Papúa Nýja Gínea sagan,
Flag of Papua New Guinea


PAPÚA NÝJA GÍNEA
SAGAN

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Þegar á heildina er litið, eru allir íbúar Papúa, Nýju-Gíneu melanesar, sem hafa búið á eyjum Suður-Kyrrahafsins síðastliðin 50.000 ár.  Mannvistar-leifar í fjöllum Nýju-Gíneu sýna fram á búsetu þar síðustu 8000 árin.  Fólkið lifði óáreitt saman í litlum, herskáum fjölskyldusamfélögum í árdölum, á ströndinni og á eyjunum úti fyrir.  Fyrstu kynni þess af hvítu fólki, Evrópumönnum, urðu á 16. öld.

Portúgalskir sæfarar voru fyrstu Evrópumennirnir, sem uppgötvuðu eyjuna Nýju-Gíneu.  Antonio d'Abreu mun hafa séð norðvesturströndina árið 1512 og Jorge de Menezes lenti á norðvesturoddanum árið 1526 og kallaði eyjuna Ilhas dos papuas (Papúaeyjar).  Spánverjinn Inigo Ortiz de Retes nefndi eyjuna Nýju-Gíneu árið 1545, þar eð hann þóttist sjá skyldleika milli íbúanna og fólksins á vesturströnd Afríku.  Árið 1569 kom þetta nafn fyrst fram á Merkatorlandakorti.  Luis Vaez de Torres sigldi gegnum sundið, sem síðar var nefnt Torressund, milli Nýju-Gíneu og Ástralíu (Kap York) á árunum 1605/06.  Þá kom í ljós, að Nýja-Gínea var eyja.  Frakkinn Louis de Bougainville fann Salomoneyjar og Louisadeeyjar árið 1768.

Evrópuveldin gerðu Nýju-Gíneu ekki að nýlendu fyrr en seint á landvinningatímanum.  Árið 1828 sömdu Hollendingar og Bretar um yfirráð Hol-lendinga á vesturhelmingi eyjarinnar.

Síðar á 19. öld lentu Bretar víða á austurhluta eyjarinnar og árið 1884 komu Þjóðverjar sér fyrir á norðurströndinni.  Í apríl 1885 sömdu Bretar og Þjóðverjar um skiptingu austurhlutans.  Suðausturhlutinn varð að brezka yfirráðasvæðinu Brezku Nýju-Gíneu og norðausturhlutinn að Þýzku Nýju-Gíneu.

Hið svokallaða verndarsvæði Þjóðverja náði yfir Kaiser Wilhelmsland, Salomonseyjarnar Bougainville og Buka, allar Biskmarkeyjar og Melanesísku eyjarnar nema Quam eftir samningana 1899.  Frá 17. maí 1885 til 1899 réði verzlunarfélag þýzkra bankamanna lögum og lofum, en síðan tók þýzka ríkið við yfirráðunum.

Brezki hlutinn var innlimaður í ríkjabandalag Ástralíu árið 1906.  Eftir að þýzki nýlenduherinn hafði gefizt upp fyrir Áströlum snemma í fyrri heimsstyrjöldinni (17. sept. 1914) varð þýzki hlutinn að sambandsríki í Ástralíu árið 1921.  Eftir síðari heimsstyrjöldina (1942-1944) og hersetu Japana voru fylkin tvö sett undir yfirráð hinna nýstofnuðu Sameinuðu þjóða og árið 1949 gerðu S.þ. þau að hluta Sambandsríkisins Ástralíu á ný.  Næstu tvö árin var unnið að því, að Papúa Nýja-Gínea yrði sjálfstætt ríki.  Árið 1951 kom fyrsta löggjafarþing landsins saman og árið 1973 fékk landið heimastjórn.  Hinn 16. september 1975 fékk Papúa Nýja-Gínea fullt sjálfstæði.  Landið er hluti af Brezka samveldinu, þannig að þjóðhöfðingi Bretlands er líka þjóðhöfðingi þess.  Fulltrúi hans er aðallandstjórinn.  Landinu er stjórnað að brezkri fyrirmynd.  Síðan 1977 hafa hin 19 héruð landsins fengið aukna sjálfstjórn.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM