Bihar Indland,
Indian flag of India


BIHAR
INDLAND

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Patna er höfuðborg sambandsfylkisins Bihar í norðausturhluta Indlands.  Hún stendur þar sem Son og Gandakin renna í Ganges, u.þ.b. 460 járnbrautarkílómetra norðvestan Kalkutta.  Suðurhluti borgarinnar stendur þar sem gamla borgin 'Pataliputra' var á dögum Ashoka keisara (3.öld f.Kr.) en hún var höfuðborg Maurja-ríkisins, sem náði frá Bengalflóa til Hindukush í núverandi Afganistan.  Öldum saman var borgin miðstöð búddatrúarinnar eða þar til Ganges og Son höfðu hlaðið svo miklu undir sig, að flóð eyddu henni.  Sher Shah keisari lét byggja aftur á sama stað um miðja 16. öld og gerði borgina að þáverandi Bihar-héraði.

Í Patna eru nokkrar merkilegar moskur og sikhamusterið Har Mandir Takht, sem er byggt á fæðingarstað Govind Singh hins mikla.  Hann var hinn tíundi og síðasti í röð gúrúa sikha og var myrtur árið 1708.  Vagga hans og skór eru varðveittir í hofinu.  Í Khudabuksh Orientalbókasafninu eru fræg arabísk og persnesk handrit, þar á meðal þau, sem varðveittust eftir að máríski háskólinn í Córdoba var rændur.  Nærri hofinu er býkúpulagað mannvirki, Golghar (eða Gola), hrísgrjónaskemma, sem var byggð árið 1786.  Einhver beztu hrísgrjón Indlands bera nafnið Patna.

Við þorpið Kumrahar, 7 km sunnan Patna, voru leifar höfuðborgar Ashoka grafnar upp.  Þar sjást greinilega rústir rúmlega 100 m langs stauravirkis, fjölda trépalla, sem báru veglegar byggingar og rústir samkomuhallar með 80 slípuðum steinsúlum.

Á Gaya-svæðinu, 80 km sunnan Patna, eru margar fornleifar frá fyrstu tímum búddatrúarinnar, sem hafa verið grafnar upp.  *Bodh Gaya (Búdda Gaya) við Phalgu-ána (10 km sunnan Gaya-borgar) er einhver helgasti staður búddatrúarmanna..  Þar var haldin geysimikil munkaráðstefna árin 1985-1986.  Þar er sagt að hinn lífsglaði Gautama prins hafi fengið hugljómun ('Bodhi') sína undir Bodhi-trénu eftir sjö ára innri baráttu og meinlætalifnað.  Ashoka lét reisa þar hof á 3. öld f.Kr. og enn þá sjást þess merki (veggjarústir og hásæti Búdda, Vajrasan).  Annað hof var byggt síðar og endurnýjað á 11. öld og árið 1882.  Aðalbyggingin er 52 m há.  Í inngarðinum er fjöldi stúpa, sem pílagrímar hafa reist.  Fíkjutré af pipaltegund, sem stendur utan hofsins, er talið vera afsprengi hins upprunalega hugljómunartrés.

Í Barbarhæðunum, 25 km norðan Gaya voru grafnir upp hellahelgidómar frá dögum Ashoka, hinir elztu slíkir í Indlandi.  Inngangur Lomas-Rishi-hellisins er skreyttur sérstæðu steinskrauti, sem líkist viði.

Nalandabúddaklaustrið, 95 km suðaustan Patna, er rústir einar.  Kínverski  pílagrímurinn Hsuan Tsang bjó þar og nam í fimm ár.  Á þeim tíma (á 7.öld) var klaustrið mikilvæg trúarmiðstöð og þar höfðust við u.þ.b. 10.000 munkar.


.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM