Loftslagið er oftast heitt og rakastig hátt á hitabeltisláglendunum en verður
svalara, þegar ofar dregur.
Meðalhitinn á láglendissvæðunum neðan 460 m er 27°C.
Á norðurströndinni gætir stundum (október-apríl) svalra norðanvinda
frá meginlandi Norður-Ameríku.
Uppi í lægðum og dölum miðhálendisins er meðalhitinn 21°C.
Í höfuðborginni, Tegucigalpa, sem er í hæðóttu landslagi
í 975 m hæð yfir sjó, hefst regntíminn í maí og stendur til miðs nóvembermánaðar og
hitinn fer stundum upp í 32°C í maí en alla leið niður í 10°C í
desember.
Meðalárshiti í 2100 m hæð er u.þ.b. 14°C.
Á láglendissvæðum norður- og austurhlutans og í aðliggjandi
fjallendi er meðalúrkoman 1800-2800 mm.
Minnst rignir á tímabilinu frá marz til júní.
Þarna fara stundum fellibyljir yfir á sumrin og valda
geysilegri úrkomu.
Á Kyrrahafsströndinni og aðliggjandi fjöllum er meðalársúrkoman
1500-2000 mm en frá desember til apríl er úrkoma lítil sem engin.
Uppi í fjalladölunum er 1000-1800 mm meðalúrkoma.
Gróður.
Í austurhlutanum eru lón og fen með þéttum skógum fenjatrjáa
og pálma.
Vestan þessa svæðis eru lágar og sendnar sléttur með
mikilli úrkomu og vaxnar furu (pinus caribaea), sem teygjast a.m.k. 65
km frá ströndinni.
Enn vestar, í lágum dölum og á lágum fjöllunum, þar sem
rignir allt árið og á norðurfjöllunum, þar sem er líka úrkomusamt,
eru breið belti þéttvaxinna laufskóga.
Þar eru m.a. mahónítré, líftré, spænskur sedrus, balsa, rósviður,
ceiba pentandra, sapodilla plómutré og gúmmítré (castilloa).
Uppi á úrkomusömu miðhálendinu eru skilyrði góð fyrir eik
og furu, enda skiptast þar á graslendi og skógar í lægðum og dölum.
Kyrrahafsslétturnar og fjöllin um kring eru vaxin þéttum
hitabeltisskógi og grassléttum.
Talsvert ber á fenjaskógum meðfram ströndinni.
Dýralíf.
Skordýr, fuglar og skriðdýr eru mest áberandi í fánunni.
Fjöldi fiðrildategunda er talsverður og einnig mölflugna,
bjallna, býflugna, geitunga, köngullóa, maura og moskítóflugna og mörg
þessara skordýra eru alllitskrúðug.
Mikið er af sund- og vaðfuglum í strandhéruðunum og krókódílar,
snákar, eðlur (stóra ígvana o.fl.) og skjaldbökur eru á regnskógasvæðunum.
Víða eru dádýr, villisvín (peccary), tapírar, púmur, jagúarar
og villikettir.
Í lónum og á grunnsævi úir og grúir af skelfiski og ýmsum
fiskategundum.
Spánverjar ruddu víða brott skógi inni í landi til að fá
land til ræktunar og þar gætir uppblásturs.
Mikið var notað af skordýraeitri við bananarækt um miðja
20. öldina, sem olli umhverfisspjöllum í strandhéruðunum.
Á
tveimur síðustu áratugum 20. aldar voru margir þjóðgarðar og náttúruverndarsvæði
stofnuð til að varðveita náttúrulegan gróður og dýralíf
landsins.
Meðal þeirra er Mt. Bonito þjóðgarðurinn (1987), sem er
1125 km² og verndaða skógarsvæðið Cuero y Salado (1987) auk Isopohöfða
(1992).
Mt. Azul de Copán þjóðgarðurinn (155 km²) er við landamærin
að Gvatemala.
Þar er regnskógasvæði umhverfis hinar frægu majarústir í
Copán.
La Tigra þjóðgarðurinn var stofnaður 1980 (238 km²) uppi í
þokuskógunum nærri höfuðborginni Tegucigalpa. |