Amiens Frakkland,
France Flag


AMIENS
FRAKKLAND
.

.

Utanríkisrnt.

 

Amiens er forn dómkirkjuborg við Sommeána í N.-Frakklandi, 130 km norðan Parísar.  Árdalurinn er náttúruleg samgönguleið.  Þar af leiðandi er Amiens miðstöð viðskipta og hefur verið vettvangur margra bardaga við innrásarheri.  Allt frá miðöldum hefur borgin verið miðstöð vefnaðarframleiðslu.  Borgin var höfuðborg Picardyhéraðs en er nú höfuðborg Sommehéraðs.

Eitthvert stórkostlegasta mannvirki í gotneskum stíl, dómkirkjan Notre Dam, er kennimerki borgarinnar. Bygging hennar hófst árið 1220 (Robert de Luzarche) og lauk 1270, en var stækkuð síðar.  Hún er mjög rúmgóð innanverðu og mesta hæð undir þak er 43 m.  Kórinn er skreyttur rúmlega 3500 tréstyttum, sem voru skornar út á 16. öld.

Ráðhúsið, sem var byggt á 17. öld og endurbyggt á 19. öld, stendur í miðborginni.  Norðan þess er St. Germain kirkjan frá 15. öld og að sunnanverðu er Picardsafnið með fornminjum, málverkum og höggmyndum.  Ævagamalt leikhús með Lúðvíks 14. forhlið er þarna nærri.

Á okkar dögum er borgin samgöngumiðstöð og háborg iðnaðar.  Framleiðslan er teppi, silkivefnaður, ullar- og baðmullarvefnaður.  Einnig vélar, efnavörur og dekk.  Bændur koma með framleiðslu sína og selja frá litlum bátum.  Alls konar önnur viðskipti eiga sér stað, s.s. með korn, sykur, ull, andakökur og makkarónur, sem borgin er fræg fyrir.

Snemma féll borgin fyrir Júlíusi keisara og varð rómverskt virki.  Nafn borgarinnar komst rækilega á blöð sögunnar, þegar Napóleon og Stóra-Bretland undirrituðu þar friðarsamning 27. marz 1802.  Þessi samningur gaf Bretum eina hléið, sem þeir fengu í kjölfar frönsku stjórnarbyltingarinnar.  Smuga í þessum samningi gerði Bandaríkjamönnum kleift að kaupa Louisiana af Napóleon, en Frakkar álitu þetta svæði of fjarlægt til að hægt væri að verja það.

Í fransk-þýzka stríðinu 1870-71 náðu Þjóðverjar Amiens og snemma í fyrri heimsstyrjöldinni náðu þeir henni undir sig um stundar sakir.  Bretar reistu höfuðstöðvar sínar þar vegna hagstæðrar legu og samgangna.  Þegar Þjóðverjar réðust aftur á Amiens 1918, var árásinni hrundið.  Dómkirkjan skemmdist í skothríðinni, en það var gert við hana að stríðinu loknu.  Á meðan Þjóðverjar hersátu Frakkland í síðari heimsstyrjöldinni varð borgin fyrir miklu sprengjuregni áður en hún féll.


.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM