Félagseyjar eru stór eyjaklasi í Suður-Kyrrahafi. Þær
eru hluti utanlandshéraðs Frakklands í Frönsku-Pólýnesíu. Eyjaklasanum
er skipt í tvennt, Hléeyjar og Áveðurseyjar. Meðal Hléeyja eru Raiatea,
Huahine, Tahaa og Bora-Bora og meðal Áveðurseyja eru Tahiti, Moorea og
Mehetia. Heildarlandflatarmál allra eyjanna er u.þ.b. 1.685
ferkílómetrar, þar af Tahiti 1.036. Eyjarnar mynduðust í eldgosum, þær
eru fjöllóttar og umkringdar kóralrifjum, sem mynda strandlón. Hæsti
tindur þeirra er Orohena á Tahiti (2.241m). Loftslagið er heitt og rakt. Helztu landbúnaðarafurðir eru kókoshnetur, kaffi og
vanilla. Aðalútflutningsvörur eru kókoskjarnar, kaffi, perlumóðir og
vanilla. Ferðaþjónustan er mikilvæg atvinnugrein. Áætlaður
íbúafjöldi eyjaklasans árið 1988 var 162.573.
Evrópumenn komu fyrst til eyjanna árið 1607, þegar portúgalski
sæfarinn og landkönnuðurinn Pedro Fernandes de Queirós var á ferðinni.
Brezki landkönnuðurinn James Cook skrifaði fyrstu nákvæmu lýsingu
eyjanna eftir heimsóknir sínar árin 1769, 1773, 1774 og 1777.
Eyjarnar urðu franskt verndarsvæði árið 1843 og frönsk nýlenda 1880.
Þær urðu utanlandshérað Frakklands árið 1958. |