Nýja Sjáland efnahagslífið,
Flag of New Zealand

      HAGTÖLUR

NÝJA SJÁLAND
EFNAHAGSLÍFIÐ

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Nýja-Sjáland býr við lítið þróunarhagkerfi og lífsgæði eru á lægra stigi en í sambærilegum löndum, Ástralíu, Kanada o.fl.   Síðla á 19. öld og snemma á hinni 20. voru lífsgæði hvað mest í landinu en eftir síðari heimsstyrjöldina hefur hagvöxtur verið einn hinn hægasti miðað við önnur þróunarríki.  Aðalástæðan er hægur hagvöxtur í Bretlandi, sem var aðalkaupandi útflutningsafurða landsins, og háir innflutningstollar í helztu iðnríkjum á landbúnaðarvörur.  Aðgerðir í efnahagsmálum á síðari hluta 20. aldar hafa flestar beinzt að því að finna leiðir fram hjá þessum tollum og stuðla að meiri fjölbreytni í atvinnulífinu, m.a. með stuðningi við nýsköpun í iðnaði.

Auðlindir.  Flest efni, sem finnast í jörðu í heiminum, málmar og málmleysingjar, eru til í landinu en yfirleitt í of litlu eða dreifðu magni til að vinna þau.  Gull er undantekning og á snemma á nýlendutímanum var mikið flutt út af því.  Kol eru grafin upp í talsverðu magni, járnsandur er fluttur út og nýttur innanlands og náttúrugas bættist við á síðari tímum.  Talsvert er einnig nýtt af margs konar byggingarefni.

Lífrænar auðlindir landsins hafa ætíð verið mikilvægari en jarðefni, þótt gullið hafi átt sitt blómaskeið um tíma.  Húsdýr, sem voru flutt frá Evrópu, hafa þrifizt í landinu og nýting skóga með skógrækt, sem byggist aðallega á furu, sem er nýtt í timbur og trjákvoðu, hafa verið stöðug undirstaða efnahagslífsins. 

Nýting vatnsorku er komin á það stig, að flestir íbúar og atvinnustarfsemi landsins njóta rafmagns.  Virkjanir á Suðurey losna við umframrafmagn um kapal til Norðureyjar.  Frá fyrri hluta áttunda áratugar 20. aldar hafa nokkur kola- og brennsluver verið byggð.  Ríkið og einkafyrirtæki hafa starfað saman að nýtingu gasbirgða og byggt fyrstu verksmiðjuna, sem framleiðir eldsneyti úr náttúrugasi.

Landbúnaður, iðnaður og viðskipti.  Grundvöllur landbúnaðar á árunum 1890-1970 byggðist á talsvert flóknu efnahagskerfi.  Mikil framleiðni kvikfjárræktar byggðist á tempruðu loftslaginu, mikilli fjárfestingu í jarðabótum (innfluttar grastegundir og áburður) og fagmennsku eigienda og stjórnenda búgarðanna, sem greiddu einhver hæstu laun í landbúandi í heiminum.  Búgarðarnir voru og eru grundvöllur reksturs margra þjónustugreina tengdum fjármálum, viðskiptum, samgöngum og byggingarstarfsemi og vinnslugreina eins og mjólkurbúa, sláturhúsa og kjötvinnslustöðva.  Fyrir útflutning þessara afurða fékkst mikið af neyzluvörum og fullunnum vörum auk hráefna og eldsneytis.

Jafnvel á 19. öld gerði einangrun landsins það að verkum, að atvinnuvegir eins og framleiðsla og viðhald landbúnaðarvéla- og tækja, skipasmíðar, bruggstarfsemi og timburvinnsla voru mjög vinnuaflsfrekir.  Vinnuaflsþörf í vinnslu landbúnaðarafurða var mest eftir 1880.  Einangrun landsins jókst mjög á árum fyrri- og síðari heimsstyrjaldanna, þegar út- og innflutningur lá að mestu niðri og framleiða varð ýmsar nauðsynjavörur, sem höfðu verið fluttar inn.  Ríkið hóf að beita verndartollum í litlum mæli seint á 19. öldinni og jók þá eftir fyrri heimsstyrjöldina.  Frá síðari heimsstyrjöldinni fram á áttunda áratuginn var heimaiðnaðurinn verndaður með dýrum innflutningsleyfum til að hægt væri að halda uppi fullri atvinnu.  Á þessum tíma þróaðist vinnuaflsfrekur iðnaður við samsetningu bíla og heimilistækja o.fl., sem var óhagstæður efnahagslífinu og lítt eða ekki samkeppnishæfur.

Eftir 1960 fór kvikfjárræktinni að hnigna samtímis aukinni skógrækt og nýtingu skóga (pappír og timburvörur), gróðurhúsarækt, fiskveiðum, dádýrabúskap, ferðaþjónustu og iðnframleiðslu.  Útflutningurinn breyttist í samræmi við þetta en engu að síður var mest flutt út af ull, kjöti og mjólkuvöru.  Mikilvægi viðskipta við Bretland minnkaði en jókst við Japana, BNA og Miðausturlönd.  Viðskipti við Ástralíu hafa ætíð skipað stóran sess.  Fjöldi viðskiptasamninga milli landanna (1933, 1965, 1977) leiddi til enn nánari viðskiptasambanda, þegar Nýsjálendingar og Ástralar undirrituðu enn einn samninginn 1983.  Samkvæmt honum var gagnkvæmt dregið úr tollum innfluttra vara og kvótakerfi var komið á fót.  Margir álíta þetta fyrsta skrefið til sameiningar efnahagslífs beggja landanna.

Fjármál.  Bankastarfsemi hófst snemma í Nýja-Sjálandi.  Snemma á áttunda áratugi 20. aldar var komið fákeppniskerfi nokkurra stórra viðskiptabanka (hinir stærstu ríkisreknir og aðrir í erlendri eigu) undir yfirstjórn seðlabankans (Reserve Bank of New Zealand) auk nokkurra sérhæfðra frjármálastofnana.  Þá losaði ríkið um takið á fjármálamarkaðnum leyfði frjáls bankaviðskipti.  Árið 1985 var losað um erlend bankaviðskipti og gengi gjaldmiðils landsins látið fljóta í fyrsta skipti.

Samgöngur.  Þrátt fyrir fjöllótt og óslétt landslag eyjanna, liggja greiðar leiðir til og á milli byggðra bola.  Vegakerfið er gott, jafnvel í sveitunum, og hraðbrautir liggja milli helztu borga.  Einkabíllinn hefur löngum verið aðalsamgöngutækið, en áætlunarbílar annast líka fólksflutninga milli staða.  Vegna þess, hve landið er erfitt yfirferðar, tekur stundum langan tíma að ferðast stuttar vegalengdir.

Járnbrautakerfið, sem Járnbrautafélag Nýja-Sjálands rekur, er undir beinni stjórn ríkisins.  Aðalleiðir á báðum eyjum eru tengdar með ferjum milli þeirra og út frá þeim liggja spor til flestra borga.  Mjó járnbrautagöng takmarka breidd sporanna, þannig að ekki var hægt að koma við hraðlestum.  Ferðir með lestunum taka mikinn tíma, þannig að fólkið kýs annan ferðamáta, ef það á þess kost, en vöruflutningar með járnbrautunum er mikill.  Lög, sem takmörkuðu vöruflutninga um vegakerfi landins, voru afnumin snemma á 8. áratugnum, þannig að slíkir flutningar eru orðnir talsverðir.

Hið erfiða landslag hefur verið vatn á myllu þeirra, sem stunda loftflutninga í landinu.  Flugvellir eru við flestar borgir og hinar stærstu eru hluti af innanlandsnetsins.  Air New Zealand er aðalflugfélagið í eigu almennings.  Einkarekin flugfélög veita því aukna samkeppni.  Nýsjálenzka flugfélagið annast líka millilandaflug ásamt nokkrum erlendum flugfélögum.  Millilandaflugvellir eru við Aukland, Christchurch og Wellington.


.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM