Melanesía,
Flag of Papua New Guinea


MELANESÍA


.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Melanesía er ein af mörgum þjóð- og landafræðilegu skiptingum Kyrrahafseyja, sem nær yfir eyjarnar Nýju-Gíneu, Aðmíráls-, Bismarck- og Louisiade-eyjaklasana, Salómons- og Santa Cruz-eyjar, Nýju Kaledóníu og Loyalty-eyjar, Vanuatu (fyrrum Nýju-Hebrides-eyjar), Norfolkeyju og fjölda annarra smáeyja.  Hin svonefnda Andesítlína, sem er mikið eldvirknis- og jarðskjálftabelti, skilur þessa eyjakeðju frá Pólynesíu í austri og Míkrónesíu í norðri (um miðbaug).  Suðurmörk Melanesíu eru syðri hvarfbaugur og Ástralía.  Nafn þessa svæðis er komið úr grísku (melas = svartur; nesoi = eyjar).

Jules-Sébastien-César Dumont d’Urville landkönnuður fór í margar ferðir til Kyrrahafssvæðisins og í þriðju ferðinni skipti hann eyjum og eyjaklösum í Melanesíu, Pólynesíu og Míkrónesíu.  Síðan hann var á ferðinni á fyrri hluta 19. aldar hefa m.a. fornleifarannsóknir leitt í ljós, að þessi skipting er óraunhæf, þar eð Melanesía er a.m.k. tvö menningarsvæði.

Papúar, sem voru fyrstir á þessu landsvæði, bjuggu á Sahul-meginlandinu fyrir 40 þúsund árum.  Hluti þessa meginlands sökk í sæ og Nýja-Gínea varð eftir ofansjávar.  Fyrir 30 þúsund árum byggði þetta fólk Bismarckeyjar austan Nýju-Gíneu.  Þetta fólk hafði líklega óbein tengsl við íbúa Suðaustur-Asíu og þróaði með sér einhverja fyrstu landbúnaðartæknina, byggða á ræktun rótarávaxta og sykurreyrs, fyrir allt að 9000 árum.  Nútímaafkomendur þessa fólks talar tungur, sem eru skilgreindar sem papúan.

Önnur menning kom fram á sjónarsviðið fyrir u.þ.b. 4000 árum.  Um það leyti fór fólk af suðausturasískum uppruna að sigla til svæða norðan Nýju-Gíneu.  Leirmunir, verkfæri og skeljaskraut, sem rekja má til Lapita-menningarinnar, benda til búsetu þess á Bismarckeyjum fyrir 3500 árum.  Tunga þess var ástrónesísk, skyld tungumálum Indónesíu og Filipseyja og menning þess var byggð á ræktun róta og trjáa og siglingakunnáttu.

Ástónesísktalandi fólk myndaði byggðir með ströndum fram og stundaði viðskipti við suðureyjar Salómonseyja, Vanuatu, Nýju-Kaledóníu og Fijieyjar.  Viðskiptamunstrið gefur til kynna að þessar byggðir hafi verið stjórnmálalega tengdar.  Talið er víst, að Fijieyjar hafi í fyrstu verið byggðar þessu fólki en síðar komu hinir hörundsdekkri melanesar, eftir að Fijieyjar höfðu orðið að miðstöð landnáms í Vestur-Pólynesíu.  Ljóst er, að fólk, sem talaði ástrónesísk mál, var í meirihluta.  Hinir hörundsdekkri íbúar Kyrrahafseyja austan Bismarckeyja eru skilgreindir eftir tungunni, sem var Kyrrahafs-ástrónesíska.

Þjóðfélög á Nýju-Gíneu og Melanesíueyjunum fyrir nýlendutímann voru byggð á ættarsamfélögum, sem tengdust með hjónaböndum.  Slíkir hópar, 20-100 manns, voru tiltölulega sjálfstæðar einingar.  Þeir áttu sameiginlegt land, þótt einkaréttur minni hópa eða einstaklinga yfir görðum og og ræktuðum trjám væri viðurkenndur.  Eignarrétturinn fór eftir skyldleika og erfðaréttur gilti á mestum hluta láglendis Nýju-Gíneu, á D’Entrecasterqux-eyjum, Louisiades-eyjum, Bismarck-eyjum og flestum Salómons- og Banks-eyjum.

Víða voru hópanir dreifðir á svæðunum í smáþorpum eða á smábýlum.  Oft hafðist fólkið þar aðeins við um stuttan tíma, sem ákvarðaðist af ræktunartímanum.  Hóparnir héldu saman, þegar hætta var á skyndiárásum.  Inni í landi hélt fólkið frekar hópinn á fjallseggjum eða tindum í varnarskyni.

Búsetan var mismunandi.  Á hlutum Sepik-sléttnanna í Nýju-Gíneu hópuðaðist fólk af sömu ættkvlslum saman í stórum þorpum (sum með rúmlega 1000 íbúa).  Í landbúnaðarhéraðinu Kiriwina á Trobriand-eyjum (Massim), byggðust allt að 200 manna þorp í kringum danssvæðið í miðjunni.  Þorp af svipaðri stærð byggðust á litlum kóraleyjum við lón Norður-Malaita (Salómonseyjum).  Almennt byggðust stór þorp með ströndum fram til frambúðar en inni í landi færði fólkið sig meira úr stað.

