Öll
stór hótel og flestir stórir veitingastaðir í helztu borgum
landsins bjóða vestrænan mat. Samt
ætti enginn að láta hjá líða að smakka á indverskum réttum.
Indverjar eru meistarar í meðferð og notkun krydds, sem var
upphaflega nauðsynlegt til að varðveita matinn í þessu heita
loftslagi. Síðar varð þetta
að flóknum leik með lykt og angan.
Kryddtækni Indverja felur það í sér, að meðlæti er
matreitt skömmu á undan aðalréttunum.
Aðalfæðan
er hrísgrjón. Oftast eru
þau soðin sem meðlæti með karríréttum, en líka sem 'Pulao',
steikt og mikið krydduð með kjöti eða fiski og grænmeti.
Brauð er næstum jafnmikilvægt og hrísgrjón.
Fjöldi tegunda og bragða er hvergi meiri annars staðar í
heiminum og margar tegundanna eru notaðar með ákveðnum réttum.
'Chappati'-flatbrauð (hveiti og vatn) og 'Paratha'-brauð (mjöl,
vatn, fita; bakað mjög þunnt og samanbrotið) er oftast borðað með
karríréttum. 'Poori'-brauð
er mikið borðað með grænmetisréttum.
'Nan'-brauð er mjög létt og gott brauð, sem er oft hitað upp
fyrir máltíðir.
Fjölbreytni
karrírétta er ótrúleg. Þeir
eru matreiddir úr grænmeti, kjöti (aðallega hænsna- eða lambakjöt)
eða fiski. Grunnuppskriftirnar,
s.s. 'Rogan Josh' (mildkryddaður karríréttur með lambakjöti;
algengur í N.-Indlandi), eru að vísu margar en yfirsýn yfir þær
hefur ekki glatast. Karrí
er blanda 25 kryddtegunda, sem er ákaflega mismunandi eftir landshlutum
og matreiðslumönnum. Víðast
er það ágætt, en þó er betra að vera við öllu búinn og hafa
vatnsglas við höndina, því að vatn slekkur kryddbrunann betur en aðrir
drykkir.
Indversk
matargerð byggist samt alls ekki einungis á karríréttum.
Hvert hérað státar af eigin matargerð, sem hefur oft orðið
fyrir utanaðkomandi áhrifum. Réttur,
sem er kallaður Goaostur, er blanda indverskra og portúgalskra áhrifa
frá hálfrar aldar sambandi við Portúgal.
Mógúlarnir
fluttu með sér matargerðarlist, sem enn þá eimir eftir af
(Tandoori; N.-Indland), til Indlands.
Útlendingum í Indlandi fellur oftast strax vel við þessa rétti,
því að þeir eru minna kryddaðir og bragðbetri en margir aðrir réttir.
Það er byrjað á því, að leggja kjöt eða sjávarfang í jógúrt
og sérstaka himalæska jurtablöndu í 48 klukkustundir.
Síðan er þetta bakað í sérstökum og mjög heitum leirofnum
(Tandoor), sem eru kyntir með viðar-kolum.
Við þennan bakstur kemur lítils háttar reykkeimur af matnum,
sem er síðan borinn fram í smábitum ('seekh').
Önnur islömsk áhrif á indverska matargerð eru léttkryddaðir
skaftpottsréttir, sem kallast 'Biryani', úr hænsna- og lambakjöti og
fiski auk hrísgrjóna, þurrkaðra ávaxta og hnetna.
Skömmu áður en þessir réttir eru bornir fram er hellt yfir
þá smágusu af rósavatni.
Mörgum
útlendingum finnst grænmetisréttirnir tilbreytingarlausir og allt of
mikið soðnir. Indverjar
kjósa almennt ávexti sem eftirrétti.
Þá er einkum um að ræða epli, banana, þrúgur, ananas,
vatnsmelónur, mangó o.m.fl. Einnig
er mikið um sæta eftirrétti, s.s. 'Rasgullas' (sætar kúlur úr
indverskum smurosti með rósavatni), Kulfi (nokkurs konar ís) o.fl.
Margir eftirréttir eru bornir fram í næfurþunnum silfurpappír,
sem er ætur.
Innflutt
áfengi er mjög dýrt. Bjór
er ekki fluttur inn frá Vesturlöndum.
Indverskur bjór og vín, sem borið er fram í stórum hótelveitingahúsum,
er svolítið ódýrara. Í
Goa fást áfengir drykkir á lægra verði en víðast annars staðar
og þar er í boði sérstakur drykkur, sem nefnist Feni.
Hann er bruggaður úr cashewávöxtum, kókosmjólk eða pálmasafa.
Alls staðar í Suður-Indlandi er boðið 'toddy', lítið áfengur
drykkur úr safa 'toddy'-pálmans. Neera er líka lítið áfengur
drykkur úr pálmasafa. Hans er einkum neytt í Bombay og umhverfi.
Mikið er drukkið af hollri kókosmjólk, beint úr hnetunni.
Auk þess eru alls staðar hressingardrykkir, s.s. eplasafi,
'limca', gold spot o.fl. 'Coca
Cola' virðist hafa horfið úr hillum verzlana á síðustu árum.
„ÁFENGISBANN”
Áfengir
drykkir eru seldir í felstum hótelum, börum og góðum veitingahúsum.
Áfengisleyfis fyrir ferðamenn og annarra skilríkja er krafizt
á nokkrum stöðum, ekki eingöngu á bannsvæðum, vilji fólk
kaupa og neyta áfengis. Á
þurrum dögum er áfengi ekki afgreitt yfir barborðin, heldur þarf að
panta það á herbergin. Á
bannsvæðum gildir magnkvóti fyrir hvern einstakling. |