Áthos heilaga fjallið Grikkland,
Greece Flag


ÁTHOS
GRIKKLAND

.

.

Utanríkisrnt.

 

 

Hið heilaga fjall Áthos er sjálfstjórnarsvæði í Grikklandi.  Það hefur verið miðstöð rétttrúarmunka í rúmlega 1000 ár á austurhluta Chalkdikeskagans.  Annars vegar undurfagurs landslags skagans er Áthosflói og hins vegar Eyjahafið.  Þessu munkafríríki  hefur verið lýst á margan hátt, s.s. í bókunum  „Dómkirkja anatólískrar kristni”,  „Garður hinnar allrahelgustu Maríu” og „Brot af Byzans okkar tíma”.  Klaustrin eru á víð og dreif í fjalllendinu, bæði fjölbýli og einsetubústaðir.

Fyrst settust einsetumenn að á þessum 45 km langa og 5 km breiða skaga með 2033 m háu Áthosfjallinu yzt.  Athanásios frá Trapezunt stofnaði fyrsta og stærsta klaustrið, Megísti Lárva, árið 963 með stuðningi Nikiphóros Phokás, Byzanskeisara.  Síðan var hvert klaustið af öðru stofnað í tengslum við stjórnarskrá (Typikon) Joánnes Tsimiskis keisara (969-976).  Klausturlífið byggðist á félagskap munkanna (Koinóbion, ngr. Kinóvion), sameiginlegum bænum og máltíðum undir forystu ábóta, sem var valinn til lífstíðar.  Hin leyndardómsfulla Hesychasmushreyfin (hesychía = ró) olli breytingum á líferni munkanna á 14. öld.  Nýja hugmyndafræðin gaf munkunum meira frelsi til að lifa lífinu eftir eigin höfði og ráða sínum eigin meinlætalifnaði.  Sameiginlegt bænahald stóð þó óbreytt.  Flest klaustrin tóku þessa nýju stefnu upp.

Nú á dögum virðist áhugi fyrir afturhvarfi til upprunalegs lífernis, þannig að klaustrum, sem fylgja stefnunni frá 14. öld, fer fækkandi.  Auk 20 stórra klaustra er fjöldi munkaþorpa, þar sem munkar búa í 3 manna „fjölskyldum” og einsetubústaðir á brattri suðurströnd skagans.  Flest eru klaustrin grísk en í tímans rás bættust við munkar frá öðrum réttrúarkirkjum, s.s. hinni rússnesku, búlgörsku og júgóslavnesku.  Rússaklaustrin urðu æ mannfærri vegna þess, að munkarnir dóu úr elli og aðrir komu ekki í staðinn af pólitískum ástæðum.  Undanfarin ár hefur ungum munkum fjölgað á ný.  Ríkisstjórn munkanna (Epistassía) situr í þorpinu Karyés og skipt er um hana á hverju ári.

Áthos er ekki ferðamannastaður og gestir verða að heimsækja fríríkið með hugarfari virðingar við þann anda, sem ríkir þar.  Sækja þarf um leyfi (Diamonitírion) til heimsókna en konum og ungum karlmönnum er ekki leyfður aðgangur.  Það er bannað að taka með sér hljóðupptökutæki og vídeómyndavélar en venjulegar myndavélar eru leyfðar.  Dvalarleyfið í Áthosríkinu innifelur gestrisni munkanna.  Flest klaustrin eru búin gestaálmum (archondaríkion) og hverjum gesti fylgir munkur (Archondáris).  Margir lærðir og leikir hafa dvalið lengur eða skemur í klaustrunum af mismunandi ástæðum og notið gestrisni íbúanna.

Frá Karyés er hægt að fara gangandi eða á múldýri til Ivíronklaustursins og sníkja sér far með vörubílum til annarra.  Klaustrin á ströndinni eru aðgengilegust með bátum, sem eru stöðugt á ferðinni í góðu veðri.  Vegirnir á skaganum eru víða erfiðir yfirferðar fyrir farartæki.  Reynt er að halda sem mest aftur af straumi fólks um svæði einsetumunkanna á suðurenda skagans með því að leyfa engum öðrum en gangandi að fara þar um.  Uppi á tindi Áthosfjalls (2033m) er Uppljómunarkapella Krists.  Þangað liggur leið skrúðgöngu munkanna á hverju ári.  Þeir ganga í u.þ.b. 7 klst frá Megisti Lárva.  Fjallgangan er einungis á færi þjálfaðs göngufólks í góðu formi.

Klaustrin eru umgirt múrum, sem bókasafnsturnar og híbýli munkanna og gesta þeirra standa á.  Klausturkirkjurnar (Katholikón) eru í klausturgörðunum, oftast við hliðina á brunni (Phyáli) og matsal (Trápeza).  Kirkjurnar og matsalirnir eru venjulega skreytt fögrum helgimálverkum og bókasöfnin geyma víða ómetanlega dýrgripi.

Austurríski Íslandsvinurinn og mannfræðingurinn, Hans Winfried Rosmann, sem lézt 2002, var heiðursbróðir einnar munkareglunnar á Áthos-fjalli og bjó oft hjá munkunum um tíma síðustu áratugi 20. aldar.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM