Tokelau eyjar Islands Nýja Sjáland,
Flag of New Zealand


TOKELAU ISLANDS
NÝJA-SJÁLAND

Map of Tokelau
.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

TOKELAU-EYJAR voru kallaðar Sambandseyjar á árunum 1946-76.  Þær eru yfirráðasvæði Nýja-Sjálands auk þriggja kóralhringeyja í Suður-Kyrrahafi..  Tokelau er 480 km norðan Samóaeyja og 3900 km suðvestan Hawaii.  Heildarflatarmál þeirra er 10,1 km².  Áætlaður íbúafjöldi 1992 var 1700.  Tokelau-eyjar ná yfir þrjár kóralhringeyjar, Fakaofu (2½ km²), Nukunono (5 km²) og Atafu (2,2 km²).  Hringrif eyjanna skiptast í aragrúa hólma og skammt undan þeirra vex sjávardýpi mjög.  Lónin eru grunn og alsett kóralskerjum.  Eyjarnar eru lágar, 2,4-4,5 m.y.s.  Kóraljarðvegurinn er mjög gropinn.  Meðalársúrkoman er 2500 mm og fellur aðallega á staðvindatímanum (apríl-nóvember) og þeim fylgija oft fellibyljir.  Þurrkatímabil á örðum tímum árs koma stundum fyrir.  Meðalárshiti er 28°C en á regntímanum er aðeins svalara.  Gróðurþekja eyjanna er þétt.  Þarna vaxa u.þ.b. 40 tegundir plantna, s.s. kókospálmar, pandanus og önnur pólýnesísk tré og runnar.  Þarna lifa líka rottur, eðlur, sjófuglar og nokkurra farfuglategunda verður vart á hverju ári.

Íbúarnir eru að mestu pólýnesar og náskyldir íbúum Samóaeyja.  Tokelau er opinber tunga eyjaskeggja en enska er víða töluð.  Næstum allir íbúarnir eru kristnir.  Þéttbýli er mest á Atafu og Íbúafjöldinn hefur verið nokkuð stöðugur vegna fólksflutninga til Nýja-Sjálands og Samóaeyja.

Efnahagurinn byggist aðallega á sjálfsþurftarbúskap og fiskveiðum.  Landnýting byggist á fjölskyldutengslum og samfélagsþörfum.  Ræktun kókospálma til framleiðslu kókoskjarnar er eina arðbæra atvinnugreinin.  Taro er ræktað í sérstaklega uppgröfnum görðum, sem er haldið frjósömum með laufmoltu.  Brauðaldin, „pawpaw” og bananar eru ræktaðir til sjálfsþurfta.  Svín og hænsni eru helztu húsdýrin.  Fiskveiðar í lóninu og úti á hafi eru stundaðar til eigin þarfa en á níunda áratugnum færði Nýja-Sjáland efnahagslögsögu eyjanna út í 200 sjómílur og Suður-Kyrrahafsráðið hleypti af stokkunum þjálfunarverkefni í fiskveiðum. Taunavatré eru ræktuð á völdum eyjum til húsbygginga, bátasmíði og smíði annarra gagnlegra hluta.

Framleiðslan er tengd kókoskjörnum og túnfiskvinnslu, bátasmíði, öðru timburverki, hefðbundnum handvefnaði, hattagerð, teppagerð og töskusaumi.  Snemma á níunda áratugnum var komið fyrir rafstöðvum og rafmagn leitt til allra hringeyjanna.  Sala frímerkja og myntar er nokkuð góð tekjulind, en yfirleitt er halli á fjárlögum eyjanna, þannig að Nýja-Sjáland verður að styrkja eyjaskeggja.  Fjöldi íbúa landsins býr og starfar erlendis og sendir ættingjum sínum heima peninga til framfærslu.  Á eyjunum eru hvorki vegir né vélknúin farartæki.  Engar leiðir eru færar skipum um sundin milli eyjanna inn í lónin, svo að hafnarskilyrði eru slæm.  Skip verða að leggjast við stjóra utan rifjanna og litlir, opnir bátar eru notaðir við upp- og útskipun.  Inn- og útflutningurinn fer að mestu um Nýja-Sjáland.

Stjórnsýslan.  Tokelau er stjórnað eins og hluta Nýja-Sjálands samkvæmt lögum frá 1948 og síðari breytingum.  Utanríkisráðherra Nýja-Sjálands skipar landstjóra til þriggja ára í senn og hann starfar undir stjórn yfirlandstjóra í Apia á Samóaeyjum.  Sjúkrahús eru á öllum hringeyjunum.  Stöðugur skortur drykkjarvatns leiddi til byggingar stórra tanka fyrir vatnsbirgðir og söfnunartanka fyrir regnvatn.  Menntun er frí fyrir börn á aldrinum 5-15 ára og skólasókn er næstum 100%.  Hver hringeyja hefur barnaskóla en framhaldsmenntun verður að sækja til Samóaeyja eða Niue og æðri menntun til Nýja-Sjálands eða Fijieyja.

Sagan.  Tungumál eyjaskegga gefa til kynnað að forfeður þeirra hafi komið frá Samóaeyjum.  Fyrsti Evrópumennirnir  komu í fylgd brezka skipstjórans John Byron, sem gaf Atafu-eyju nafnið Eyja hertogans af York.  Nukunono-eyja var nefnd Eyja hertogans af Clarence, þegar Edwards, skipstjóri HMS Pandora, sem var að eltast við uppreisnarmennina á Bounty, fann hana 1791.  Árið 1820 heimsóttu hvalveiðarar eyjarnar.  Þjóðfræðingurinn Horatio Hale samdi ítarlega skýrslu um siði og tungumál eyjaskeggja og leiðangur hans gaf Fakaofu-eyju nafnið Bowditch-eyja.  Trúboðar á vegum Frakka snéru íbúum Nukunono-eyjar til katólskrar trúar um miðja- til síðari hluta 19. aldar.  Samóar, sem Trúboðsfélagið í London styrkti, snéru íbúum Atafu-eyjar til kristni eftir 1868 og bæði trúboðin áttu hlut að því að kristna íbúa Fakaofu-eyjar.  Árið 1863 rændu perúskir þrælasalar fjölda eyjaskeggja og á svipuðum tíma geisaði farsótt, sem fækkaði íbúum eyjanna í u.þ.b. 200.  Sjóræningjar af ýmsum þjóðernum settust að á eyjunum og blönduðust eyjaskeggjum.  Afskipti Breta hófust 1877 og árið 1889 voru eyjarnar lýst verndarsvæði Breta.  Árið 1916 varð Tokelau, þá kallað Sambandseyjar, hluti af Gilbert- og Ellice-eyjanýlendunni og margir Tokelauar fluttust til Banaba-eyjar til að vinna þar.  Nýja-Sjáland fékk yfirráðin 1925 og stjórnuðu frá Vestur-Samóa (nú Samóa).  Fyrir 1962 fluttu allmargir íbúanna til Samóa en eftir 1962 lá straumurinn til Nýja-Sjálands.  Eyjaklasinn fékk nafnið Tokelau opinberlega 1976.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM