Karnataka Indland,
Indian flag of India


KARNATAKA
INDLAND

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Nútímaborgin Bangalore (Bengalur; 3 millj. íb.), höfuðborg fylkisins Karnataka, var fyrrum vinsæll sumardvalarstaður vegna legu sinnar í 950 m hæð yfir sjó, setuliðsborg og bústaður fjölda brezkra elliífeyrisþega.  Nú er borgin þekktust fyrir vaxandi iðnað, einkum tengdan flugvélum og elektróník.

Nandihæðirnar (1500 m.y.s.), 70 km norðan Bangalore, eru vinsæll heilsubótarstaður.

Mysore (Maisur), fyrrum höfuðborg samnefnds hindúaríkis 140 km suðvestan Bangalore, er prýdd breiðum strætum og gosbrunnum.  Brindavangarðarnir eru upplýstir á kvöldin.  Höll maharadsanna af Mysore er inni í virkinu.  Þar er krýningarsalur, sem mógúlakeisarinn Aurangzeb er talinn hafa gefið fjórða hindúafursta Mysore, Chikka Deva Raja.  *Dusserah-hátíðin (okt./nóv.) dregur til sín fjölda gesta.  Þá fara mjög skrautlegar skrúðgöngur um götur með skreyttum fílum, máluðum hestum, burðarstólum, skyggnisvögnum og fánaberum.  Fyrrum reið maharadsinn, klæddur gylltri kápu, í fararbroddi á fílsbaki.

Srirangapatnam-virkið
, 15 km norðan Mysore, er á eyju í Cauvery-ánni.  Bretar lögðu það tvisvar undir sig, endanlega árið 1799.  Lal Bagh (Rauði garðurinn) er á austanverðri eyjunni.  Þar er grafhýsi soldánsins Tipu, sem féll í síðustu árás Breta.

35 km austan Mysore, skammt frá þorpinu Somnathpur, borgar sig að kíkja á lítið en þekkt hof.  Það vr byggt árið 1268 á dögum Hoysala-ættarinnar, sem ríkti frá 11. öld fram á hina 14.  Þar eru þrír helgidómar og einn einfaldur salur.

Norðan Mysore er *Halebid-musterið, þar sem stóð fyrrum gamla höfuðborgin Dwarasamudra.  Þetta hof, eins og önnur Hoysala-hof, er yfir-hlaðið höggmyndaskrauti.  Flestir helgidómarnir eru byggðir úr klórít-hellugrjóti, sem er tiltölulega mjúk steintegund, þegar hún er grafin úr jörðu og unnin, en harðnar smám saman, þegar hún kemst í samband við andrúms-loftið.  Þess vegna virðast þessi hof frekar vera skorin út úr fílabeini en hoggin í grjót.

Norðar, við borgina Belur, eru fleiri Hoysala-musteri.

Rústaborgin Hampi, fyrrum höfuðborg Vijaynagar-ríkisins, er í norðan-verðu fylkinu við járnbrautina milli Gadag og Bellary.  Hampi var miðstöð andspyrnu hindúa gegn múslimum á 14. öld.  Árið 1565 var borgin eyðilögð í orrustunni við Talikota, þar sem þrír soldánar mynduðu sambandsher.  Pattab-hirama-musterið tekur öllum öðrum byggingum fram (1513 var bygging hafin).  Þar er gríðarmikil *súlnabygging.  Hver og ein hinna 56 súlna er sjálfstætt listaverk með prjónandi hestum og riddurum, furðulegum skrímslum og öðrum myndum.  Steinvagnarnir, sem standa fyrir framan mesta helgidóm Vitthalahofsins, eru líka athyglisverðir, sem og hinar óvenjulegu súlur Hazara-Ramaswami-hofsins.

Badami-hellarnir (6.öld), Pattadakal- (8.öld) og Aihole-hofin (5.öld; elztu hindúamusteri Indlands)  eru á leiðinni milli Hampi og Bijapur.  Þau eru öll velvarðveitt með fallegum görðum og í umsjá opinberrar stofnunar um fornleifarannsóknir (Archaeological Survey of India).

Bijapur (gamla Vijajapuram = Sigurborg), rúmlega 160 km norðvestan Hampi, uppi á öldóttri Dekkan-hásléttunni, var höfuðborg islamsks ríkis á árunum 1489-1686.  Geysimiklar moskur og hallir í persenskum stíl eru frá því tímabili.  Gömlu borgarmúrnarnir eru 10 km langir með fimm aðalhliðum og 96 hálfhringlaga turnum og virkisgröfum, sumpart höggnum í bergið.

Í austurhluta gamla borgarhlutans er hið mikla grafhýsi **Gol Gumbaz (byggt 1626-1656; hluti af því er nú safn) utan um jarðneskar leifar soldáns-ins Mohammed Adil Shah.  Það er krýnt 44 m breiðum og 60 m háum kúpli og fjórum sjö hæða hornturnum.  Efst á hverjum turni eru 4 m breiðar svalir allan hringinn.

*Jama Masjid
(Stóramoska; lokið 1620)) er einkar falleg vegna samræmisins í rými hennar.

Í miðborginni er gamla virkið með mestum hluta gömlu múranna og virkisgrafanna.  Innan þeirra eru rústir gamals hindúamusteris, merki um mikilvægi borgarinnar áður en múslimar lögðu hana undir sig.

Gagan Mahal-höllin (1561) er rústir einar, nema hinn 27 m hái hliðbogi.  Í þessari höll sór síðasti konungur Bijapur, klæddur silfurkeðjum, Aurangzeb keisara hollustu sína.

Utan borgarmúranna vestanverða er útborgin Zohrapur.  Þar er litla
*Ibrahim Roza-moskan, grafhýsi Ibrahim II Adil Shah, sem var lokið árið 1620 eftir 36 ára byggingarframkvæmdir.  Moskan er ríkulega skreytt.


.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM