Sögulegar heimildir um hollenzka landsvæðið má rekja aftur til 1. aldar
f.Kr., þegar rómverskar herdeildir Júlíusar keisara náðu mestum hluta
þess undir sig. Þá var það byggt frísum, germönskum ættbálki, sem bjó
aðallega í norðurhlutanum, og öðrum germönum og keltum.
Áður en
Rómverjar lögðu svæðið undir sig höfðu þeir komið sér fyrir suðaustan
þess og austan Rínar að hluta. Friður og hagsæld ríkti undir rómverskri
stjórn í 250 ár. Rómverskir kaupmenn heimsóttu þennan hluta Rómarveldis
til að selja vörur frá Ítalíu og Gallíu (Frakklandi). Rómverjar byggðu
hof, komu á fót stórum búgörðum og komu siðmenningu sinni á.
Tök
Rómverja á svæðinu tóku að linast í kringum aldamótin 300 e.Kr.
Germanskir ættbálkar gerðu innrásir úr austri. Frísar stóðust þær en
saxar náðu undirtökunum í eystri hluta landsins og frankar náðu vestur-
og suðurhlutunum undir sig.
Miðaldir.
Frankar voru voldugastir þessara innrásarherja. Lönd þeirra náðu inn á
svæði, sem eru nú Norður-Frakkland og austur yfir Rín. Lokst tókst
konungum franka að sigra frísa og saxa og snúa þeim til kristni. Í
kringum aldamótin 800 var allt landsvæði núverandi Hollands undir stjórn
Karls mikla keisara. Að honum látnum klofnaði ríki hans og árið 843 var
því skipt í þrjá hluta með samningunum í Verdun. Upphaflega varð
Hollandi hluti af Lótringen og síðar (925) hluti Hins heilaga rómanska
ríkis. Þá var hollenzk þjóð ekki til og íbúarnir voru hollir
aðalsmönnunum, sem stjórnuðu smærri svæðum. Næstu aldirnar var farið að
nefna þennan hluta Evrópu ásamt Belgíu Niðurlönd.
Á 9. og
10. öld urðu landsmenn fyrir ítrekuðum árásum víkinga, sem gerðu
strandhögg og sigldu upp eftir ánum í leið að herfangi. Þörfin fyrir
öflugri varnir gegn þessum vágestum leiddi smám saman til valdameiri
héraðshöfðingja og aðalsmannanna, sem voru kjarninn í herjum þeirra.
Hlutverk borganna varð veigameira, þegar hermenn og kaupmenn fóru að
setjast þar að í auknum mæli og efldu varnir þeirra. Þessi þróun hélt
áfram allt fram á 14. öld og þær urðu mikilvægir markaðir. Undir
forystu ríkra kaupmanna fóru borgarbúar að ógna veldi aðalsmanna, sem
réðu í sveitum landsins. Kaupmennirnir studdu oft héraðshöfðingja í
baráttu þeirra við aðalinn og nutu gagnstuðnings við uppbyggingu
verzlunarinnar, borganna og stöðu þeirra sjálfra.
Snemma
á miðöldum voru héruðin Flanders og Holland, biskupsdæmið Utrecht og
hertogadæmin Brabant og Gelderland stofnuð. Nyrzt í landinu lutu frísar
aldrei stjórn annarra en eigin höfðingja. Tengsl Niðurlanda við Hið
heilaga rómanska ríki voru að mestu nafnið eitt á miðöldum. Nokkur
viðskipti fóru fram við þýzkar borgir á ströndinni (Bremen og Hamborg)
en aðalmenningaráhrifin komu frá Frakklandi.
Endurreisnartíminn.
Hjúskapur, stríð og stjórnmálakrækjur komu mestum hluta núverandi
Hollands í hendur hertoganna af Burgund á 15. og 16. öld. Um miðja 16.
öldina var þetta svæði ásamt Fríslandi undir stjórn Karls V, keisara
Hins heilaga rómanska ríkis. Hann var Habsborgari af spænska armi
þeirrar ættar og einnig konungur Spánar. Árið 1555 lét hann syni sínum,
Filippusi II, eftir konungdóminn á Spáni og Niðurlöndum. Filippus var
spænskfæddur og menntaður og hafði lítinn áhuga á norðurhluta ríkis
sins. Harðstjórn hans leiddi til sjálfstæðisbaráttu Niðurlendinga á
árabilinu 1568-1648 gegn voldugasta ríki Evrópu um þær mundir.
Sjálfstæðisbaráttan.
Stjórnmálaágreiningurinn milli Niðurlanda og Spánar varð samtímis
uppreisn mótmælenda gegn katólsku kirkjunni, sem var ríkiskirkja Spánar.
Hreyfingu Kalvínista óx fylgi á þessum tíma. Fylgjendur hennar á
Niðurlöndum komu á fót velskipulögðu kirkjustarfi og voru tilbúnir að
bjóða katólsku kirkjunni, einkum þó rannsóknarréttinum, byrginn. Í
uppþotum árið 1566 voru líkneski í katólskum kirkjum eyðilögð um allt
landið. Þá sendi Filippus II, konungur, hersveitir undir stjórn
hertogans af Alva, Fernando Alvarez de Toledo, til Niðurlanda.
Óbilgjarnar og harðneskjulegar aðgerðir hertogans og rannsóknarréttarins
ollu byltingu í Niðurlöndum. Vilhjálmur I, hinn þögli, prins af Orange,
var leiðtogi byltingarmanna.
Hollendingar voru á hrakhólum í fyrstu en einbeittu sér í norðurhlutanum.
Eftir að sjómenn, sem studdu Vilhjálm, náðu undir sig hafnarborginni
Brill árið 1572, tókst uppreisnarmönnum að leggja undir sig flestar
borgir í norðurhlutanum, sem urðu að miðstöðvum þeirra. Vilhjálmur
reyndi að halda samstöðu norður- og suðurhluta landsins en tókst ekki að
koma í veg fyrir stórsigra hins nýja, spænska hershöfðingja Alessandro
Farnese.
Árið
1579 var Utrechtsambandið milli allra héraða norðanlands og nokkurra í
suðurhlutanum stofnað. Auk stjórnmálalegrar þýðingar sambandsins
markaði það aðskilnað norðurhluta Niðurlanda, sem var stjórnað af
mótmælendum og varð síðar að Hollandi. Íbúar suðurhlutans, sem varð
síðar Belgía, voru langflestir katólskir. Árið 1581 lýstu
sambandshéruðin yfir sjálfstæði sínu. Í kjölfarið fylgdu ósigrar gegn
Spánverjum og mesta áfallið var morð Vilhjálms hins þögla árið 1584.
Næsta ár hafði Spánverjum tekizt að ná aftur undir sig næstum öllum
suðurhlutanum, þ.m.t. hinni mikilvægu hafnarborg Antwerpen. Gæfuhjólið
snérist loks Hollendingum í vil. Enskar hersveitir voru sendar til
Hollands á árunum 1585-87 og árið 1588 gjörsigruðu Englendingar spænska
flotann og komu þannig í veg fyrir frekari hernað Spánverja á erlendri
grund. Héruðin sjö í Utrechtsambandinu losnuðu við spænska herninn um
aldamótin 1600.
Frá
árinu 1609 til 1621 var vopnahlé milli Spánverja og Hollendinga en
stríðið dróst á langinn til 1648, þegar Spánverjar skrifuðu undir
friðarsamninga í Munster og viðurkenndu sjálfstæði og fullveldi
sambandshéraðanna. Hollendingar rufu öll tengsl við Spánverja og Hið
heilaga rómanska ríki og urðu lýðveldi
innan um öll konungsríkin í Evrópu.
Gullöldin.
Snemma á 17. öld blómstraði viðskipta- og listalíf að fengnu sjálfstæði
landsins. Þetta var tími Rembrandts og Jan Vermeers. Um miðja öldina
var Holland fremsta viðskipta- og sjóferðaveldi Evrópu og Amsterdam var
miðstöð fjármála.
Landkönnun og nýlendur.
Um aldamótin 1600 sigldu þrjú kaupskip frá Amsterdam Til Jövu. Þetta
var fyrsta sjóferðin af mörgum, sem komu hollenzkum staðarnöfnum víða um
heim á landakort, allt frá Jan Mayen til Hornhöfða og Staten-eyju til
Tasmaníu. Þessir leiðangrar urðu til stofnunar margra verzlunarstaða í
Afríku, Suðaustur-Asíu og vestanhafs. Árið 1602 veitti hollenzka þingið
Austurindíafélaginu einokunarleyfi til verzlunar við öll lönd austan
Góðrarvonarhöfða í Afríku og vestan Magellanssunds í Suður-Ameríku.
Leyfið veitti félaginu gríðarleg völd, s.s. að heyja stríð og semja um
frið. Vesturindíafélagið, sem var stofnað 1621, stofnaði nýlendur í
Karíbahafi, Brasilíu og Norður-Ameríku.
Austurindíafélagið kom sér fyrst fyrir á Molúkkaeyjum (Kryddeyjum) og
síðar á Vestur-Jövu, þar sem Batavía (nú Jakarta) varð aðalmiðstöð
félagsins. Starfsemi þess byggðist að mestu á viðskiptum og uppbyggingu
verzlunarstaða en að minnstu leyti á stjórnsýslu í viðskiptalöndunum.
Þróun
innanlands.
Sonur Vilhjálms þögla tók við völdum af föður sínum og síðar bróðir hans,
Friðrik Henrý. Þessi menn stjórnuðu í samstarfi við þing héraðanna sjö
en mestu réði oftast ríkasta héraðið, Holland. Vilhjálmur og eftirmenn
hans urðu fyrstu „þjónar lýðveldisins”. Völd þeirra voru mismunandi
eftir eftir forystuhæfileikum og loks varð staða þessa leiðtoga
arfbundin innan Orange-ættarinnar. Í valdatíð Maurice, ollu truer- og
stjórnmálalegar deilur milli mótmælenda og bókstafstrúaðra kalvínista
klofingi ríkisins. Kalvínistar áttu djúpar rætur í héraðinu Hollandi,
sem var þá undir stjórn Jan van Olden Barneveldt. Hin héruðin og
Maurice studdu mótmælendur, sem náðu yfirhendinni. Deilunum lauk með
aftöku Barneveldts fyrir landráð árið 1619.
Sonur
Friðriks Henrýs, Vilhjálmur II af Orange, blandaðist í hatramar deilur
við Hollandshérað og að honum gengnum var enginn leiðtogi skipaður fyrir
Holland og fjögur önnur héruð í rúmlega 20 ár. Vilhjálmur III af
orange, sem var leiðtogi frá 1672 til dauðadags 1702, var einnig
konungur Englands eftir 1689.
Hnignun
hollenzka lýðveldisins.
Samkeppni verzlunar- og flotaveldanna Hollands
og Englands þróaðist í blóðug hernaðarátök. Þær leystust ekki eftir
tvær styrjaldir (1652-54 og 1664-67). Að lokinni hinni síðari misstu
Hollendingar yfirráð yfir Nýju-Amsterdam (New York) en náðu undirtökum í
Hollenzku-Gíönu (Súrínam). Aðrar styrjaldir við Frakka og Englendinga
kostuðu fjölda mannslífa og gífurlega fjármuni,
Eftir
Spænska erfðastríðið 1701-14 í bandalagi við Breta gegn Frökkum fór
efnahag og stjórnmálalífi í Hollandi að hnigna. Loks féll landið í
skugga aukins veldis Breta á hafinu og Frakka á landi.
Þegar
Vilhjálmur III lézt
afkomendalaus,
krafðist fjarskildur ættingi, John William Friso, ríkiserfða með góðum
árangri. Árið 1717 varð sonur hans leiðtogi héraðanna sjö undir nafninu
Vilhjálmur IV. Síðla á 18. öld brutust út átök milli fylgismanna
Orange-ættarinnar, sem voru orðnir íhaldssamir, og Föðurlandsflokksins,
sem krafðist lýðræðislegra umbóta. Orangeflokkurinn naut skammvinns
sigurs með hjálp prússnesks innrásarhers árið 1787 en árið 1795 komu
franskar herdeildir hollenzkra útlaga, sem höfðu yfirgefið landið
sjálfviljugir, á batavísku lýðræði með frönsku byltinguna sem fyrirmynd.
Napóleontíminn og sameining við Belgíu.
Batavíska lýðveldið tórði til 1806, þegar Napóleon gerði landið að
konungsdæmi. Árið 1810 innlimaði hann það í Franska keisaraveldið.
Bretar notuðu tækifærið á meðan Holland var undir yfirráðum Napóleons og
sölsuðu undir sig nýlendur Hollendinga. Eftir fall Napóleons 1815
endurreisti Vínarfundur sjálfstæði landsins og landsvæðið, sem nú heitir
Belgía, var sett undir konungsríkið Holland.
Þessi
nauðuga sameining var báðum aðilum ógeðfelld. Þeir áttu lítið
sameiginlegt, s.s. í stjórnmálum, trúarbrögðum, tungumálum og efnahag.
Árið 1830 gerðu Belgar uppreisn og stofnuðu sjálfstætt ríki. Á
ráðstefnu voldugustu ríkja Evrópu í London breyttu þau niðurstöðum
Vínarfundarins Belgum í hag. Þá réðist hollenzkur her inn í Belgíu og
tvístraði belgíska hernum. Síðar var skilmálum aðskilnaðarins breytt
þannig að bæði löndin gátu samþykkt þá árið 1839.
Þróun
þingbundins lýðræðis.
Síðari hluti 19. aldar einkenndist af frjálsræðisanda í stjórn landsins
í kjölfar byltinganna í Evrópu á fimmta áratugi aldarinnar.
Umbótastefnan sést í nýju stjórnarskránni frá 1848, sem varð undirstaða
núverandi lýðræðis. Samkvæmt henni var einveldið afnumið. Fyrstu
þingmennirnir, sem konungurinn tilnefndi, voru kosnir á héraðsþingum
samkvæmt henni. Allir karlar, sem greiddu skatta fram yfir ákveðið
lágmark, kusu þingmenn héraðanna og neðri deildar þingsins.
Rómversk-katólsku héruðin í suðurhlutanum (Limburg og Norður-Brabant)
nutu sama réttar og önnur héruð samkvæmt úrskurði konungs en lýðveldið
fór með þau eins og unnin lönd. Stjórnarskráin frá 1848 linaði ekki
trúarbragðatökin á fólkinu, þannig að upp reis sterkur flokkur
rómversk-katólskra, sem keppti við frjálslynda og íhaldsflokka
mótmælenda. Á síðari hluta 19. aldar fengu æ fleiri kosningarétt og
kröfur um félagslegar umbætur jukust. Stofnun kröftugs verkamannaflokks
og verkalýðsfélaga leiddi til enn frekari umbóta.
Stjórn
nýlendnanna var einnig breytt til betri vegar. Í Indónesíu stækkuðu
Hollendingar yfirráðasvæði sitt, hættu erfiðri skattheimtu og eftir 1877
var hætt að flytja gróðann af nýlendunni í ríkissjóð landsins. Á
árabilinu 1880-1914 blómstraði efnahagslíf Hollendinga. Fyrri
heimsstyrjöldin batt enda á það vegna hafnbanns bandamanna, þótt landið
væri hlutlaust hernaðarlega. Erfiðlega gekk að byggja efnahaginn upp á
ný eftir stríðið, ekki sízt vegna heimskreppunnar í upphafi fjórða
áratugarins.
Síðari
heimsstyrjöldin og eftirstríðsárin.
Í upphafi síðari heimsstyrjaldarinnar lýstu Hollendingar yfir hlutleysi
sínu. Engu að síður óðu herir nasista yfir landið eftir miklar
loftárásir, sem lögðu mestan hluta Rotterdam í rústir. Mikið tjón varð
í öðrum landshlutum vegna hernaðar Þjóðverja og andspyrnuhreyfingarinnar,
sem sprengdi marga varnargarða í örvæntingarfullum tilraunum til varnar
og síðar komu herir bandamanna og ollu enn meira tjóni með framsókn
sinni. Þjóðverjar héldu velli til 1944-45.
Eftirstríðsárin einkenndust af uppbyggingarstarfi. Mikil áherzla var
lögð á uppbyggingu verzlunar og iðnaðar. Árið 1945 urðu Hollendingar
stofnaðilar að Sameinuðu þjóðunum. Árið 1948 fengu þeir fjárstyrki
samkvæmt Marshall-áætluninni um uppbyggingu Evrópu eftir stríðið.
Hollendingar, Belgar, Frakkar, Bretar og Lúxemborgarar gerðu með sér
Brusselbandalagið 1948. Hollendingar voru stofnaðilar í Stál- og
kolabandalaginu 1952. Árið 1949 urðu þeir aðilar að NATO, Evrópska
varnarbandalaginu 1952 og London-Paríssamningnum 1955. Á árunum fyrir
og eftir 1950 hækkaði verðlag mjög, viðskiptajöfnuðurinn var óhagstæður
og ríkisstjórn verkamannaflokksins var við völd.
