Í miðhlutanum er hið 300-500 km breiða norðurláglendi Ganges og Brahmaputra.  Suðurhlutinn er hinn þríhyrningslagaði Indlandsskagi með Dekkanhásléttunni, sem hækkar frá norðri til suðurs og austri til vesturs og er 350-950 m há.  Frá austri skerast frjósamir dalir inni í hana.  Brattur vesturhluti hásléttunnar (Westghats; allt að 2700 m) myndar mjóa strandlengju með ríkulegum hitabeltisgróðri.

Loftslagið  Hitabeltisloftslag ríkir í öllu landinu, þótt það sé breytilegt eftir hæð og fjarlægð frá sjó.  Á sumrin ríkir hinn raki suðvestanmonsún, á veturna hinn þurri norðvestanmonsún, sem færir úrkomu aðeins að austurhluta Dekkanhá-sléttunnar.  Mesta ársúrkoma fellur í Khasi-Jaintiafjöllum í Meghalaya (11.000 mm), í Himalajafjöllum og á vesturhluta Dekkan.  Í Indlandi eru aðeins þrjár árstíðir:  Vetur, sumar og monsúntími.

Vetrarmánuðirnir (nóvember - marz) eru þægilegir og sólríkir víðast hvar í landinu.  Á lægstu svæðunum í norðurhlutanum fellur hitinn verulega og það snjóar í fjöll.  Í Maharashtra og í suður- og austurhlutunum er sæmilega svalt í desember og janúar en aldrei kalt.

Sumarmánuðirnir (apríl - júní) eru heitir víðast um landið.  Eina svæðið, þar sem má vænta svala, er uppi í Himalajafjöllum.  Suðvestanmonsúninn kemur venjulega í byrjun júní.  Hann byrjar á því að leggja undir sig vesturströndina og breiðist síðan yfir landið og það hellirignir, nema í suðausturhlutanum, þar sem norðausturmonsúninn veldur úrkomunni frá miðjum oktober til loka desember.

Gróður  Hitabeltisgróður þekur Dekkanhásléttuna og neðri Ganges- og Brahma-putrasvæðin (Doab).  Á hásléttunni er þurrlendisgróður, grisjótt og oft þyrnótt skógarsvæði og runnar.  Palmírapálminn er einkennandi.  Þar sem Dekkanhá-sléttan lækkar til vesturs og á óshólmasvæði Ganges og Brahmaputra er   mikill og fjölskrúðugur gróður af völdum rakans.  Í fenjunum með ströndum fram vaxa fenjatré (mangrove) og á sléttlendinu ofan við vaxa kókospálmar, fíkjutré (Banyan), döðlupálmar (tamarinden), mangó og bambus.  Mikilvægasta korntegundin er hrísgrjón.  Í fjallaskógunum vex eðalviður, gúmmítré og piparrunnar.  Þegar komið er upp fyrir 3500 m hæð yfir sjó tekur að mestu við runnagróður og beitilönd.  Hitabeltisjaðargróður einkennir önnur landsvæði.  Á svæðunum frá norðvesturhlutanum að Indussléttunum og alla leið til Pakistan eru steppur (sauðfjárbeit), gróðurlítil svæði og eyðimerkur.

Dýralífið  Indverska fánan er mjög tegundarík.  Rýtiuxar (jakuxar), antílópur, villifé, geitur og birnir eru uppi í Himalajafjöllum.  Í frumskógunum fyrir neðan eru enn þá villtir fílar og einhyrndi nashyrningurinn í na-hlutanum.  Víða eru skógarnautgripir (gaur) og villibuffalar.  Kryppunautgripirnir (zebu) eru heilagir meðal hindúa, sem rækta þá í takmörkuðum mæli til mjólkurframleiðslu.  Tígrisdýr, hlébarðar og jebarðar eru orðnir sjaldgæfir en úlfar og sjakalar eru algengari.  Apa- og hálfapategundir eru fjölmargar.  Oddmynnti krókódíllinn lifir í ám Norður-Indlands.  Allmargar eiturslöngutegundir er víðast hvar að finna.  Hin þekktasta þeirra er gler-augnaslangan (kobra), sem slöngutemjarar láta leika listir sínar.

Nálægt fimmtungur indversks lands er vaxinn skógum, þar sem villidýr eiga athvarf.  Sjaldgæfar tegundir eins og asíuljónið, hvíti tígurinn, einhyrndi nashyrningurinn, hjartarantílópan og kasmírhjörturinn eru alfriðaðar.  Vítt og breitt um landið eru u.þ.b. 200 verndarsvæði fyrir villt dýr og nokkur fuglaverndarsvæði, sem laða til sín ferðamenn.  Safarigarðar eru í Hyderabad og við Birovoli, skammt frá Bombay.


.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM