Holland
er þingbundið konungserfðaríki. Fyrsta stjórnarskrá landsins leit
dagsins ljós árið 1814 og henni hefur verið breytt nokkrum sinnum síðan,
síðast 1983. Samkvæmt henni nær ríkið yfir Holland, Aruba og Hollenzku
Artilleyjar. Samskipti þessara landa eru skilgreind í lögum frá
desember 1954, sem kveða á um jafnræði þeirra.
Framkvæmdavaldið.
Þjóðhöfðingi Hollands er arfbundinn konungur/drottning, sem hefur lítil
völd eftir stjórnarskrárbreytingu 1848. Beatrix drottning tók við
völdum af móður sinni, Júlíu, í maí 1980. Framkvæmdavaldið er í höndum
forsætisráðherra, sem þjóðhöfðinginn tilnefnir og stýrir liði ráðherra
ríkisstjórnar. Stjórnin er ábyrg gagnvart löggjafarþinginu.
Löggjafarvaldið. Þingið starfar í tveimur deildum. Efri deild hefur 75
þingmenn, sem héraðsþingin kjósa til fjögurra ára. Neðri deild hefur
150 þingmenn, sem eru kosnir í almennum hlutfallskosningum til fjögurra
ára. Þjóðhöfðinginn getur leyst upp aðra eða báðar deildir þingsins en
þá verður að halda almennar kosningar innan 40 daga. Neðri deildin er
mikilvægari en hin efri. Efri deildin hefur litlu meiri völd en að
samþykkja eða hafna lögum frá neðri deild.
Dómsvaldið.
Dómskerfið nær til fjögurra dómstiga. Hæstiréttur er í den Haag.
Aðrir mikilvægir dómstólar eru áfrýjunarréttur, héraðsdómar og
fylkisdómar.
Héraðsstjórnir.
Landinu er skipt í 12 héruð (Drenthe), Flevoland, Frísland, Gelderland,
Groningen, Limburg, Norður-Brabant, Norður-Holland, Overijssel, Suður-Holland,
Utrecht og Zeeland. Hægt er að rekja pólitíska uppbyggingu hvers héraðs
til miðalda. Nú stjórnar héraðsstjóri hverju héraði í nafni krúnunnar
og löggjafarþingmenn þeirra eru kosnir í almennum kosningum. Smæstu
einingar stjórnsýslunnar eru næstum 700 sveitarfélög, allt frá stærstu
borginni til minnsta þorpsins. Sveitarstjórnir eru kosnar í almennum
kosningum og bæjar- og borgarstjórar eru tilnefndir af krúnunni.
Sveitarstjórnir hafa takmarkaðan rétt til skattlagningar og fá mestan
hluta rekstrarfjár síns frá ríkinu. Kosningaaldur í Hollandi er 18 ár.
Stjórnmálaflokkar.
Hlutfallskosningar ráða kjöri til sveitarstjórna, héraðsstjórna og þing
alls landsins. Þessi aðferð gerir smáflokkum kleift að koma að fólki.
Í neðrideildarkosningunum 1994 voru 25 flokkar með fólk í framboði og
níu þeirra komu mönnum að. Samsteypustjórnir hafa löngum stjórnað
landinu og oft hefur verið erfitt að koma þeim saman.
Stærstu
stjórnmálaflokkarnir eru Kristilegir demókratar (íhaldsflokkur), Vinsri
verkamannaflokkurinn, Þjóðlegi frjálslyndi lýðræðisflokkurinn (hægri
flokkur allra stétta) og Demókrataflokkurinn 66 (vinstri flokkur fyrir
þá, sem vilja beina þátttöku borgaranna). Flestir henna smærri flokka
eru yzt á hægri eða vinstri armi stjórnmálanna.
Heilbrigðis- og félagsmál.
Holland er eitthvert mesta velferðarríki Evrópu. Skattar og
almannatryggingar veita ríkisstjórnum aðgang að rúmlega helmingi
þjóðartekna. Mestum hluta þessa fjár er veitt til menntunar,
heilbrigðismála, atvinnuörvandi aðgerða og félagsmála. Almenn
skyldutrygging er við lýði fyrir alla undir ákveðnu tekjumarki, sem
þýðir, að u.þ.b. 70% landsmanna eru tryggðir. Hollendingar fá einnig
atvinnuleysisbætur, veikindabætur, lágmarkslaun (óvinnufærir),
ekkjubætur, munaðarleysisbætur, eftirlaun, tryggingu fyrir
lágmarkslaunum og fjölskyldubætur. Heilsufar Hollendinga er með hinu
bezta í heimi. Lífslíkur eru háar, 75 ár fyrir karla og 81 ár fyrir
konur síðla á níunda áratugnum.
Varnarmál.
Varnir landsins eru í höndum, landhers, sjóhers og flughers.
Holland er aðili að NATO. Árið 1993 tilkynnti ríkisstjórnin styttingu
herskildu úr 12-15 mánuðum í 9 og afnám hennar með öllu árið 1998.
Fjöldi hermanna árið 1993 var 74.600, þar af 2600 konur.
Alþjóðastofnanir.
Hollendingar hafa löngum tekið þátt í evrópsku- og
alþjóðlegu samstarfi. Árið 1960 voru þeir aðilar að stofnun
Efnahagsbandalags Benelúxlanda (Belgía, Lúxemburg, Holland), sem kom í
stað tollabandalags. Þeir voru stofnaðilar Evrópubandalagsins (EEC; nú
EU) árið 1957 og annarra evrópskra samtaka. Árið 1991 var gengið frá
samningum EU í Hollandi, þar sem áherzla var lögð á einn evrópskan
markað og gjaldmiðil. Hollendingar voru líka stofnaðilar Sameinuðu
þjóðanna og taka rösklega þátt í uppbyggingu efnahags fátækra þjóða. |