Á
fimmta áratugnum urðu Hollendingar að láta í minni pokann fyrir
indónesískum þjóðernissinnum í Austur-Indíum og árið 1949 viðurkenndi
hollenzka stjórnin sjálfstæði Austur-Indía undir stjórn Indónesíu.
Hollenzka Nýja-Gínea var undir hollenzkri stjórn til 1962. Árið 1954
fengu Súrinam og Hollenzku-Antileyjar sama rétt og héruðin í Hollandi.
Efnahagsvandi.
Flokkur rómversk-katólskra komst til valda 1959 og hélt meirihluta í
neðri deild þingsins í kosningunum 1963 og 1967. Samsteypustjórnirnar,
sem flokkurinn myndaði á sjöunda áratugnum voru óstöðugar. Órói á
Hollenzku-Antileyjum 1969 ollu flutningum sjóherja þangað til aðstoðar
lögreglunni. Verðbólga hrjáði landsmenn á sjöunda og áttunda áratugnum.
Komið var á verðstöðvun (vara og laun) árið 1970 og skattar voru
hækkaðir 1971. Í kosningunum 1971 missti samsteypustjórn fjögurra
flokka meirihluta sinn. Eftir tveggja mánaða samninga milli flokkanna
var mynduð stjórn undir forystu Andbyltingarflokksins. Þessi stjórn
entist til 1972 og bráðabirgðastjórn hélt um stjórnvölinn til marz 1973,
þegar Joop den Uyl, leiðtogi Verkamannaflokksins, varð forsætisráðherra
fimm flokka stjórnar. Þegar Súrinam fékk fullt sjálfstæði 1975, juku
hundruð þúsunda
innflytjenda þaðan enn á raunir stjórnarinnar.
Eftir
þingkosningar árið 1977 splundaðist stjórn den Uyl vegna ósamkomulags um
umbótatillögur. Nýr forsætisráðherra, Christian Democrat Andreas van
Agt, tók við embætti síðar sama ár. Árið 1980 settist Beatrix prinsessa
í konungsstól, þegar móðir hennar, Júlía drottning, sagði af sér.
Stjórn van Agts missti meirihluta sinn í þinginu í maí 1981 en hann
myndaði nýja samsteypustjórn, sem sat frá sept. 1981 til maí 1982.
Þingkosningar voru haldnar í sept. 1982. Eftir þær sagði van Agt óvænt
af sér sem formaður Kristilegra demókrata. Eftirmaður hans var Ruud
Lubbers, sem myndaði nýja stjórn í nóvember 1982 og hélt sjó til 1994.
Árið
1983 var haldin stjórnarskrárráðstefna. Þar var samþykkt að Aruba yrði
ekki hluti Hollenzku-Antileyja lengur en til 1986, heldur sérstakur
hluti hollenska konungsríkisins. Aruba átti að halda þessari stöðu í 10
ár og verða síðan sjálfstæð 1996. Árið 1995 samþykkti hollenzka þingið
lög, sem leyfðu læknum landsins líknardráp að beiðni ólæknandi sjúklinga.
Skýrslur sýndu, að u.þ.b. 3000 sjúklingar he´ðu
notið aðstoðar á þessu sviði síðan 1993.
Kristilegir demókratar töpuðu stórt í kosningunum 1994. Vaxandi
atvinnuleysi og niðurskurði í félagslega kerfinu var kennt um.
Verkamannaflokkurinn varð stærstur flokka, þótt hann yrði líka fyrir
áföllum. Eftir u.þ.b. fjögurra mánaða tilraunir tókst leiðtoga
Verkamannaflokksins og nýjum forsætisráðherra, Wim Kok, að mynda
samsteypustjórn með Hægri þjóðarflokknum og Vinstri demókrögum 66.
Þessi stjórnarmyndun skildi Kristilega demókrata eftir í
stjórnarandstöðu í fyrsta skipti í tvo áratugi. Nýja stjórnin stefndi
að enn frekari niðurskurði í félagsmálum og útgjöldum ríkisins.
Í
febrúar 1995 vaknaði draugur flóðanna miklu 1953, þegar rúmlega 250
þúsund manns voru flutt brott af heimaslóðum vegna ótta við flóð af
völdum mikilla vatnavaxta í Rín og Mas. Varnargarðarnir héldu og fólkið
snéri aftur heim. Ríkisstjórnin tilkynnti, að styrkingu
þeirra
yrði hraðað. |