Eitt alvarlegasta
afbrot, sem hægt er að fremja á hafi úti, er að neita að hlýða
stjórnendum skipa og gera uppreisn gegn þeim.
Einhver frægasta uppreisn um borð í skipi átti sér stað á
„Bounty”, brezku skipi á Suður-Kyrrahafi 28. apríl 1789.
„Bounty” var 250
tonna skip. Það var undir stjórn harðstjórans William Bligh.
Það var á leið frá Tahiti með farm brauðaldintrjáa til
Vestur-Indía, þegar næstráðandi um borð, Fletcher Christian, snérist
gegn ofbeldi Bligh skipstjóra. Fletcher og margir óánægðir sjómenn tóku stjórn
skipsins í sínar hendur. Bligh
og 18 sjómenn hliðhollir honum voru neyddir til að fara frá borði
um borð í 7 m langan bát og voru skildir eftir.
Þótt Bligh væri harðráður
og héldi uppi stífum aga, var hann líka hugaður og úrræðagóður
maður. Mennirnir í léttabátnum
höfðu litlar matarbirgðir og engin kort, en Bligh varð ekki
skota-skuld úr að sigla tæplega 6000 km leið í vesturátt til Tímoreyjar.
Þar fundu þeir hollenzka byggð.
Aðeins einn maður hafði látizt á hinni 48 daga leið.
Óvinveittir innfæddir á einni eyjanna á leiðinni drápu
hann. Þessi ferð í opnum báti yfir úthafið er meðal mestu
hetjudáða, sem hafa verið unnin á hafinu.
Eftir nokkurra mánaða dvöl á Tímor komust Bligh og félagar
til Englands með hollenzku skipi.
Eftir að hafa losað
sig við Bligh og kumpána hans snéru Fletcher og félagar skipinu í
austur og sigldu alla leið til Tahiti.
Um borð voru líka nokkrir menn, sem höfðu ekki tekið þátt
í uppreisninni. Það hafði
ekki verið pláss fyrir þá í léttabátnum.
Fjórtán áhafnarmeðlimir
ákváðu að verða eftir á Tahiti.
Átta fóru aftur um borð með Fletcher og léttu akkerum.
Þeir óttuðust að hinn langi armur ensku réttvísinnar næði
þeim. Þeir tóku 12 pólinesískar
konur með sér, sumar sem eiginkonur, og sex innfædda karlmenn.
Þeir héldu áfram í
austurátt unz þeir komu til Pitcairneyjar eftir tæplega 2.650 km
siglingu. Eyjan var óbyggð
og þar var gnótt fersksvatns, villtra ávexta og annars ætilegs.
Þessi eyja var svar við bænum uppreisnarmanna.
Þeir tóku allt nýtilegt úr „Bounty” og brenndu síðan
skrokkinn.
Nærri tveimur árum
eftir uppreisnina sigldi brezka herskipið „Pandora” inn í höfnina
á Tahiti í leit að uppreisnarmönnunum.
Fjórtánmenningarnir, sem höfðu orðið eftir þar, voru allir
teknir höndum, hvort sem þeir voru sekir eða saklausir, og fluttir um
borð í „Pandora”. Þeir
voru geymdir í ljós- og loftlausu búri, sem iðaði af rottum.
Eftir árangurslausa leit að „Bounty” og hinum
uppreisnarmönnunum,
snéri „Pandora” stefni til Englands.
Fyrir ströndum Ástralíu strandaði skipið.
Aðeins 10 fanganna tókst að komast á land á næstu óbyggðu
eyju.
Þeir, sem komust af, bæði
úr áhöfn „Pandora” og fangarnir sigldu á björgunarbátum í
vestur-átt í tvær vikur, þjáðir af hungri og þorsta úti á sjó
og ofsóttir af óvinveittum innfæddum á eyjunum, sem þeir heimsóttu
á leiðinni. Lokst tókst
þeim að finna evrópska byggð. Föngunum
af „Bounty”, sem eftir lifðu, var skilað til Englands, þar sem þeir
voru dregnir fyrir rétt. Sjö
voru sýknaðir en þrír voru fundnir sekir og hengdir.
Í febrúar 1808 kom
bandarískt skip, „Topaz”, til Pitcairneyju.
Aðeins einn skipverjanna af „Bounty” var eftir á lífi.
Hann var John Adams, sem hafði tekið sér nafnið Alexander
Smith. Allir hinir, bæði
enskir og tahitískir, höfðu drepizt í innbyrðisátökum vegna illvígra
deilna. Beinir afkomendur
uppreisnarmannanna búa enn þá á eyjunni. |