Búseta manna í Hondúras er orðin meira en 2100 ára.
Rústirnar í Copán í vesturhlutanum gefa til kynna, að þar
hafi verið miðstöð menningar maja áður en þeir færðu sig út á
Yukatanskagann.
Flestir indíánanna eru af lenkastofni.
Nú er þá einkum að finna í grennd við landamæri Gvatemala,
þar sem forfeður þeirra bjuggu áður en Kólumbus kom til skjalanna.
Í norðausturhlutanum búa einangraðir hópar indíána
(jicaque, moskító og paya), sem tala ekki spænsku og fækkar óðum.
Langflestir landsmanna, u.þ.b. 90%, eru mestizos (blendingjar
indíána og Spánverja).
Á Karíbaströndinni eru flestir þeldökkir, frá Karíbaeyjum
og garifuna.
Þar er enska útbreidd.
Opinbert tungumál Hondúras er spænska og rúmlega 80% íbúanna
eru rómversk-katólskir.
Mótmælendur eru aðallega í austurhlutanum og á Bayeyjum.
Mótmælendum hefur fjölgað verulega síðan fellibylurinn
Mitch geisaði árið 1998.
Á
fyrri hluta 20. aldar fluttu margir íbúanna frá miðhálendinu niður
á raka og heita norðurströndina, þar sem Sameinaða ávaxtafélagið
vantaði starfskraft.
Norðvesturláglendið og vestur- og suðurhálendið eru þéttbýlustu
svæði landsins.
Mikil mannfjölgun um miðja 20. öldina olli atvinnuleysi og húsnæðisskorti
og hún er enn þá meiri en meðalfjölgun í heiminum, þótt mikið
hafi dregið úr henni á síðasta áratugi aldarinnar.
Flestir íbúanna búa í dreifbýli, í litlum þorpum eða
einangruðum byggðum og innan við helmingur býr í borgum.
Á tveimur síðustu áratugum 20. aldar varð hröð fjölgun í
og umhverfis höfuðborgina Tegucigalpa.
Húsnæði varð strax ónóg, fátækrahverfi risu umhverfis
borgina, vatns- og loftmengun jókst og glæpum fjölgaði.
Annars staðar í landinu hafa litlar breytingar orðið vegna
fjalllendis, skóga og lélegra vega. |