Landslag.
Hæðaröð liggur yfir aðaleyjarnar tvær norðanverðar og nær
705 m hæð yfir sjó, þar sem heitir Mount Usborne á
Austur-Falklandi.
Með ströndum fram eru margir sokknir dalir, sem mynda skjólgóðar
hafnir.
Litlar árnar renna um víða dali með þykkum mólögum.
Svalt og vindasamt loftslagið sveiflast lítið í hitafari, sem
er nokkuð jafnt allt árið, og lítill munur er á árstíðum.
Meðalvindhraðinn á eyjunum er 31 km/klst. og ársmeðalhitinn
er u.þ.b. 5°C (líkt og á Íslandi) og mestur meðalhiti er 9°C (lægri
en á Íslandi) og minnsti meðalhiti er 3°C (meiri en á Íslandi).
Meðalúrkoma ársins er 635 mm (minni en í Rvík).
Gróður
eyjanna er lágvaxinn og þéttvaxinn í nokkurn veginn trjálausu
landslagi.
Hvítgresi (cortaderia pilosa) og empetrum rubrum eru ráðandi
tegundir á graslendi, og þar sem gætt hefur verið hófs í beitarnýtingu
á aðliggjandi eyjum, vex enn þá brúskgresi (parodiochloa
flabellate).
Svalt og rakt loftslagið kemur í veg fyrir algera rotnun gróðurs
og myndar þykk mólög, sem eru uppspretta eldsneytis á eyjunum.
Dýralíf.
Eftir að refurinn dó út á eyjunum eru engin villt landspendýr
eftir.
Alls verpa u.þ.b. 65 tegundir fugla á eyjunum, s.s. svartbrýndi
albatrossinn, falklandtittlingurinn, peregrinefálki og milljónir mörgæsa,
aðallega „rockhopper-”, Magellan-, gentoo-, kónga- og macaronimörgæsir.
Í hafinu umhverfis eyjarnar syndir fjöldi höfrunga og hnýsa.
Sæljón og sæfílar eru algengir víðast hvar og loðselir
finnast á fáum og afskekktum stöðum. |