Gvatemalaborg,
Flag of Guatemala


GVATEMALABORG
GVATEMALA

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Borgin heitir Ciudad de Guatemala á spænsku.  Hún er stærst borga Mið-Ameríku og stjórnmála-, félags-, menningar- og efnahagsleg miðstöð landsins.  Hún er í dal í miðhálendinu í 1493 m hæð yfir sjó í tempruðu og þægilegu loftslagi.  Borgin var stofnuð árið 1776 til að taka við hlutverki Antigua Guatemala, sem jarðskjálftar lögðu að mestu í rústir árið 1773.  Eftir að ríkið losnaði undan yfirráðum Spánverja árið 1821 var borgin höfuðborg héraðs keisaradæmis Mexíkós í tíð Agustin de Iturbide (1822-23), Bandaríkja Mið-Ameríku (1823-33) og loksins hins sjálfstæða lýðveldis.  Vantrú íbúa BMA á þessari villtu borg, þar sem barizt var götunum og í opinberum byggingum, olli slitum BMA og gerði allar tilraunir til endurvakningar þeirra að engu.  Þegar Quezaltenango, sem var í raun og veru höfuðborg landsins, hrundi í jarðskjálftum 1902, fluttu margar ríkar og voldugar fjölskyldur til Gvatemalaborgar.

Nútímaborgin var að mestu endurbyggð eftir jarðskjálfta 1917-18, sem skóku borgina með hléum í sex vikur.  Svipur borgarinnar breyttist, þegar margra hæða steinsteypu- og stálbitabyggingar risu í stað lágra og traustbyggðra húsa.  Glæsileg íbúðahverfi hafa sprottið upp í útjöðrum borginnar, einkum til suðurs, og ódýrt húsnæði vítt og breitt. 

Greiðar samgöngur með járnbrautum, um vegakerfið og í lofti gera Gvatemalaborg að aðalverzlunarborg landsins.  Auk stjórnsýslumiðstöðva eru helztu fjármála- og viðskiptastofnanir og fyrirtæki landsins með höfuðstöðvar í borginni.  Bæði þar og í kringum borgina eru stór iðnfyrirtæki, sem framleiða rúmlega helming allrar iðnaðarvöru landsins.

Borgin er einnig aðalmennta- og menningarmiðstöð Gvatemala.  Þar eru aðalstöðvar San Carlos-háskólans (st. 1676), listaskólar, verzlunarskólar, iðnskólar og herskólar; Landafræði- og sögufélagið og mörg áhugaverð söfn.  Meðal opinberra bygginga, sem eru áhugaverðar, er Þjóðarhöllin, pósthúsið, aðallögreglustöðin, Þjóðskjalasafnið, Forngripasafnið (fágætt safn forngripa frá mayatímanum), Þjóðarbókhlaðan og fjöldi bygginga í kringum ráðhúsið.  Dómkirkjan var byggð árið 1815 og aðrar kirkjur, s.s. San Francisco, Santo Domingo (Helguvikuskrúðgöngur) og La Merced (nýlendustíll; endurbyggð eftir 1917) eru líka áhugaverðar.


Aðrir áhugaverðir staðir eru m.a. stórt steinsteypukort af landinu í Minerva almenningsgarðinum, Þjóðminja- og sögusöfnin, vatnsleiðslan frá nýlendutímanum, markaðurinn í miðborginni og Ólympíuþorpið, sem var byggt fyrir Ólympíuleikana í Mið-Ameríku árið 1950.

Umhverfis borgina eru m.a. þorpin Chinautla, sem er frægt fyrir handgerða leirmuni, Mixco, sem sér borginni fyrir ávöxtum og grænmeti og indíánabæirnir San Pedro og San Juan Sacatepéquez, sem skemmdust mikið í jarðskjálftunum 1976.  Áætlaður íbúafjöldi í Gvatemalaborg 1989 var 1.057.210.


.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM