Dalhousietorgið,
sem nefnt var eftir aðalríkisstjóranum á árunum 1848-1856, er í miðju
hinnar gríðarmiklu miðborgar Kalkutta, skammt frá Huglikvíslinni.
Þar skerast aðalviðskiptagötur borgarinnar.
Torgið er mjór og langur garður.
Norðan þess er Writers'-byggingin, stórt og mikið
tígulsteinshús,
sem hýsir flest ráðuneyti fylkisins.
Þá kemur skozka kirkjan St. Andrews (vígð 1818).
Vestan torgsins, þar sem gamla Williamsvirkið stóð, er aðalpósthúsið
(lokið 1870) með gríðarmiklum súlnasal og gylltum kúpli
(67 m háum).
Inni í því er bronztafla, sem sýnir legu gamla virkisins, sem
Suraj-ud-Daula lagði undir sig árið 1756.
Önnur tafla, sem sýndi legu svartholsins í virkinu, þar sem
fjöldi brezkra fanga lét lífið, hefur verið fjarlægð.
Við
Council House-götu, skammt frá torginu, er kirkja hl. John's (1784).
Í kirkjugarðinum er átthyrnt minnismerki um Job Charnock
(†1692), stofnanda borgarinnar, sem er líka minns fyrir að hafa kvænzt
fagurri hindúaekkju (bramatrúar) og þar með bjargað henni af bálkestinum,
þegar bóndi hennar var brenndur.
Sunnar,
á milli Council House-götu og Old Court House-götu, er Raj Bhawan, bústaður
fyrrum ríkisstjóra Vestur-Bengal.
Húsið var byggt á árunum 1797-1804 með Kedleston Hall í
Derbyshire, fæðingarstað Lord Cruzon, sem fyrirmynd.
Norður
frá Dalhousie-torgi liggur Netaji Subhas-gatan (bankar, útgerðir og
önnur fyrirtæki) að hinni geysistóru Howrabrú yfir Hugli að
brautarstöð systurborgarinnar Howrah.
Á austurbakkanum við brúarsporðinn er 'Bara-basarinn, sem
teygir anga sína inn í þröngar og heitar götur, þar sem mann-þröngin
virðist ógeng.
Mahatma
Gandhigatan sveigir til norðurs frá Netaji Subhas-götunni að
Nakhoda-moskunni, hinni stærstu í borginni.
Fyrirmynd hennar var Akbargröfin í Sikandra en hún er svo aðþrengd,
að hún nýtur sín varla.
Eftir þriggja km göngu þaðan eftir Acharya Profulla Chandragötu
blasir við *Swetamber-Jaina-hofið (1967).
*Maidan
er risavaxinn garður með grasflötum og minnismerkjum u.þ.b. 1 km
sunnan Dalhousie-torgs.
Í austurhluta hans gnæfir Ochterlony-minnis-merkið, 50 m há
heiðursúla frá 1828.
Rétt þar hjá er aðalstöð sporvagna borgarinnar og þaðan
liggja sporin um alla borg og til úthverfanna.
Jawaharlal Nehru-gatan, betur þekkt undir gamla nafninu
'Chowringhee', er aðalumferðaræð borgarinnar og liggur að Viktoríuminnismerkinu.
Við austurenda götunnar er Grand hótelið og hótel Ritz.
Bak við þau er 'Hogg-markaðurinn', sem nær yfir fjöldamargar
götur.
**Indlandssafnið ('India Museum') er við Park Street, sem
liggur þvert á Jawaharlal Nehru-götuna.
Þar er margt góðra veitingahúsa.
Í Indlandssafninu er fjöldi gripa en höggmyndir úr steini eru
áhugaverðastar.
Indverski
herinn notar Williamsvirkið (vestast i Maidan) og það er því lokað
almenningi.
*Stóra Viktoríuminnismerkið er í suðurhorni Maidan.
Það er ljós marmarabygging, sem hýsir athyglisvert safn
indverskra minja frá tímum Raj.
Þar eru indverskar og brezkar bækur og skjöl, málverk og högg-myndir.
Minnismerkið er áhrifaríkt, jafnvel fyrir ókunnuga, sem eru
ekki vel að sér í nýlendusögunni.
Lord Curzon, varakonungur frá 1899 til 1905, fékk hugmyndina að
byggingu þess og W Emerson teiknaði það, en það var ekki fullbyggt
fyrr en árið 1922.
Frá minnismerkinu er skammur vegur að angli-könsku kirkjunni
St. Paul (1839-1847) með glugga, sem Burne-Jones teiknaði (1880).
Úthverfi
Kalkutta eru miklu áhugaverðari fyrir félagsfræðinga en ferða-menn
en samt borgar sig að skoða *grasagarðinn á hægri bakka Hugli.
*Banyanfíkutréð (Ficus bengalensis) er rúmlega 200 ára.
Stofn þess og rætur ofanjarðar ná yfir stórt svæði.
Kalighat-hindúahofið
í suðurhluta borgarinnar er skoðunarvert.
Borgin dregur eiginlega nafn sitt af því.
Í norðurhlutanum er Dakshineswar-hofið er þekkt fyrir
fastheldni við gamla trúarsiði.
Það
er upplagt að fara með lest eða rútu í skoðunarferðir
um nágrenni Kalkutta og kynnast þannig sveitalífinu í Bengal.
Svo
er líka gaman að sigla upp eftir Hugli til
Serampore,
fyrrum danskrar nýlendu með kirkju frá 1805 og háum klukkuturni, síðan
til Chandernagore
(frönsk til 1951) og svo til
Chinsure,
fyrrum hollenzkrar nýlendu með kirkju frá 1678. |