Samskipti kynjanna voru athyglisverð og algengt var, að þau væru aðskilin.  Karlar héldu gjarnan til í klúbbhúsum, sem voru tákn um trúarlega eða hernaðarlega samstöðu á mörgum svæðum í Nýju-Gíneu og á eyjum Melanesíu, einkum í dal Sepik-árinnar í Nýju-Gíneu og á suðurströndinni.  Konur og börn voru heimavið.

Leiðtogar þessara hópa voru að mestu í höndum manna, sem höfðu brotizt til frama með dugnaði og athafnasemi og náð áhrifum og völdum á þann hátt.  Á fyrstu árum landnáms Evrópumanna í Melanesíu voru margar ættkvíslar undir stjórn erfðahöfðingja.  Slík stjórnsýsla tíðkaðist víða í hlutum byggða fólks sem talaði ástrónesísk mál á ströndum Nýju-Gíneu (Mekeo, Motu), hlutum Salómonseyja (Rugara, Buka, Shortlands, Litlu-Malaita), hlutum Vanuatu (Aneityum) og víðast á Nýju-Kaledóníu.  Sums staðar annars staðar byggðist höfðingdómurinn á stéttarstöðu í bland við flóknar reglur um erfðarétt og hæfileika.

Skiptiræktun einkenndi landbúnað Papúa og Ástrónesa.  Skógar voru ruddir með stein- eða skeljaverkfærum eða eldi.  Eyjaskeggjar plöntuðu aðallega taro og rótarávöxtum (yams; Dioscorea), og ræktuðu einnig plantein, sagó, pandanus, Hibiscus manihot og sykurreyr.  Auk ræktunar rótarávaxta og trjáa, ræktuðu eyjabúar svín og veiddu fisk, pokadýr og fugla.  Stundum söfnuðu þeir líka skordýrum og rótum og birgðu sig upp af villtum ávöxtum, hnetum til að mæta þrengingum.

Papúar og Ástrónesar komu sér upp skiptiverzlun, sem fór fram með hátíðahöldum.  Þar var á boðstólum umframgeta, s.s. svín, jarðarávöxtur, munir úr skeljum, höfrungatönnum, hundatönnum o.fl. smíðagripir.  Sums staðar komu þessir skiptimarkaðir í stað nágrannakrita og átaka og til eru dæmi um að slíkir markaðir hafi þróazt frá mannagjöldum.

Trúarbrögð Papúa á Nýju-Gíneu voru og eru margs konar.  Fjallafólkið (telefol, bimin, kuskusmin og baktamin) býr við mjög flókna siði við manndómsvígslur.  Galdrahræðsla er mikil í Nýju-Gíneu og á eyjum Melanesíu og meðal fjallafólksins eru ásakanir um galdra aðalorsök átaka og blóðhefnda.  Meðal Ástrónesa eru andar forfeðranna og aðrir andar hluti daglegs lífs.  Þeir veita stuðning í stríði, við garðyrkju og stuðla að velgengni.  Tilvera þessara anda byggðist á draumum, ofskynjunum, óhöppum, velgengni eða hrakförum, heilsu og dauða.  Íbúar eyja Melanesíu höfðu enga milliliði (presta) í fullu starfi.  Almennir töfrar, tengdir garðyrkju o.þ.h., voru á allra vitorði en þeir, sem voru tengdir baráttuþreki eða þjófnaði, voru ekki á allra færi og vandlega haldið leyndum.

Kristnin hefur smám saman komið í stað þessara margvíslegu trúarbragða.  Á fyrstu nýlenduárunum kom fram trúarstefna meðal innfæddra á ströndum Nýju-Gíneu og á eyjum Melanesíu, sem líkist teinaldarhreyfingum kristinna töluvert.  Hún boðaði nýöld með gnægð veraldlegra muna frá yfirnáttúrulegum stöðum (vörur, sem Evrópumenn fluttu með sér til eyjanna).

Listsköpun í Melanesíu er margs konar og mismunandi milli staða.  Mannslíkaminn er aðallistform fjallabúa í Nýju-Gíneu.  Þeir mála andlit sín og líkama og skrýðast hárkollum, höfuðskrúða og vönduðum búningum.  Á láglendinu eru fjörugar hefðir ættbálkanna (sepik, massim) orðnar heimskunnar.  Kristnin leiddi til þess, að margir siðir og venjur hurfu snemma, s.s. margs konar tónlist og dans, þannig að margar útgáfur nú á dögum eru byggðar á tílgátum.  Tónlistin nær yfir sorgarljóð við minningarathafnir og margslungna ástarsöngva (panflautur), sem eru allt að átta kontrapunktaðir (Malaita, Salómonseyjar).  Sagnahefðin er einnig rík í Melanesíu.

Flestir ættbálkar innfæddra í Melanesíu búa nú við kristni og vestræn áhrif og víða hafa þessi öfl verið að verki í meira en eina öld.  Á afskekktustu stöðum Nýju-Gíneu hefur samneyti við Vesturlandabúa verið í lágmarki og víða ekki fyrr en eftir 1930.  Núna eru þessir staðir orðnir aðgengilegri og hafa breytzt, þótt þar hafi gamlir siðir og venjur varðveitzt bezt.  Einhver mesta breytingin var breyting samfélaganna, sem voru stéttlaus áður en vestræn áhrif ollu stéttaskiptingu.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM