Den Haag Holland,
Flag of Netherlands


DEN HAAG
HOLLAND

.

.

Utanríkisrnt.

Haag er stjórnarsetur Hollands, þótt Amsterdam sé höfuðborg landsins.  Haag er samt höfuðborg héraðsins Suður-Holland í vesturhluta landsins.  Borgin er u.þ.b. 6 km frá ströndum Norðursjávar.  Hún er þriðja stærsta borg landsins og þar eru flest erlend sendiráð.

Haag byggir afkomu sína að mestu á opinberri þjónustu og stjórnsýslu.  Borgin er aðsetur Alþjóðadómstólsins og umboðsskrifstofu Sameinuðu þjóðanna og vaxandi ráðstefnuborg.  Hún er einnig mikilvæg samgöngumiðstöð (járnbrautir, þjóðvegir og skipaskurðir).  Mörg alþjóðleg fyrirtæki eiga höfuðstöðvar sínar í borginni (Shell o.fl.).  Víða um borgina eru verksmiðjur, sem framleiða margs konar vörur (rafeindatæki, málmvörur, efnavörur, gler, prentað efni, súkkulaði og matvæli).

Meðal áhugaverðra staða í Haag eru Binnenhof og Buitenhof, stjórnarbyggingar allt frá 13. öld, s.s. höll ríkishershöfðingjans, dómstólar og Ridderzaal (Riddarasalurinn; 1252), þar sem hollenzku ríkin höfnuðu yfirráðum Filips II, Spánarkonungs, árið 1581.  Fornir turnar og hlið standa umhverfis þessa húsaþyrpingu.  Skammt norðar er aðaltorg borgarinnar og hið fræga Konunglega Mauritshuis-listasafn, sem kunnast er fyrir 15.-17. aldar hollenzk málverk.  Groote Kerk (Stórakirkja) er frá 15. öld, Stadhuis (ráðhúsið) er frá 1565 og Gevangenpoort (Fangelsishlið; nú safn), þar sem hollenzku stjórnvitringarnir Jan De Witt og Cornelius De Witt voru myrtir árið 1672.  Meðal nýrri, áberandi bygginga eru Friðarhöllin (1913), sem bandaríski iðnjöfurinn og mannvinurinn Andrew Carnegie gaf 1903, og hýsir nú Alþjóðadómstólinn, nýja ráðhúsið og Ráðstefnumiðstöð Hollands (1969).  Meðal menntastofnana eru Félagsfræðistofnunin (1952), Konunglegi tónlistar- og dansskólinn (1826) og Konunglega listasafnið (1682).  Madurodam er endurgert, hollenzkt þorp í smækkaðri mynd með fjölda þekktra bygginga víða að í landinu, sem laðar fjölda ferðamanna að.

Sagan.  Upphaflega var (Den) Haag veiðistaður hollenzku greifanna en varð að brennipunkti hirðlífsins, þegar Vilhjálmur af Hollandi lét reisa kastala þar árið 1248.  Síðla á 16. öld varð bærinn höfuðborg landsins í byltingu Hollendinga gegn spænskum yfirráðum.  Frakkar réðu borginni frá 1795-1813 og tveimur árum síðar var hirðlífið komið í gang á ný eftir stofnun konungsríkisins Sameinaðs Hollands, sem náði yfir Belgíu til 1830.  Friðarráðstefnurnar í Haag árið 1899 og 1907 juku mikilvægi borgarinnar sem vettvangur alþjóðlegra stjórnmálasamskipta og dómsmála.  Í kjölfarið var Haagdómstóllinn (lokaáfrýjunarréttur) stofnaður.  Allt frá fyrri hluta áttunda áratugar 20. aldar hefur verið unnið að flytja ríkisfyrirtæki og stjórnsýslustarfsemi til landshluta, þar sem hætt er við byggðaröskun vegna fábreytts atvinnulífs.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM