Palau,
Flag of Palau


PALAU

Map of Palau
.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Lýðveldið Palau er í Vestur-Kyrrahafi og nær yfir u.þ.b. 200 eyjar Karólínueyjaklasans.  Höfuðeyjan er Koror og aðrar helztu eru Babelthuap (stærst; 137 km²), Arakabesan, Malakal og Peleliu.  Heildarflatarmál eyjanna er 508 km² og svæðið, sem þær ná yfir er 650 km langt.  Sumar eyjanna eru eldfjallaeyja en aðrar kóraleyjar.  Hæsti staður þeirra er á Koror, 628 m.y.s.  Íbúarnir eru blandaðir Malæjar, Melanesar, Filipseyingar og Pólýnesar.  Áætlaður íbúafjöldi 1996 var tæplega 17.000 (33 á hvern km²).  Lífslíkur 1996 voru 71 ár.

Efnahagslífið og stjórnsýsla.  Sjálfsþurftarbúskapur og fiskveiðar eru aðalatvinnuvegir landsmanna og gjaldmiðillinn er Bandaríkjadalur.  Árið 1994 gerðu Palau-menn 15 ára samning við BNA um 500 miljóna US$ fjárhagsaðstoð gegn herstöðvaaðstöðu og óhindruðum aðgangi að hafsvæðum landsins.  Stærstu tekjulindir landsins eru annars ferðaþjónusta, handverk, túnfiskveiðar og framleiðsla kókoskjarna.  Vergar þjóðartekjur á mann eru US$ 5.000.-, sem var tvöfalt á við Filipseyinga og flestar þjóðir Míkrónesíu árið 1996.  Fjöldi ferðamanna til eyjanna hefur aukizt smám saman.  Stjórnsýslan byggist á tveggja deilda þingi, ríkisstjórn og forseta til fjögurra ára.

Sagan.  Palau-eyjar eru umkringdar öðrum eyjum og voru byggðar nokkrum hópum þjóðerna á síðustu 3000 árum.  Spánverjinn Ruy Lopez de Villalobos og áhöfn hans komu fyrstir Evrópumanna til eyjanna og Spánverjar réðu eyjunum til 1899, þegar Þjóðverjar keyptu þær.  Japanar, sem voru bandamenn Þjóðverja í fyrri heimsstyrjöldinni, hernámu eyjarnar 1914 og fengu síðan yfirráð yfir þeim fyrir hönd Þjóðabandalagsins 1922.  Þeir komu upp aðstöðu fyrir sjóher sinn, sem Bandaríkjamenn lögðu undir sig 1944.

Eftir síðari heimsstyrjöldina urðu eyjarnar verndarsvæði Sameinuðu þjóðanna, sem fólu BNA stjórn þeirra ásamt öðrum Kyrrahafseyjum.  Árið 1981 var tekin upp stjórnarskrá fyrir Lýðveldið Palau.  Samningurinn við BNA um sjálfstæði eyjanna var ítrekað felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu á níunda og tíunda áratugnum, einkum vegna ákvæðis um frjálsa umferð herskipa, kafbáta og flugvéla Bandaríkjamanna með kjarnorkuvopn um land- og lofthelgi landsins.  Í júlí 1992 lýstu Bandaríkjamenn því yfir, að þessi farartæki yrðu ekki búin slíkum tólum, og samningurinn var samþykktur í níundu atkvæðagreiðslunni.  Lýðveldið fékk fullt sjálfstæði 1. október 1994.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM