Indland íbúarnir,
Indian flag of India


INDLAND
ÍBÚARNIR
.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Indland er meðal fjölmennustu ríkja heims og einnig þeirra þéttbýlustu með ríflega 220 íbúa á km².  Fólksfjölgunin, 2,3%, er meðal mest aðkallandi efnahagslegu og pólitísku vandamála landsins.  Íbúar Indlands eru mjög ólíkir með tilliti til uppruna, trúarbragða og félagslegrar aðstöðu.  Leifar frumbyggjanna (veddída) er einungis að finna í fjallahéruðum og sá hluti þeirra, sem lifði af á láglendinu, hefur blandast lægstu stéttum þjóðfélagsins.  Hinir hörundsdökku melanídar, sem tamílar og telúgar tilheyra líka, á suðurhluta Dekkanhásléttunnar, hafa lítt orðið fyrir utanaðkomandi áhrifum.  Langstærstur hluti hinna 800 milljóna íbúa eru hinir hörundsljósu indídar (Indóaríar), sem urðu til við blöndu frumbyggjanna og þjóða Mið-Asíu.  Fólk af mongólskum uppruna býr í hádölum Himalajafjalla og í hlutum Assam.  Kínverjar og Evrópumenn eru í mjög litlum minnihluta.

Fjölbreytileiki íbúanna kemur fram í tungu þeirra og ritum.  Nú eru 15 tungumál viðurkennd sem opinber mál, en séu allar tungur og mállýzkur taldar, tala Indverjar rúmlega 1500 mál.  Hindi, bengali, telugu, marathi og tamíl eru útbreiddustu tungumálin.  Mikilvægasta skrifmál landsins er devanagari.  Enska er mikið notuð meðal íbúanna til að gera sig skiljanlega við aðra tungumálahópa og hugmyndir eru uppi um að taka enskuna upp sem opinbert mál á ný.

Rúmlega 80% íbúanna játa trúarbrögðin hindi, sem ráða miklu efna-hags- og félagslegu lífi þeirra.  Stéttarskipting í þessu þjóðfélagi hindúa hefur að vísu verið afnumin opinberlega, en hún er engu að síður nú sem fyrr í fullu gildi í sveitum landsins, þar sem menntun er áfátt.  Nálega 11% íbúanna aðhyllast islam og eru sunnítar, 2,6% eru kristnir (rúmlega helmingur katólskir), 2% aðhyllast hindíska bókstafstrú sikha og búddatrúin (0,7%) er útbreiddust í Himalajafjöllum.  Jainas-hindúar eru 0,5% þjóðarinnar og þar að auki eru minnihlutahópar gyðinga, parsa o.fl.

Árekstrar milli þjóðfélagshópa af mismunandi uppruna og trúarbrögðum eiga sér langa sögu í Indlandi og eru erfiðir viðureignar.  Það, sem helzt olli óróa og ofsóknum, var hræðslan við erlend áhrif og gífurleg, félagsleg mismunun.  Nýverið hefur aðallega komið til blóðugra átaka milli síka og stjórnvalda vegna sundurlyndis milli þeirra og múslima.  Þessi átök leiddu til eyðileggingar gullna hofsins 'Amritsar' og morðs Indira Ghandi, forsætisráðherra.  Síkalífvörður hennar myrti hana.

Indverjar skiptast í marga flokka:  Indóaría (Norður- og Mið-Indland),  melanída (í na- og s-hlutunum), mongólar (Himalaja) og veddída (fjallabúar).  Minnihlutahópar eru:  Tíbetar, kínverjar og Evrópumenn.  Heildaríbúafjöldi nálgast 1 milljarð og meðalfjölgun er 2,3% á ári.  Lífslíkur eru 52 ár. Ólæsi er u.þ.b. 64%.  Vinnuaflið er u.þ.b. 400 milljónir (70% við landbúnað).  Samkvæmt stjórnarskránni frá 1950 á stéttleysingjum og konum að vera tryggt jafnræði.

Trúarbrögð: Hindúar (83%), múslimar (11%); minnihlutahópar Búddista, síka, jainasa, parsa, kristinna, gyðinga o.fl.

Tungumál: Þjóðtungan er hindi (30%); þar að auki enska.  Önnur tungumál:  Bengali, orija, punjabi, assami, rajastani, kasmiri, telugu, tamíl, malajalam, kannada.  Í sambandsfylkjunum eru tungumálin, sem þar eru töluð, jafnrétthá og þjóðtungan.  Auk hindi eru 14 aðal og héraðstugumál jafnrétthá.  Alls eru töluð u.þ.b. 40 tungumál og 23 kynstofnamál í landinu og rúmlega 720 mállýzkur.


.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM