Þegar
Spánverjar gerðu Hondúras að nýlendu, voru þar margar ættkvíslir
indíána, þ.á.m. majar, sem voru þróaðastir þeirra.
Gullið laðaði Spánverja til landsins snemma á 16. öld og námubærinn
Gracias varð höfuðborg þeirra í Mið-Ameríku árið 1544.
Fjórum arum síðar var gullið uppurið og Santiago (Antigua
Guatemala) varð nýja höfuðborgin í konungsríkinu Gvatemala.
Hondúras með höfuðborgina Comayagua var hérað í þessu
konungsdæmi (audiencia) innan landstjórnarsvæðis Nýja-Spánar.
Skömmu eftir 1570 fannst silfur á hálendinu og fjöldi
leitarmanna flykktist þangað. Miðstöð þeirra var í Tegucigalpa,
sem stækkaði verulega og keppti við Comayagua, einkum á 18. öldinni.
Landbúnaðurinn, sem var og er aðalstólpi efnahagslífsins í
landinu, þróaðist mjög hægt.
Byggðir Spánverja áttu stöðugt undir högg að sækja vegna
sífelldra árása sjóræningja, bæði sjálfstæðra og síðar á
vegum brezka flotans, sem stefndi að yfirráðum á ströndum Karíbahafsins.
Spánverjar vörðust ekki af hörku, heldur drógu sig fjær
ströndinni og síðar yfir að Kyrrahafinu, þar sem þeir voru nær
samgöngukerfi sínu.
Þannig náðu Bretar fótfestu á Moskítóströndinni við Karíbahafið
og sambo-miskito indíánarnir í strandhéruðunum voru bandamenn þeirra.
Á 18. öld stóðu spænsku Bourbonkonungarnir fyrir átaki til
að ná aftur yfirráðum á Karíbaströndinni með góðum árangri og
þeir byggðu m.a. Omoavirkið við Hondúrasflóa í kringum 1779.
Spánverjar
veittu landinu sjálfstæði árið 1821 og losnaði það undan yfirráðum
Mexíkó, þegar það tók þátt í bandalagi héraðanna í Mið-Ameríku.
Ágreiningur milli frjálslyndra og íhaldsamra afla innan
bandalagsins varð því að falli.
Frjálslyndir studdu lýðræði, frjálsa verzlun, minni
afskipti stjórnvalda, minnkun valda katólsku kirkjunnar og erlendar
hugmyndir um framþróun.
Íhaldsmenn vörðu klerkaveldið, voru hliðhollir einveldi,
tortryggðu erlendar hugmyndir og voru hlynntir Spánverjum.
Árið 1830 varð hinn frjálslyndi Francisco Morazán forseti
bandalagsins og dró úr veldi klerkanna og jók útflutning landbúnaðarafurða.
Andstaða íhaldsmanna og almennings olli hruni bandalagsins og
Hondúras lýsti yfir algeru sjálfstæði 5. nóvember 1838.
Íhaldsmenn, sem studdu katólsku kirkjuna, tóku við völdum með
Francisco Ferrera í fararbroddi.
Hann varð fyrsti forseti landsins, sem var kosinn samkvæmt stjórnarskránni
1. janúar 1841.
Stjórnvöld í Hondúras reyndu að endurvekja Mið-Ameríkubandalagið
um miðja 19. öld, þrátt fyrir sjálfstæðisyfirlýsinguna, og öflugir
nágrannar landsins gerðu landsmönnum erfitt fyrir með framkvæmd
hennar.
Íhaldsmenn voru við völd fram yfir 1870, sem nægði katólsku
kirkjunni til að tryggja sig aftur í sessi.
Stjórn landsins undirritaði samninga við Páfagarð 1861 í
þá veru.
Eftir
1871, þegar Justo Rufino Barrios kom til valda í Gvatemala, hneigðust
Hondúrasbúar aftur til frjálslyndis og Marco Aurelio Soto varð
forseti 1876.
Árið 1880 kunngerðu frjálslyndir nýja stjórnarskrá, sem
var ætlað að leiðrétta gerðir íhaldsmanna á meðan þeir voru við
völd, og þeir fluttu höfuðborgina frá Comayagua til Tegucigalpa.
Fimm arum síðar kom í ljós, að frjálslyndir í Hondúras og
annars staðar voru fyrst og fremst þjóðernissinnar, þegar þeir
komu í veg fyrir tilraun Gvatemala til að sameina ríki Mið-Ameríku
með valdi.
Frjálslyndir voru við völd langt fram á 20. öldina og studdu
erlendar fjárfestingar og hagvöxt en samt sem áður er landið enn
þá hið fátækasta í Mið-Ameríku.
Á
fyrsta áratugi 20. aldar kom hinn valdamikli Nígvaragvamaður, José
Santos Zelaya, Miguel Dávila í forsetastólinn í Hondúras.
Þessi ráðstöfun leiddi til uppreisna og blóðsúthellinga á
árunum 1911 og 1912.
Bandaríkjaforseti, William Howard Taft, sendi sjóherinn til að
vernda hagsmuni BNA í bananaræktinni.
Bandarísku fyrirtækin þrjú, sem um var að ræða, höfðu
stuðlað að hafnarbótum, lagningu járnbrauta, byggingu verkamannabústaða
og öðrum þarfaverkum.
Árið
1918 lýsti Hondúras yfir stríði gegn Þýzkalandi en tók engan
annan þátt í fyrri heimsstyrjöldinni.
Upp úr því stofnuðu óánægðir frjálslyndir og íhaldsmenn
Þjóðarflokkinn til mótvægis við völd frjálslyndra. Árið
1932 var leiðtogi Þjóðarflokksins, Tiburcio Carías Andino, kosinn
forseti í kjölfar stjórnmálalegrar upplausnar, sem heimskreppan
olli. Hann
var við völd til 1949.
Stefna hans var lítið frábrugðin stefnu frjálslyndra í stjórn-
og efnahagsmálum.
Árið
1941 lýsti Hondúras yfir stríði gegn Japan, Þýzkalandi og Ítalíu.
Ótryggir sjóflutningar ollu mikilli uppsöfnun útflutningsafurða,
efnahagskreppu og almennum óeirðum.
Stjórninni tókst engu að síður að halda velli og stóð
fyrir ýmiss konar breytingum í velferðarmálum.
Carías stóð af sér stjórnarbyltingu 1947 en fól varnarmálaráðherra
sínum, Juan Manuel Gálvez, völdin 1949 (-1954).
Julio
Lozano Díaz, 1954-56, stýrði áfram í nafni Þjóðarflokksins en
stjórnmálaóreiðan og uppreisn hersins 1957 varð til þess, að þingið
kaus Ramón Villeda Morales (1957-63) forseta.
Honum tókst að gera samgöngukerfi landsins nútímalegra og bæta
vinnulöggjöfina.
Árið 1963 tók Osvaldo López Arellano ofursti völdin í
hallarbyltingu, lýsti sig forseta og kom Þjóðarflokknum aftur til
valda.
Sumarið 1969 brauzt út svokallað „fótboltastríð” milli
Hondúras og El Salvador.
Þótt kappleik í knattspyrnu væri kennt um, lágu ræturnar dýpra,
aðallega í efnahagsástandinu og erjum milli þjóðarbrota.
Stríðið stóð skamma hríð og olli því, að mikið dró úr
vonum um umbætur í efnahags- og stjórnmálum Mið-Ameríku.
Herstjórnir
voru við völd í landinu frá 1963 þar til Ramón Ernesto Cruz
(1971-72) var kosinn forseti. Hann átti „fótboltastríðinu”
kosningu sína að þakka, því að Hondúras varð að láta í minni
pokann á vígvellinum gegn El Salvador.
Lópes, yfirmaður herafla Hondúras, var engu að síður allsráðandi
og í desember 1972 ýtti hann Cruz frá völdum.
Ungir liðsforingjar í hernum þvinguðu López til að koma á
ýmsum endurbótum.
Í janúar 1974 tilkynnti hann áætlun um skiptingu lands milli
íbúanna en lítið varð um efndir.
López neyddist til að draga sig í hlé 1975 vegna alþjóðlegs
mútuhneykslis.
Í hans stað kom Juan Alberto Melgar Castro ofursti (1975-78).
Hagur landsins vænkaðist lítillega á valdatíma hans, einkum
vegna hagstæðs heimsmarkaðsverðs á kaffi.
Stjórn hans missti tökin vegna margra hneykslismála.
Policarpo Paz García hershöfðingi komst til valda með friðsamlegri
hallarbyltingu síðla árs 1978 og hét því að halda áfram á sömu
braut og Melgar en komst fljótt í hann krappan.
Byltingin í Nigvaragva, þar sem Anastatsio Somoza Debayle var
rutt frá völdum í júlí
1979, og byltingin í El Salvador sama ár olli ólgu í Mið-Ameríku.
Hondúras tókst að standa þessa þróun af sér og stöðugleiki
hélzt í landinu meðan alda hryðjuverka gekk yfir nágrannalöndin.
Í nóvember 1981 voru almennar kosningar í landinu og
borgaraleg stjórn valin eftir næstum 17 ára herstjórn.
Nýi
forsetinn, Roberto Suazo Dórdova, úr Frjálslynda flokknum, var yfirlýstur
andstæðingur kommúnista og ákafur fylgjandi öflugs sambands við
BNA. Miklar
væntingar voru um umbætur í ýmsum innanlandsmálum en lítið varð
úr þeim vegna vaxandi innanlandsóeirða.
Mikil andstaða var gegn veru kontraskæruliða í landamærahéruðunum
við Nigvaragva, þar sem Bandaríkjamenn þjálfuðu þá til að
berjast við sandinistastjórnina.
Hondúrasbúar voru líka mótfallnir herstöðvum BNA, þar sem
hermenn frá El Salvador voru þjálfaðir til að efna til að bæla niður
uppreisnina þar. Loks bönnuðu stjórnvöld í landinu rekstur þessara
herstöðva árið 1984.
Nærvera Bandaríkjamanna olli meiri hervæðingu í landinu og
Gustavo Álvarez Martínez, yfir maður heraflans, virtist hafa alla stjórnartauma
í höndum sér til 1984, þegar ungir liðsforingjar hliðhollir Suazo
ýttu honum frá völdum í miklum mótmælum gegn BNA í Tegucigalpa.
Stjórn Suazos hélt áfram að styðja stefnu BNA gegn stjórn
sandinista og fékk talsverðan fjárstuðning fyrir vikið, þ.á.m.
uppbyggingu flugvalla og annarra hernaðarmannvirkja.
Síðla á níunda áratugnum tók stjórnin þátt í
sameiginlegu átaki stjórna allra Mið-Ameríkulanda til að koma á
friði.
Þessar aðgerðir urðu til þess að draga mikið úr áhrifum
BNA í Hondúras og stuðningi við kontraskæruliða.
Bandaríkjastjórn
hafði vonað, að tengslin við Hondúras yrðu til þess að landið
yrði fyrirmyndarlýðveldi í Mið-Ameríku.
Þær vonir brustu, þegar annar frjálslyndur forseti, José
Azcona Hoyo, tók við af Suazo 1986, þótt hann hefði fengið mun færri
atkvæði en frambjóðandi Þjóðarflokksins, Rafael Leonardo
Callejas.
Árið 1989 varð Callejas sigurvegari í kosningunum og varð
forseti 1990.
Hann var fyrsti forseti stjórnarandstöðunnar í 57 ár, sem
hafði komizt til valda á friðsamlega hátt.
Stjórn
Callejas varð brátt að berjast við vaxandi vandamál á vinnumarkaði,
öldu glæpa og ofbeldis og ásakanir um spillingu.
Mikill ágreiningur kom upp milli sjálfstæðra bananaræktenda
og Chiquitafyrirtækisins árið 1990, sem drógu verulega úr útflutningi
banana og árið 1992 voru meðaltekjur í Hondúras orðnar 40% af því,
sem þær voru fyrir.
Þessi efnahagskreppa gerði frjálslyndum kleift að ná völdum
aftur 1994.
Umbótaloforð Carlos Roberto Reina tryggðu honum kosningu og
frjálslyndir voru endurkjörnir 1997, þótt þeim hefði ekki tekizt
eins vel upp og þeir lofuðu.
Nýi forsetinn, Carlos Flores Facussé, verkfræðingur með
mikil sambönd við BNA, fulltrúi íhaldsamra afla í Frjálslynda
flokknum, lofaði að halda áfram á sömu framfarabraut og forverar
hans. Í
október 1998 olli fellibylurinn Mitch svo mikilli eyðileggingur og
manntjóni í landinu, að efnahagur þess og samgöngukerfi voru rústir
einar á eftir.
Alþjóðasamfélagið hefur stutt við enduruppbygginguna.
|