Aþena Grikkland,
Greece Flag


AÞENA
GRIKKLAND

.

.

Utanríkisrnt.

 

Aþena, höfuðborg Grikkland og stærst borga þar í landi, er á Attíkusléttunni í Suðaustur-Grikklandi.  Hún er fjöllum girt á þrjá vegu (Pámis, Pendéli og Hymettus).  Tvær smáár renna um borgina, Kifisós um vesturhlutann og Illisós um austurhlutann.  Höfn borgarinnar, Pireus, er 8 km suðaustan hennar við Sarónflóa (inn úr Eyjahafi).

Mestur hluti iðnaðar landsins er stundaður í og umhverfis Aþenu (vefnaðarvörur, áfengi, sápa, hveiti, efnaiðnaður, pappírsvörur, leður og leirmunir).  Útgáfu- og fjármálastarfsemi og ferðaþjónusta eru mikilvægar atvinnugreinar.  Aþena er einnig aðalmistöð samgangna í landinu.


Stjórnarskrártorg
er í miðri nútímaborginni.  Þar og í næsta nágrenni eru þinghúsið og nokkur söfn.  Fortíðarminjar standa enn þá víða í borginni, þótt mestur hluti hennar hafi byggzt eftir miðja 19. öldina.  Frægasta fornminjasvæðið er Akropólishæðin með rústum Parþenon og annarra bygginga frá 5. öld f.Kr.

Meðal æðri menntastofnana borgarinnar eru Capodistri-þjóðarháskóli Aþenu (1837), Borgartækniháskólinn (1836), listaháskóli, viðskiptaháskóli og landbúnaðarháskóli.  Borgin státar af fjölda safna, s.s. Þjóðminjasafninu, Býzanska safninu, Akropólissafninu og Banakisafninu.

Sagan
Akropólishæðin var byggð allt frá steinöld.  Hæðin var víggirt í líkingu við Mýkenu, Tírýnu aðra bronsaldarkastala og þar stóðu önnur mannvirki allt frá 14. öld f.Kr. Á þessum tímum og hinum dimmu öldum (1200-900 f.Kr.) af völdum dórísku innrásanna var Aþena eitt margra borgríkja á Attíkaskaganum.

Um miðja 9. öld f.Kr. var næsta nágrenni (þ.m.t. Píreus) innlimað í borgríkið.  Þegar aðallinn náði undirtökunum frá konungunum, naut almenningur lítilla réttinda.  Öldungaráðið (Areopagus) stjórnaði ríkinu og skipaði þrjá (síðar 9) dómstjóra (archon), sem voru ábyrgir fyrir stríðsrekstri, trúarbrögðum og lagasetningu.  Óánægja með þetta kerfi leiddi til misheppnaðrar tilraunar Cylons (632 f.Kr.) til stofnunar einveldis.  Ólga og óeirðir leiddu til strangrar lagasetningar (Draco) árið 621 f.Kr.  Þessi lög beindust aðeins að lausn félagslegrar og efnahagslegrar kreppu og urðu til þess, að Sólon var gerður að dómstjóra árið 594 f.Kr.  Hann stofnaði stjórnarráð (boule), þing (ekklesia) og dómstóla.  Hann hvatti einnig til viðskipta, endurskipulagði gjaldmiðilinn og opnaði ríkið fyrir erlendum kaupmönnum.  Umbætur hans voru samt sem áður ekki nægar.

Árið 560 f.Kr. náði harðstjórinn Pisistratus völdum fyrir tilstuðlan aðalsins.  Hann lét stækka stjórnarráðshúsið á markaðstorginu (agora) og lét reisa nýtt Aþenuhof (verndargyðja borgarinnar) á Akropólishæð.  Hann stóð líka fyrir ýmsum hátíðarhöldum, s.s. Aþenuhátíðunum, sem voru haldnar á fjögurra ára fresti.  Harðstjórinn og sonur hans byggðu upp margs konar samfélagsþjónustu á árunum 560-510 f.Kr.  Árið 509 f.Kr. stóð Kleisþenes fyrir lýðræðislegri byltingu og endurskipulagði valdakerfi ríkisins þannig, að hann sótti stuðning til þegnanna í borginni sjálfri og Píreus.  Hið nýja, lýðræðislega þing kom saman á Pnyx-hæðinni neðan Akropólis.

Klassíski tíminn Árið 480 f.Kr. lögðu Persar borgina næstum í rústir.  Aþenski leiðtoginn Þemistokles, sem sigraði Persa við Salamis, hóf endurreisnarstarfið og lét reisa múra umhverfis borgina og Píreus.  Perikles hélt þessu verki áfram í kringum 450 f.Kr. og tókst umfram aðra lýðræðislega leiðtoga að gera Aþenu að merkilegri borg.  Almannafé var notað til byggingar Parþenon (hofs Nike), Erekþeum og annarra mikilla minnismerkja.  Hann þróaði markaðinn þannig að æ meira var flutt inn af erlendum vörum.  Á þessum tíma var Aþena orðin valdamest í samtökum grískra borgríkja og dæmdi í málum þeirra allra.  Menningarlíf borgarinnar blómstraði, miklir harm- og gleðileikir voru fluttir í Dionýsusarleikhúsinu neðan Akropólishæðar og Perikles safnaði í kringum sig mestu mannvitsbrekkum síns tíma.  Lýðræðisleg stjórnarskrá og blómstrandi mannlíf Aþenu gerðu borgina að fyrirmynd annarra borgríkja.  Þegar hagur hennar var sem mestur, bjuggu e.t.v 200 þúsund manns innan borgríkisins, 50.000 fullgildir karlkyns borgarar en hinir konur, útlendingar og þrælar, sem nutu ekki sömu réttinda.

Hnignun borgarinnar hófst eftir að Spartverjar sigruðu Aþeninga í Pelopóníska stríðinu (431-404 f.Kr.).  Sókrates var neyddur til sjálfsmorðs, þegar hann setti út á hefðbundna hugmyndafræði og svartsýni ríkti.  Engu að síður hélt heimspekin velli og dafnaði.  Á 4. öld f.Kr. stofnuðu Plató og Aristóteles heimspekiskóla sína.  Demosþenes, Isokrates og fleiri gerðu ræðumennsku að listgrein.

Erlend yfirráð
. 
Makedóníumenn lögðu Aþenu undir sig árið 338 f.Kr. en hún hélt velli sem mikilvæg menningarmiðstöð.  Árið 146 f.Kr. náðu Rómverjar undirtökunum og héldu góður sambandi við borgarbúa næstu 60 árin.  Árið 86 f.Kr. lögðu þeir borgina í rústir og eyðilögðu mörg óbætanleg minnismerki hennar.  Þetta dugði þó ekki til að lama borgina, sem hélt menningarlegri stöðu sinni sem lærdómssetur fyrir gríska og rómverska hugsuði frá 1. öld f.Kr. til síðari hluta fornaldar.  Á þriðju öld e.Kr. tókst Aþeningum að verjast árásum gota, sem ollu engu að síður talsverðu tjóni í borginni.  Árið 529 lokaði Justinius keisari, sem var kristinn, öllum heiðnum heimspekiskólum og þar með lauk að mestu klassískri sögu borgarinnar.

Á býzönskum tíma var Aþena aftarlega á merinni í menningarmálum.  Fjöldi listaverka borgarinnar var fluttur til Konstantínópel og hofunum var breytt í kirkjur.  Keisarar Býzans komu stundum í heimsókn en að öðru leyti var borgin afskipt og fátæk.  Eftir að krossfararnir lögðu Konstantínópel undir sig árið 1204 varð Aþena að frönsku yfirráðasvæði.  Katalóníumenn tóku við völdum í borginni árið 1311 en á 14. öld urðu þeir að víkja fyrir Flórens.

Árið 1458 náðu Ottómanar (Tyrkir) yfirráðunum.  Þá var Panþenon breytt í mosku.  Tyrkir létu Grikki halda völdum í borginni, sem var byggð Grikkjum, Tyrkjum og slövum á þessum tíma.  Árið 1687 varð Panþenon fyrir miklum skemmdum, þegar fallbyssuskothríð Feneyinga kveikti í byssupúðri, sem var geymt þar innandyra.

Nútíminn.  Grikkir frelsuðu borgina úr höndum Tyrkja í sjálfstæðisstríðinu (1821-33) og gerðu hana að höfuðborg sinni.  Hún var að mestu endurbyggð (1832-62) á valdatíma Ottós I með aðstoð þýzkra arkitekta (Edvard Schaubert o.fl.).  Áður en borgin komst í tölu aðalviðskipta- og iðnaðarborga Evrópu á 20. öldinni var ferðaþjónustan mikilvægasta atvinnugreinin.  Nú á tímum glímir stórn borgarinnar við hefðbundin stórborgarvandamál, útþenslu og mengun.  Áætlaður íbúafjöldi árið 1991 var rúmlega 3 miljónir.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM