Delphi Grikkland,
Greece Flag


DELPHI
GRIKKLAND

.

.

Utanríkisrnt.

 

Delfí er forngrísk borg og vettvangur frægrar véfréttar guðsins Apollos í hlíðum Parnassusfjalls í Fokis-héraði (u.þ.b. 9½ km frá Korintuflóa).  Forngrikkir litu Delfí sem nafla heimsins, þegar þar var véfrétt jarðgyðjunnar Geu.  Samkvæmt grískri goðafræði sigraði Apollo risaorminn Pýton, sem gætti Geu og rak hana úr hæli sínu og settist þar að ásamt Díonýsusi.  Prestar véfréttarinnar þróuðu nákvæma helgisiði, sem snérust um aðalhofgyðjuna.  Litið var á orð hennar sem orð Apollos og allir máttu njóta ráða hennar.  Hinn heilagi vegur að hofinu lá meðfram húsum með verðmætum fórnum borgríkjanna.

Borgin Krisa í Fokiu réði borginni Delfí fyrst.  Síðar varð Fokia aðilið að Bandalagi ríkja kringum Delfí, sem höfðu vernd Apollohofsins í Delfí að markmiði og stóðu fyrir Pýtísku leikunum í grenndinni.  Þegar Fokiar lögðu skatta á pílagríma á leið til véfréttarinnar, réðist Bandalagið fyrst á Krisa í Heilögu styrjöldunum (595 f.Kr.) og lögðu hana í eyði.  Árið 480 f.Kr. misheppnaðist persnesk árás á Delfí vegna jarðskjálfta, sem Apollo var þakkaður.  Fokiar lögðu Delfí og fjársjóði véfréttarinnar undir sig árið 356 f.Kr. en biðu ósigur í orrustu gegn Filip II, konungi Makedóníu í annarri Heilögu styrjöldinni.  Í lok aldarinnar stjórnaði Etolíska bandalagið Delfí.  Auður borgarinnar olli fjölda árása, m.a. galla árið 279 f.Kr.  Eftir að Rómverjar lögðu Grikkland undir sig og útbreiðslu kristinnar trúar fór að halla undan fæti fyrir Delfí.  Rómverjar hirtu mestan hluta auðæfa og listmuna borgarinnar.  Neró einn lét flytja 500 styttur frá Delfí.  Véfréttin hélt engu að síður sínu striki til ársins 390 e.Kr., þegar býzantíski keisarinn Þeodósíus I lokaði henni.

Þorpið Kastri var loks byggt á rústum Delfíborgar.  Árið 1891 var það flutt og nefnt Dhirfis (Delfí) og næsta ár hófst fornleifauppgröftur á staðnum.  Margt hefur komið í ljós, s.s. hof, stóra altarið, íþróttaleikvangur, leikhús, fornir borgarmúrar og fjárhirzlur, sem eru skreyttar nótum og sálmum um Apollo.  Þarna fundust rúmlega 4000 áristur, sem gefa mikilvægar upplýsingar um Grikkland hið forna.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM