Dunedin
er hafnarborg í Otagonhéraði á suðausturhluta Suðureyjar við
Otagohöfn, sem er 23 km löng og hafskipahöfnina Chalmers yzt.
Skozka
fríkirkjan stofnaði borgina 1848 á þessum slóðum vegna góðs aðgangs
að timbri og vænleg svæði til landbúnaðar.
Hún var kölluð Dunedin, sem er gelíska nafnið á Edinborg
(Duneideann). Gullfundur í
Otago 1861 olli blómaskeiði og miklu aðstreymi fólks og gerði hana
að mikilvægustu borg landsins á síðari hluta 19. aldar.
Hun var kauptún 1855 en varð að borg 1865.
Þrátt
fyrir hægfara vöxt eftir síðari heimsstyrjöldina, er borgin mikilvæg
miðstöð iðnaðar. Verksmiðjurnar
framleiða ullarvörur, vefnaðarvörur, heimilistæki, fótabúnað, húsgögn,
sápu, áburð og efnavörur og hveiti.
Þarna eru hveitimyllur, slippir, verkfræðistofur og járn- og
málmsteypur. Dunedin er
tengd þjóðvega- og járnbrautakerfinu til Christchurch 337 km norðar
og flugsamgöngum.
Dunedin
er einnig kunn fyrir 200 ha skógarbeltið, sem stofnendur borgarinnar
skipulögðu umhverfis miðborgina.
Grasagarðurinn og listasafnið eru áhugaverðir staðir.
Otago-háskólinn er hinn elzti á Nýja-Sjálandi (1869).
Þarna eru líka Otago-safnið og Landnemasafnið.
Borgin er miðstöð katólsku- og ensku biskupakirjunnar og þar
eru guðfræðiskólarnir Knox, Selwyn og Heilagskross-menntaskólinn.
Áætlaður íbúafjöldi 1991 var tæplega 117 þúsund. |