Wellington
er höfuð- og hafnarborg og viðskiptamiðstöð landsins allranyrzt á
Norðureyju. Hún nær yfir
ströndina og hæðirnar upp frá henni í kringum Nicholson-höfn, sem
er næstum landluktur fjörður og ein bezta höfn heims.
Viktoríufjall (196m) er næstum í miðri borginni.
Árið 1839 sigldi skip Nýja-Sjálandsfélagsins inn fjörðinn. Um borð voru embættismenn, sem áttu að velja fyrsta landnám
félagsins. Svæðið við
mynni Hutt-árinnar, sem varð fyrir valinu, reyndist óhentugt og byggðin
var flutt til Lambton-hafnar á vesturströnd fjarðarins.
Fyrsti jarlinn af Wellington studdi félagið og það ákvað að
skíra byggðina eftir honum árið 1840.
Hún fékk kaupstaðarréttindi 1853.
Árið 1865 var setur ríkisstjórnarinnar flutt til Wellington
frá Aukland.
Wellington
er aðalmiðstöð flutninga og samgangna.
Járnbrautir og þjóðvegir teygjast frá henni til allra hluta
Norðureyjar og sjóleiðir liggja til Picton og Christchurch og Suðureyjar.
Flugumferðin fer um millilandaflugvöllinn við borgina.
Höfnin þjónar millilanda- og strandferðaskipum og helztu
innflutningavörurnar, sem fara um hana, eru fljótandi eldsneyti og olíuvörur,
farartæki og varahlutir, kol og jarðefni.
Helztu útflutningsvörurnar eru frosið kjöt, dagblöð, mjólkurvörur,
ull, húðir og ávextir. Wellington-Hutt
er aðaliðnaðarsvæði landsins.
Þar eru verksmiðjur, sem framleiða fatnað, skófatnað,
flutningatæki, vélbúnað, málmvöru, vefnaðarvöru, prentað mál,
matvæli, efnavöru, sápu og gúmmívörur. Þarna er einnig viðhaldsstöð járnbrautanna, skipasmíðastöðvar
og birgðastöðvar fyrir eldsneyti og endastöð gasleiðslunnar frá
Kapuni-svæðinu.
Stór
hluti borgarinnar stendur á landfyllingu.
Meðal áhugaverðra staða eru Þjóðlistasafnið, Nýlendusafnið,
þinghúsið og opinberar byggingar, ráðhúsið, lögbókasafnið,
Viktoríuháskóli (1899), enska dómkirkjan , Stríðsminnismerkið
Carillon (f.heimst.) og dýragarðurinn.
Gamla ríkisstjórnarhúsið (1876) er meðal stærstu timburhúsa
heims. Áætlaður íbúafjöldi
1992 í borginni sjálfri var tæplega 150 þúsund en í Stór-Wellington
tæplega 326 þúsund. |