Fyrstu
íbúar landsins settust líklega að á hásléttunni einni teinöld
fyrir Kristsburð. Warrau-indíánar
kunna að hafa verið hinir fyrstu og síðan komu arawakar og karíbar.
Fyrstu samfélögin stunduðu skiptiræktun og dýraveiðar.
Kólumbus kom auga á strönd Gíana 1498 og Spánverjar gerðu
kröfu til landsins milli ósa Orinoco og Amasón án þess að hafa
frekari afskipti af því. Þessi
strandlengja gekk undir nafninu Villta ströndin.
Hollendingar hófu fyrstir Evrópumanna landnám á þessum slóðum
og komu á fót verzlunarstöðum upp með ánum í kringum 1580.
Um miðja 17. öld hófst innflutningur þræla frá Vestur-Afríku
til að vinna við ræktun sykurreyrs.
Á 18. öld hófst nýting lands niður með ánum og á hinum
frjósömu leireyrum í ósunum. Laurens
Storf van’s Gravesande, landstjóri Essequibo (1742-72) sá um
skipulagningu þessa landnáms.
Á
árunum 1780-1815 börðust Frakkar og Bretar oft um yfirráðin yfir
landinu og gekk á ýmsu. Eftir
skömm yfirráð Frakka var Longchamps, síðar kölluð Georgetown,
stofnuð við ósa Demerara. Hollendingar
nefndu borgina Stabroek og héldu áfram að þróa hana. Bretar tóku við 1796 og héldu landinu með stuttum hléum
til 1814, þegar þeir keyptu héruðin Demerara, Berbice og Essequibo.
Þau voru sameinuð sem Brezka Gíana árið 1831.
Þrælaverzlunin
var lögð niður 1807, þegar fjöldi þræla í landinu var orðinn í
kringum 100.000. Eftir að
þrælahald var afnumið 1838 hurfu negrarnir af plantekrunum til að
koma sér fyrir annars staðar á strandlengjunni. Þá fluttu bændurnir inn verkafólk víða að.
Talsverður fjöldi Indverja kom til samningsbundinnar vinnu og
stóð sig vel. Þegar
samningstíma þeirra var lokið, settust margir þeirra að í þorpunum
á ströndinni í grennd við plantekrurnar í kjölfar mikillar
efnahagskreppu, sem evrópsk samkeppni í sykurrófuræktun olli.
Landnámið
var hægfara, þegar gull fannst 1879 og mikið æði greip um sig.
Norðvesturhlutinn var skipulagður 1889 og varð deiluefni 1895,
þegar BNA studdu Venesúela í kröfum um yfirráð á þessu svæði. Venesúela krafðist þessa landsvæðis á ný 1962 og
deilan var falin Sameinuðu þjóðunum til úrlausnar.
Niðurstaða er ókomin.
Þegar
Bretar tóku við yfirráðum af Hollendingum fengu þeir flókið stjórnsýslukerfi
í arf. Breytingar á því
árið 1891 fengu kjörnum fulltrúum héraðanna meiri völd en frekari
umbætur 1928 færðu landstjóranum öll völd. Árið 1953 var kosið um nýja stjórnarskrá, sem gerði ráð
fyrir tveggja deilda þingi og ríkisstjórn.
Næstu
13 árin var stormasamt á pólitíska sviðinu.
Framfaraflokkur fólksins með Cheddi Jagan í fararbroddi myndaði
fyrstu ríkisstjórnina. Hún
virtist hlynnt kommúnisma og Bretar afnámu stjórnarskrána í október
1953 og sendu herinn á vettvang. Stjórnarskráin
var ekki tekin upp á ný fyrr en 1957.
Framfaraflokkurinn klofnaði eftir kynþáttalínum.
Jagan var leiðtogi brotsins, sem indverjar studdu og Forbes
Burnham leiddi negrahlutann, PNC (People’s National Congress).
Í kosningunum 1957 og 1961 hafði Framfaraflokkurinn forystu.
Árin 1961-64 urðu blóðug uppþot milli indverja og negra og
langt allsherjarverkfall leiddi til endurkomu brezkra hermanna.
PNC
benti á, að kosningarkerfið gerði indverjum hærra undir höfði en
öðrum og brezka stjórnin kom á nýju kerfi, sem gerði ráð fyrir
hlutfallskosningum í desember 1964.
Eftir kosningarnar myndaði PNC og minni og íhaldssamari flokkur
samsteypustjórn, sem Burnham stýrði.
Stjórn hans leiddi landið til sjálfstæðis 26. maí 1966.
PNC fékk meirihluta atkvæða í kosningunum 1968 með fjölda
atkvæða kjósenda erlendis og grunur um víðtæk kosningasvik vaknaði.
Hinn 23. febrúar 1970 var lýst yfir stofnun Samvinnulýðveldisins
Gíana innan Brezka samveldisins. Þingið
kaus forseta en Burnham hélt framkvæmdavaldinu sem forsætisráðherra.
Hann lýsti því yfir, að stjórn hans væri sósíalísk og á
síðari hluta áttunda áratugarins reyndi hann að endurskipuleggja ríkisstjórn
sína sér í hag. Árið
1978 gerðist einhver furðulegasti atburður í nútímasögunni, þegar
u.þ.b. 900 meðlimir í sértrúarhóp í Jonestown frömdu sjálfsmorð
að skipun leiðtoga þeirra, séra Jim Jones.
Árið
1980 varð Burnham forseti samkvæmt nýrri stjórnarskrá, sem gaf
honum mun víðtækari völd eftir kosningar, sem báru augljós merki víðtækra
svika. Næstu árin jókst
efnahagskreppan vegna minnkandi eftirspurnar báxíts og sykurs og ósamvinnuþýður
almenningur leið fyrir skort á neyzluvörum og hrun opinberrar þjónustu.
Burnham greip til strangra aðhaldsaðgerða og fór að halla sér
að löndum Austur-Evrópu. Hann
lézt 1985 og Hugh Desmond Hoyte, forsætisráðherra, eftirmaður hans,
lofaði að fylgja fordæmi Burnhams.
Hann sigraði í kosningunum sama ár og enn á ný komu fram ásakanir
um kosningasvik. |