Holland
lék stórt hlutverk í efnahagslífi Evrópu um aldabil. Allt frá 16. öld
voru Hollendingar leiðandi afl á sviðum flutninga á heimshöfunum,
fiskveiða, viðskipta og fjármálastarfsemi. Viðskipti við hollenzka
nýlenduveldið voru mikilvæg á 19. öldinni og fyrri hluta hinnar
tuttugustu. Eftir að Indónesía fékk sjálfstæði síðla á fimmta áratugi
20. aldar, hefur stefnan í efnahagsmálum verið tekin á viðskipti við
Evrópuþjóðir. Fjölbreyttur
iðnaður þróaðist samtímis samdrætti vinnuafls í landbúnaði. Landið
flutti út mikla orku eftir að miklar birgðir af náttúrugasi fundust.
Ríkisstjórnir landsins léku stórt hlutverk í öllum þessum breytingum.
Áhrif þeirra voru og eru mikil, þrátt fyrir að flest fyrirtækjanna séu
einkarekin, því að þær útdeila u.þ.b. helmingi þjóðartekna.
Framleiðsla. Árið 1992 var verg þjóðarframleiðsla Hollands 320,4 miljarðar US$,
þannig að meðaltalið á mann var 21.050.-. Áratuginn 1980-90 óx hún að
meðaltali um 1,9% á ári. U.þ.b. 31% þjóðarframleiðslunnar komu frá
iðnaði, byggingarstarfsemi og orkugeiranum en framlegð landbúnaðarins
var aðeins 4%. Þjónustugeirinn, fjármálastarfsemi og opinber starfsemi
voru í kringum 60%.
Landbúnaður.
Smæð
Hollands og mikið þéttbýli veldur því, að landrými til landbúnaðar er
takmarkað og verður því að nýta hvern fersentimetra mjög vel. Það hefur
tekizt allvel, því mikið er flutt út af landbúnaðarvörum (kjöt, blóm,
grænmeti, smjör, ostur o.fl.). Verðmæti útfluttrar landbúnaðarvöru er
meira en útgjöld til innflutnings korns, suðrænna ávaxta og dýrafóðurs.
Flest býli eru smá í sniðum. Tún og beitilönd ná yfir u.þ.b. helming
lands, sem er nýtt til landbúnaðar, 40% eru nýtt til kornræktar og
afgangurinn til ræktunar blóma. Árið 1990 nam framleiðslan 8,2 miljónum
tonna af sykurrófum, 7,9 af kartöflum, 4 af grænmeti og ávöxtum, 1 af
hveiti og 319 þúsundum tonna af öðrum korntegundum. Fjöldi nautgripa
var 4,7 miljónir, svína 14,9 og hænsna 96.
Timbur-
og fiskiðnaður.
Timburframleiðsla er lítilvæg í þessu skóglitla landi. Fiskveiðar eru
byggðar á langri hefð og eru enn þá mikilvægar, þrátt fyrir minnkandi
fiskistofna í Norðursjó, sumpart vegna mengunar. Helztu fisktegundir,
sem Hollendingar draga úr sjó, eru síld, þorskur, lúða, koli, makríll,
skelfiskur og rækjur. Heildarafli síðla á níunda áratugi 20. aldar var
421.600 tonn.
Orka og
námuvinnsla.
Iðnaðurinn byggist á orkulindum landsins. Öldum saman hafa Hollendingar
notað vindmyllur og torf sem orkugjafa. Ný tækni leiddi til aukins
mikilvægis kola. Birgðir í Limburghéraði stóðu undir hluta
innanlandsþarfa en mestur hluti þeirra var fluttur inn. Olía og
náttúrugas urðu mikilvægari eftir síðari heimsstyrjöldina og voru flutt
inn. Rotterdam varð aðalinnflutnings- og olíuvinnsluborgin. Á sjötta
og sjöunda áratugnum fundu Hollendingar miklar birgðir náttúrugass í
Groningenhéraði. Framleiðslan jókst hratt, þannig að síðustu
kolanámunum var lokað 1973, og mikill útflutningur náttúrugass hófst.
Síðla á níunda áratugnum var 29,4 miljónum tuna af hráolíu pumpað úr
jörðu auk 82,5 miljarðar rúmmetra af gasi. Þá var framleiðsla rafmagns
17,4 miljónir kílóvött eða 77,2 miljarðar kílóvattstunda. Á tíunda
áratugnum var farið að huga betur að hagkvæmni vindaflstöðva vegna
mengunar. Árið 1992 var búið að setja upp 630 hátæknivindmyllur, sem
framleiddu 144 miljónir kílóvattstunda.
Iðnaður.
Iðnaður Hollendinga
er
mjög fjölbreyttur og margt er nýtt af nálinni. Iðnframleiðsla var
tiltölulega lítilvæg þar til eftir síðari heimsstyrjöldina.
Þungaiðnaður (stál, flutningatæki, vélbúnaður) er ekki nærri eins
mikilvægur í Hollandi og í nágrannaríkjunum. Grózkan að stríðinu loknu
hefur aðallega legið í efna- og elektrónískum iðnaði. Framleiðsla
matvæla, drykkjarvöru, tóbaks, byggingarefna, skipa, olíuvöru, gúmmís og
plastvöru og útgáfustarfsemi hefur einnig mikið vægi.
Fjármál.
