St Pierre og Miguelon Frakkland,
France Flag


St PIERRE og MIGUELON
FRAKKLAND

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

St Pierre og Miguelon eyjaklasinn er u.þ.b. 25 km frá suðurströnd Nýfundnalands.  Hann hefur verið undir stjórn Frakka síðan 1985.  Flatarmál aðaleyjanna er 242 km², þar af 215 km² í Miguelon-klasanum.  St Pierre-eyja, aðalstjórnsýslu- og viðskiptamiðstöðin, er 26 km² og þar búa 90% íbúa eyjanna.

Norðaustur úr Miguelon-eyju teygist 1,6 km breiður og 6 km langur klettahöfði   Miguelon-sléttan er sunnan höfðans.  Þar eru mómýrar með smávötnum.  Suðurhluti eyjarinnar er ósléttur með gróðursnauðum hæðum (Mornes), sem hækka upp í Morne de lan Grande Mongange (240m), sem er hæsti staður eyjaklasans.


Langlade-eyja er gömul veðrunarslétta með fjölda stuttra vatnsfalla og strandlengja hennar er umgirt klettum nema nyrzt, þar sem hún tengist Miguelon-eyju með eiði.  Handan hins 5 km breiða La Baie-sunds í suðaustri er St Pierre-eyja með ósléttu hæðalandslagi norðvestast og grýttu láglendi suðaustast.  Báðum megin eru mómýrar með smávötnum og tjörnum.  Strönd eyjarinnar er hömrótt að norðanverðu og að sunnanverðu eru óreglulegir höfðar og nes.  Í eyjaklasanum er fjöldi klettahólma og skerja.  Marins-eyja (50 ha) er eini byggði hólminn fyrir austurströnd St Pierre.

Þrátt fyrir milt og rakt loftslag á eyjunum eru þær auðnarlegar.  Skóglendi eyjanna, nema á hlutum Lnaglade-eyjar, var höggvið til eldiviðar á árum áður.  Meðalhiti hlýasta mánaðarins er 20°C en í kaldasta mánuði –10°C.  Meðalársúrkoman er 1500 mm.  Mikið sjófuglalíf er á eyjunum.

Fyrstu landnemar eyjanna voru sæfarar frá Vestur-Frakklandi, aðallega baskar, normanar og bretónar, sem settust að snemma á 17. öld.  Íbúarnir tala frönsku og halda sig við franska siði og venjur.  Langflestir þeirra eru katólskir.  Árið 1902 var Íbúafjöldinn 6500 og hefur ekki breytzt á 20. öldinni.

Frakkar leggja mikla áherzlu á að halda síðasta áhrifasvæði sínu í Norður-Ameríku og styrkja eyjaskeggja til áframhaldandi búsetu, því að auðlindir láðs og lagar duga þeim ekki til framfærslu.  Nálægt 70% nauðsynja eru flutt inn frá Kanada og Frakklandi um Nova Scotia.  Þorskveiðar eru enn þá eini raunverulegi atvinnuvegurinn og frosnar fiskafurðir eru aðalútflutningurinn.

Frakkar skipa amtmann til að stjórna eyjunum.  Honum til aðstoðar er einkaráð og kosnir fulltrúar eyjaskeggja.  Íbúarnir eru franskir ríkisborgarar og hafa kosningarétt samkvæmt honum.  Grunnmenntun er frí og skólaskylda gildir.  St Pierre er höfuðstaðurinn, stjórnsýslusetrið með dómstólum og setri fulltrúa katólsku kirkjunnar.

Fyrsti landkönnuðurinn, sem heimsótti eyjaklasann var Portúgalinn Jose Alvarez Faqendez, sem lenti þar 1520.  Fyrsta franska fiskimannabyggðin hófst 1604.  Frakkar og Bretar skiptust á um yfirráðin nokkrum sinnum þar til Frakkar fengu full yfirráð 1816 samkvæmt Parísarsamningnum frá 1814.  Eyjarnar urðu franskt verndarsvæði 1946 og 1976 franskt hérað erlendis með sömu réttindi og borgir landsins.  Í maí 1985 breyttist staða eyjanna í samræmi við lög ESB.  Árið 1992 var langvinn deila við Nýfundnaland vegna landhelginnar leidd til lykta.  St Pierre og Miguelon fengu 6680 km² efnahagslögsögu.  Íbúafjöldinn 1994 var u.þ.b. 6400.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM