Franska Guyana meira,
Flag of French Guiana


FRANSKA GUYANA
MEIRA

Map of French Guiana
.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Jarðlögin undir landinu koma fram að hluta í kristölluðu bergi hálendisins.  Árnar, sem hafa aðalstefnu í norðaustur til hafs, hafa veðrað fjöllin verulega og mestur hluti landsins er láglendi.  Manori-áin  myndar landamærin að Suriname í vestri og Oyapock-áin að Brasilíu í austri.  Tumac-Humac-fjöllin í suðri rísa í allt að 700 m hæð yfir sjó.  Nýlegur árframburður hefur myndað fenin á ströndinni suðaustan Cayenne.  Eldri setlög mynda steppuna vestan borgarinnar.  Þéttur hitabeltisskógur (aðallega harðviður) er ríkjandi inn af strandsléttunni og þekur u.þ.b. 80% landsins.  Úrkoma er mikil frá desember til júlí.  Meðalársúrkoman við Cayenne er 3800 mm og síðan dregur úr henni til norðausturs.  Meðalárshiti er hár, 25°C-27°C við Cayenne.  Meðal villtra dýra eru tapir, krókódílar (caiman alligator), jaguar, letidýr, stórar mauraætur og beltisdýr

EFNAHAGSLÍFIР Franska Gínea er þróunarland, sem hefur aðallega viðskipti við Frakkland og fær styrki þaðan.  Þjónusta og framleiðsla, vinnsla og útflutningur og fiskveiðar eru undirstöður efnahagslífsins.  Verg þjóðarframleiðsla á mann er einhver hin hæsta í Suður-Ameríku.

Landbúnaðurinn er u.þ.b. 5% af vergri innanlandsframleiðslu og krefst u.þ.b. 17% vinnuaflsins auk margra smábænda, sem stunda sjálfsþurftarbúskap eða hafa hann sem aukabúgrein.  Sjálfsþurftarbúskapur er ríkjandi (kassava, taró, kartöflur, hrísgrjón, maís, bananar og plantein).  Einnig eru nokkrir stórir búgarðar, sem stunda mikla ræktun sykurreyrs, límónur, banana og hitabeltisávexti til útflutnings til Frakklands.

Landbúnaðurinn er u.þ.b. 5% af vergri innanlandsframleiðslu og krefst u.þ.b. 17% vinnuaflsins auk margra smábænda, sem stunda sjálfsþurftarbúskap eða hafa hann sem aukabúgrein.  Sjálfsþurftarbúskapur er ríkjandi (kassava, taró, kartöflur, hrísgrjón, maís, bananar og plantein).  Einnig eru nokkrir stórir búgarðar, sem stunda mikla ræktun sykurreyrs, límónur, banana og hitabeltisávexti til útflutnings til Frakklands.

Skógar þekja rúmlega 80% landsins.  Þar vaxa margar verðmætar trjátegundir.  Stór svæði tilheyra ríkinu og eru vernduð en mestur hlutinn er nýttur.  Skógarhögg er aðallega stundað til iðnaðar og 40% timbursins eru flutt úr landi.  Beitilönd eru víðast notuð til nautgripabeitar og  mikið er ræktað af svínum og hænsnum.  Kjöt- og mjólkurframleiðsla er takmörkuð og mikið er flutt inn.  Fiskveiðarnar beinast aðallega að rækjunni.

Námugröftur er lítill og flytja verður inn fljótandi eldsneyti og málma.  Gull, möl og sandur er hið eina, sem er grafið úr jörðu.

Hinn takmarkaði framleiðsluiðnaður byggist á vinnslu fisks, kjöts og annarra landbúnaðarafurða og romms og timburs.  Helztu hráefni og neyzluvörur eru innfluttar.  Rafmagn er framleitt með innfluttu, fljótandi eldsneyti.

Stærsti hluti vinnuaflsins er bundinn í opinberri þjónustu og landbúnaði.  Laun og kjör eru hin sömu og í Frakklandi.  Atvinnuleysi er mikið og verðbólga há.

Vegakerfið er lítt þróað inni landinu, þótt u.þ.b. 40% þess séu með slitlagi.  Helztu hafnarborgirnar eru Dégrad des Cannes, Larivot, Saint-Laurent du Moroni og Kourou.  Nokkrar vatnaleiðir landsins eru gengar litlum hafskipum en flestar aðeins grunnristum flatbytnum.  Eini millilandaflugvöllurinn er við Cayenne.  Evrópska geimferðastofnunin notar skotpalla við Kourou.

Viðskiptajöfnuðurinn er óhagstæður.  Útflutingurinn (rækjur, timbur og gull) dugar aðeins fyrir 10% innflutningsins (matvæli, vélbúnaður, neyzluvörur og fljótandi eldneyti).  Helztu viðskiptalönd landsins eru Frakkland og BNA.  Landið nýtur verulegra styrkja og tækniaðstoðar frá Frakklandi.

SAGAN  Spánverjar könnuðu strönd Gíneu árið 1500 og settust að á svæðinu í kringum Cayenne 1503.  Franskir kaupmenn frá Rúðuborg (Rouen) opnuðu verzlunarstað í Sinnamary 1624 og aðrir komu í kjölfarið (frá Rouen eða París) og stofnuðu Cayenne-borg 1643.  Samningarnir í Breda tryggðu Frökkum yfirráðin í landinu árið 1667 og Hollendingarnir, sem lögðu Cayenne undir sig 1664 voru hraktir brott 1676.  Íbúar svæðisins urðu franskir ríkisborgarar og áttu fulltrúa á franska þinginu eftir 1877.  Árið 1852 fóru Frakkar (Napóleon III) að nota landið sem fanganýlendu, þar sem útlægir fangar bjuggu við hroðalegar aðstæður.  Rúmlega 70.000 franskir fangar voru sendir þangað á árunum 1852-1939.  Fanganýlendan á Djöflaeyju var lögð niður eftir að Albert Londres (1884-1932) sagði frá aðstæðum þar.  Anne-Marie Javouhey, abbadís Jósepssystra frá Cluny, stofnaði nýlenduna við Mana (1827-46).  Hún og faðir Libermann stofnuðu einhvern fyrsta skólann fyrir leysingja í anda húmanisma katólskunnar.

Franska Gínea varð að frönsku héraði 1946.  Efnahagsleg stöðnun eftirstríðsáranna var að hluta rofin með byggingu skotpalla Evrópsku geimferðaáætlunarinnar og nýju borgarinnar Kourou 1968 og með grænu áætluninni, sem jók framleiðslu í landbúnaði og nýtingu skóganna.

ÍBÚARNIR  Flestir íbúa landsins eru kreólar (kynblendingar) og negrar, indíánar, Frakkar, Líbanonar, kínverjar, austurindíar, Laosbúar, Haítíbúar, Brasilíumenn og Víetnamar eru í minnihluta.  Opinber tunga landsmanna er franska en einnig eru talaðar kreól, taki-taki (sranan; negramál), indíánamállýzkur og tungumál landnemanna frá ofangreindum löndum.  Flestir eru rómversk-katólskir (90%) en búddatrú og islam eru stunduð meðal austurindíanna og fólksins frá Suðaustur-Asíu.  Flestir íbúanna búa í eða umhverfis Cayenne, stærstu borgina og á strandlengjunni.  Innlandið er að mestu óbyggt.  Á síðari hluta 20. aldar var talsvert aðstreymi landnema frá Suðaustur-Asíu, Haítí og frönsku yfirráðasvæðunum í Karíbahafi.

STJÓRNSÝSLA  Stjórnarskrá Frakklands kveður á um stjórn landsins sem utanlandshéraðs, sem er óaðskiljanlegur hluti Frakklands.  Það á tvo fulltrúa í frönsku fulltrúadeildinni og einn í öldungadeildinni.  Innanlandsstjórnin er í höndum landstjóra, 19 manna ríkisráði og 31 manns þingi.  Þessir 50 einstaklaingar eru kjörnir í almennum kosningum.  Í landinu er áfrýjunarréttur.  Helzti stjórnmálaflokkur landsins er Parti Socialiste Guyanais.  Meðal minni flokka eru Rassamblement pour la République (gaullistar), Union pour la Démocratie Francaise og Unité Guyanaise (marxistar; sjálfstæðisflokkur).  Hinn ofbeldissinnaði flokkur Front National Libéré de la Guyane er bannaður.

Almenna tryggingakerfið í Frakklandi sér einnig um íbúa Frönsku Gíneu og virkar svipað hinu íslenzka.  Heilsufar landsmanna er yfirleitt gott.  Helztu dánarorsakir eru blóðrásarsjúkdómar, slys og krabbamein.  Pasteur-stofnunin í Cayenne rannsakar landlæga- og hitabeltissjúkdóma og hefur getið sér gott orð í Suður-Ameríku.  Lífslíkur landsmanna eru 63 ár fyrir karla og 70 ár fyrir konur.

Skólaskylda er viðhöfð og menntun er frí fyrir börn (6-16) og þau sækja næstum öll skóla.  Þá eru starfræktir nokkrir einkareknir menntaskólar og kennaraskólar og háskólamenntun er veitt í Frakklandi eða á Frönsku Atilles-eyjum.  Fjölmiðlar er frjálsir en opinberir styrkir og leyfi veita talsvert aðhald.  Helzta dagblað landsins er La Presse de Guyane, sem er gefið út í Cayenne.

Menningarlífið byggist á mismunandi uppruna landsmanna.  Indíánarnir og afríkunegrar stunda handverk, gamla siði og ýmsar listir.  Í borgum er blönduð kreólamenning, sem kemur skýrt fram í litríkum og munstruðum búningum, dönsum undir afrískum, austurindískum og frönskum 18. aldar áhrifum og hátíðum (fyrir föstu).  Ljóðskáldið Léon Damas var leiðtogi karabískrar nútímahreyfingar í bókmenntum á þriðja áratugi 20. aldar.


.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM