Holland
er meðal þéttbýlustu landa heims. Hollendingar eru langstærsti hluti
íbúanna, aðallega komnir af frönkum, frísum og söxum. Stjórn landsins
óttaðist offjölgun íbúanna eftir síðari heimsstyrjöldina og hvatti til
brottflutnings. Næstum hálf miljón flutti úr landi en miklu fleiri
fluttust til landsins, Evrópumenn og íbúar fyrrum nýlendna Hollendinga í
Asíu (Indónesía). Þá kom fjöldi iðnverkamanna frá Tyrklandi, Marokkó og
öðrum Miðjarðarhafslöndum. Einnig kom fjöldi manns frá Súrinam, fyrrum
nýlendu, og Hollenzku Antileyjum. Nú býr fólk af mjög mismunandi
uppruna í landinu, einkum í borgunum.
Íbúafjöldi.
Í ágúst
2003 var Íbúafjöldinn 16.234.246, þannig að íbúafjöldi á hvern
ferkílómetra er að nálgast 500. Langflestir íbúanna búa í borgum og
bæjum (89%). Stærstu borgirnar eru Amsterdam, höfuðborg landsins,
Rotterdam, einhver stærsta hafnarborg heims, Haag, setur ríkisstjórnar
og dómskerfisins og Utrecht, iðnaðarborg. Sextán aðrar borgir hafa
fleiri en 100 þúsund íbúa. Margar þeirra eru í Vestur-Hollands-,
Suður-Hollandshéraði og í Utrecht, sem eru þéttbýlustu svæði landsins (Randstad
Holland).
Tungan.
Opinbert tungumál Hollendinga er hollenzka, sem er töluð um all land. Í
norðurhéraðinu Fríslandi talar fjöldi íbúanna frísnesku.
Trúarbrögð.
Rómversk-katólskir
eru u.þ.b. 36% íbúanna, aðallega í suðurhluta landsins, og mótmælendur 32%,
sem skiptast í mörg trúfélög vítt og breitt um landið. Stærsta trúfélag
mótmælenda er Hollenzka siðbótarkirkja. Í Hollandi er engin ríkistrú en
þetta trúfélag hefur átt nánari tengsl við ríkið en önnur allt frá því,
að Lýðveldið Holland var stofnað um miðja 17. öldina. Allir
þjóðhöfðingjar landsins hafa verið í þessu trúfélagi.
Gyðingar eru talsvert margir í landinu.
Rúmlega 32% íbúanna eru utan kirkju- og trúfélaga.
Menntun
og menning.
Veruleg breyting varð á menningarstarfsemi og félagslífi í Hollandi á
sjöunda áratugi 20. aldar. Fram að því byggðist líf fólks að mestu á
þaulskipulagðri starfsemi. Menntun, stjórnmál, fjölmiðlar,
heilbrigðismál, verkalýðsfélög og aðrir þættir samfélagsins byggðust á
nefndum mótmælenda, katólskra eða trúleysingja á öllum stigum
stjórnsýslunnar. Á breytingaskeiðinu störfuðu sósíalistar og
frjálslyndir með trúleysingjum utan þessara nefndi. Á níunda áratuginum
voru flestir Hollendingar að mestu sloppnir úr viðjum þessa kerfis.
Menntun.
Allt frá siðbótinni á 16. öld hafa Hollendingar notið grunnmenntunar og
tiltölulega mikils læsis. Á 19. öld var hófst skipulagsvinna við
menntakerfið með fjárframlögum til skóla. Því meiri sem afskipti
ríkisins urðu af menntakerfinu risu upp deilur um örlög einkaskóla,
aðallega skóla, sem kirkjan rak. Skóladeilan varð eldfimu, pólitísku
máli og var ekki leyst fyrr en árið 1917, þegar stjórnarskrárbreyting
tryggði jafnræði einka- og opinberra skóla um opinberan stuðning. Nú er
u.þ.b. þriðjungur grunnskóla landsins ríkisrekinn og tveir þriðjungar
einkareknir, aðallega katólskir eða á vegum mótmælenda. Skólaskylda
gildir fyrir born á aldrinum 5-16 ára. Nemendur eru í barnaskóla í sex
ár og ganga síðan í gagnfræðaskóla, sem bjóða starfsmenntun og þjálfun.
Snemma á tíunda áratugi 20. aldar gengu rúmlega 2 miljónir nemenda í
barnaskóla og u.þ.b. 1,7 miljónir í gagnfræða-, starfsþjálfunar- og
kennaraskóla.
Fjöldi
nemenda æðri menntastofnana hefur aukizt gífurlega síðan 1960. Árið
1993 voru 560 þúsund nemendur í mið- og háskólum. Helztu ærði
menntastofnanir landsins eru Amsterdamháskóli (1632) og ríkisháskólarnir
í Groningen (1614), Leiden (1575) og Utrecht (1636). Einnig eru nokkrir
tækni- og listaháskólar reknir í landinu.
Menningarlíf.
Hollenzki rithöfundurinn, fræðimaðurinn og mannvinurinn Desiderius
Erasmus hafði mikil áhrif í norðanverðri Evrópu á 16. öld og á 17.
öldinni varð menningarlíf landsmanna að fyrirmynd. Þetta tímabil er oft
nefnt „Hollenzka gullöldin”. Meðal áhrifamanna þessa tímabils voru
lögfræðingurinn Hugo Grotius, vísindamaðurinn Christiaan Huygens og
Antoni van Leeuwenhoek, kortagerðarmennirnir Willem Janszoon Blaeu og
Jodocus Hondius, rithöfundarnir Pieter Corneliszoon Hooft og Joost Van
den Vondel, heimspekingurinn Baruch Spinoza og fjöldi guðfræðinga.
Meðal margra útlendinga, sem bjuggu í Hollandi vegna frjáls- og
umburðarlyndis landsmanna, voru franski heimspekingurinn og
stærðfræðingurinn René Descartes og enski heimspekingurinn John Locke.
Meðal kunnra sautjándu aldar listamanna voru Rembrandt, Jan Vermeer,
Frans Hals og Jan Steen. Listalífið var öflugt og hélt velli fram á
okkar daga. Frjósamur jarðvegur þess ól af sér listamennina Vincent van
Gogh, Pie Mondrian og Karel Appel. Mest grózka er í Amsterdam, þar sem
listamenn úr öllum heimshornum starfa.
Menningarstofnanir.
Synfóníuhljómsveit Amsterdam (Concertgebouw) nýtur alþjóðlegrar
viðurkenningar og aðrar slíkar, s.s. í Rotterdam einnig. Helztu
bókasöfn landsins eru í ríkisháskólanum í Leiden, Amsterdamháskóla og
Konunglega bókasafnið í Haag. Opinber bókasöfn eru vítt og breitt um
landið. Kunnustu söfn landsins sýna öll verk hollenzku meistaranna.
Meðal þeirra eru Ríkissafnið, Rembrandthúsið, safn Vincent van Gogh og
Borgarsafnið í Amsterdam, Máritíushúsið í Haag, Boymans-van
Beuningen-safnið í Rotterdam og Kröller-Müller-safnið í Hoge
Veluwe-þjóðgarðinum í Otterlo. |