Naurueyja
(Naoero) er eyja í Bandaríkjum Míkrónesíu í Mið-Kyrrahafi, rétt
sunnan miðbaugs og 4000 km norðaustan Ástralíu.
Hún er ávöl kóraleyja, 21 km² að flatarmáli.
Áætlaður íbúafjöldi hennar var rúmlega 10 þúsund árið
1996 (489 manns á hvern km²). Meirihluti
(58%) íbúanna eru innfæddir, 26% frá öðrum Kyrrahafseyjum, 8% kínverjar
og 8% Evrópumenn. Hinir
innfæddu eru blandaðir Pólýnesar, Míkrónesar og Melanesar.
U.þ.b. 75% íbúanna eru kristnir.
Tunga innfæddra og enska eru aðaltungumálin. Yaren-sýsla er höfuðborg eyjarinnar. Langflestir íbúanna búa á frjósamri strandlengjunni
hringinn í kringum eyjuna. Inni
á eyjunni er Miðsléttan í u.þ.b. 61 m hæð yfir sjó.
Þar eru einhverjar mestu birgðir af gæðafosfati í heiminum.
Efnahagslífið.
Gjaldmiðill landsins er Ástralíudalur (100 sent).
Landsmenn njóta ríkulegra umboðslauna fyrir námuvinnsluna
(fosfat), þannig að eyjaskeggjar eru meðal hinna ríkustu á
Kyrrahafseyjum. Verg þjóðarframleiðsla
Nauru jafngildir US$ 8.070.- á mann.
Árið 1994 voru 6.800.000 tonn af fosfati flutt til Ástralíu,
Nýja-Sjálands, Filipseyja, Suður-Kóreu og Japans, aðallega til áburðarframleiðslu.
Snemma á tíunda áratugnum dró úr eftirspurn eftir fosfati.
Fosfatnámið hefur spillt náttúru eyjarinnar verulega og búist
er við að námurnar endist til ársins 2000.
Að því loknu verða u.þ.b. 80% eyjarinnar óbyggileg nema
miklum fjármunum verði varið til umbóta.
Stjórn eyjarinnar hefur notað stórar fjárhæðir til fjárfestinga
erlendis og hvatt til uppbyggingar iðnaðar til að tryggja efnahagslífið
í framtíðinni. Árið
1993 var gengið frá samningi við Ástralíu um 80 miljónir Ástralíudala
vegna tjónsins, sem námugröfturinn olli á meðan Ástralar réðu
eyjunni.
Sagan.
Litlum sögum fer af íbúum eyjarinnar fyrir 1798, þegar John
Feam, skiptstjóri, kannaði eyjuna.
Þjóðverjar lögðu eyjuna undir sig 1888 og fosfatbirgðirnar
voru uppgötvaðar 1899. Ástralía
fékk yfirráðin 1914 og árið 1920 tóku Bretar við þeim samkvæmt
úrskurði Þjóðabandalagsins. Japanar
hersátu Nauru á árunum 1942-45 og 1947 varð eyjan verndarsvæði
Sameinuðu þjóðanna undir stjórn Ástrala.
Eyjaskeggjar fengu sjálfstæði og lýðveldi var stofnað 31.
janúar 1968. Sama ár varð
hún aðili að Brezka samveldinu.
Þingið starfar í einni deild og þingmennirnir 18 eru kjörnir
til þriggja ára í senn. Þeir
kjósa forseta landsins. Nauru
er ein eyjanna, sem stafar veruleg ógn af hækkun sjávarstöðu á 21.
öld vegna hækkandi meðalhita í heiminum.
Árið 1995 var mótmælarödd Naurustjórnar hvað hæst gegn
tilraunum Frakka með kjarnorkuvopn, sem þeir tóku upp á ný. |