Hyderabad
(Haiderabad; 2,7 millj. íb.) má ekki rugla saman við samnefnda borg
í Pakistan. Indverska
Hyderabad var eitt sinn höfuðborg múslima í Nizam og er nú höfuðborg
Andhra Pradesh, norðan Tamíl Nadu við Bengal-flóa (Koromandelströnd).
Konungar Golconda stofnuðu borgina árið 1589. Hún er hálfvíggirt 11 km löngum múrum og 13 hliðum frá
tímum fyrsta Nizamkonungsins (1724-1748).
Þar er fjöldi markverðra bygginga frá tímum múslima og mjög
líflegir götumarkaðir.
Í
hjarta gamla borgarhlutans við gatnamót aðalgatnanna tveggja er 'Char
Minar (Fjórir turnar), sigurbogi frá 1591 (endurnýjaður 1880), sem
var reistur eftir að pest hafði gengið yfir.
Sunnan sigurbogans er Mekka, aðalmoska borgarinnar, byggð 1614.
Önnur skoðunarverð mannvirki:
Ashur
Kharna
(hátíðarhús frá 1594), sjúkrahúsið og Gostha Mahal.
Salar-Jung-safnið
hýsir fagra skartgripi og eðalsteina, málverk,
styttur, fílabeins- og tréskurð, kínverskt postulín og falleg húsgögn
frá Japan, Kína, Ítalíu og Bretlandi.
Golconda
(10 km vestan Hyderabad) var setur og höfuðborg hinnar ríku og
voldugu höfðingjaættar Kutb Shahi þar til Aurangzeb lagði hana
undir sig. Rústaborgin
Golconda er umgirt miklum granítmúrum með 87 hornvígjum.
Austurhliðið er þakið járnspjótum til varnar gegn fílaárásum.
Virkið trónir uppi á 107 m háum kletti í vesturhluta
borgarinnar.
Í fögru umhverfi
norðavestan og utan borgarmúranna eru
grafhýsi Kutb-Shahikonunganna,
sem ríktu yfir
Dekkansvæðinu á 16. og 17. öld.
Secunderabad,
10 km norðan
Hyderabad og handan Hussainsagarvatns, var stofnuð í byrjun 19. aldar
og nefnd eftir þáverandi Nizam-konungi, Sikander (= Alexander).
Warangal,
138 km norðaustan Hyderabad, var höfuðborg hindúaríkis á 12. öld. Frá þeim tíma eru rústir virkis og fjögur hlið
Shiva-musteris. |