Gjaldmiðill Hollendinga er gulden. Hollandsbanki (1814) sér um útgáfu
peninga. Gengi hans var þétttengt gengi gjaldmiðla annarra helztu þjóða
Evrópu, einkum þýzka markinu, áður en evran kom í hans stað. Amsterdam
er aðalfjármála- og tryggingaborg landsins og þar er einnig
aðalkauphöllin.
Erlend
viðskipti.
Efnahagur Hollendinga byggist mikið á heimsverzluninni. Mikill hluti
vöru í höfnum landsins er á leiðinni til annarra landa, aðallega ESB-landa.
Allt frá árinu 1980 hefur útflutningur oftast verið meiri en
innflutningur. Önnur ESB-lönd eru mestu viðskiptalönd Hollands.
Þýzkaland er mikilvægast (26%). Útflutningur náttúrugass hefur aukið
gjaldeyrissjóð landsins og aukinn straumur ferðamanna hefur bætt um
betur. Ferðamenn laðast að landinu vegna blómaræktarinnar, bátsferða um
vötn og skurði, sögunnar, listarinnar og menningarhefða. Hollendingar
eru einnig vinsælir vegna þess, hve andrúmsloftið er afslappað og hve
umburðarlyndir þeir eru. Hollendingar ferðast mikið sjálfir og eyða
a.m.k. tvöfaldri innkomunni í ferðum sínum um heiminn.
Flutningar og samgöngur.
Góðar samgöngur hafa löngum verið nauðsynlegar vegna þess, hve mikill
hluti efnahagsins byggist á alþjóðaviðskiptum. Rotterdam er meðal
stærstu hafna heims og Amsterdam er einnig mikilvæg hafnarborg. Báðar
borgirnar eru tengdar sjó með miklum skipaskurðum, sem tengjast
vatnavegum annarra Evrópulanda.
Nýju
skurðirnir tengja Rotterdam við Norðursjó og um Norðursjávarskurðinn við
Amsterdam. Hollenzkar vatnaleiðir, skipaskurðir og ár, sem stærri skip
en 400 brúttótonn geta farið um eru tæplega 3000 km langar og ná næstum
út í öll horn landsins. Farskipafloti landsins er gríðarstór, 4,7
miljóna tonna seint á níunda áratugnum, þegar u.þ.b. 6200 skip voru í
förum.
Ríkisjárnbrautirnar eru u.þ.b. 2810 km langar og 65% þeirra ganga fyrir
rafmagni. Þær ná til alls landsins og veita öra og góða þjónustu.
Vegna þess, hve flutningaprammar flytja mikið af alls konar vöru, hafa
járnbrautirnar aldrei náð fótfestu á vöruflutningamarkaðnum.
Vegakerfið er 2320 km langt og fjöldi bifreiða seint á níunda áratugnum
var 5,1 miljón. Notkun reiðhjóla er mikil og víða eru sérstakar brautir
fyrir þau meðfram vegum.
Mesta
flugumferðin fer um alþjóðaflugvöllin Schiphol í grennd við Amsterdam.
Smærri flugvellir þjóna Groningen, Maastricht, Rotterdam og öðrum borgum.
Innanlandsflugið er ekki mikilvægt vegna lítilla fjarlægða og annarra
flutningsmiðla. Aðalflugfélag landsins er Konunglega hollenzka
flugfélagið (KLM).
Fjölmiðlar.
Auk fjölda héraðs- og staðarblaða eru gefin út sex dagblöð, sem ná
dreifingu um allt land. Hvert þeirra á sér einhverja pólitíska eða
félagslega bakhjarla. NRC-Handelsblad (Rotterdam) er frjálslynt og óháð
trúfélögum. Volkskrant (Amsterdam) er tengt katólskum. Trouw
(Amsterdam) er tengt siðbótarkirkjunni og Het Vrije Volk (Rotterdam) er
tengt Sósíalistaflokknum. Mesta útbreiðslu hefur óháða dagblaðið
Telegraaf (Amsterdam). Samkvæmt lögum frá 1988 sjá tveir aðilar um
skipulagningu útvarps og sjónvarps, óháð fyrirtækjasamsteypa sér um
framleiðsluaðstöðu en hálfopinbert fyrirtæki sér um útsendingar alhliða
dagskrár, líkt og íslenzka ríkisútvarpið. Flestar útsendingar eru
byggðar á afnotagjöldum og sköttum og útsendingatíma er skipt á milli
samtaka í hlutfalli við fjölda meðlima þeirra. Fjöldi einkaframleiðenda
efnis starfar einnig samhliða, þótt einkastöðvar séu ekki leyfðar. Árið
1993 voru 5,3 miljónir sjónvarpsviðtækja og 12 miljónir útvarpsviðtækja
í landinu.
Verkalýður.
Árið 1993 voru 6,5 miljónir manns bundnar í þjónustu- og
viðskiptageiranum. Fjórðungur vinnuaflsins var bundinn í
framleiðslustörfum, 10% í viðskiptum og fjármálum og 4% í landbúnaði,
timburvinnslu og fiskveiðum og vinnslu. Í kringum 29% vinnandi fólks
eru í verkalýðsfélögum. Hin stærstu þeirra er Alþýðusamband Hollands og
Kristilegt samband verkalýðsfélaga. Ríkisstjórnir hafa ævinlega
afskipti af samningum milli þeirra og vinnuveitenda til að tryggja, að
niðurstaða þeirra hafi ekki skaðleg áhrif á efnahagsástandið. |