Þarna
ríkir jaðartrópískt úthafsloftslag og hitastig er mjög jafnt allt
árið. Meðalárshitinn er 23°C við sjávarmál og 19°C á hásléttunni.
Árstíðirnar eru tvær, desember til apríl með heitu veðri
og júní til sept. með svalara veðri. Meðalársúrkoman er 900 mm á vesturströndinni, 1525 mm á
suðurströndinni og 5080 mm á miðhásléttunni.
Flóran nær til 600 tegunda, þótt lítið sé eftir að
upprunalegum skógum. Fánan
nær m.a. til dökkbrúnna haladádýra (samber), broddaskordýraætu
(tenrec) og hreysikatta auk mikils fjölda fugla- og skordýrategunda.
Rúmlega helmingur lands er ræktanlegur.
Mest er ræktað af sykurreyr.
Íbúarnir.
Meirihluti (u.þ.b. 60%) íbúanna er kreólar og í kringum 40%
af indverskum uppruna. Evrópumenn
og kínverjar eru litlir minnihlutahópar.
Helmingur þjóðarinnar stundar hindu, þriðjungurinn er
kristinn og restin múslimar. Fjöldi
tungumála er talaður í þessum blandaða hópi en enska er opinber
tunga landsins og kreól er almenn samskiptatunga.
Eyjan er með þéttsetnustu
byggðum bólum heims. Íbúunum
fjölgaði úr hófi eftir að tókst að vinna á malaríu í heiminum
á sjöunda áratugi 20. aldar. Náttúruleg
fjölgun íbúanna hefur verið tiltölulega há, þótt fjöldi fólks
flytti úr landi á níunda áratugnum.
Næstum þriðjungur þjóðarinnar er undir 15 ára aldri.
Efnahagslífið byggist aðallega á léttum iðnaði, landbúnaði og ferðaþjónustu.
Ríkisstjórnum landsins hefur tekizt að auka fjölbreytnina í
atvinnulífinu, þannig að íbúarnir byggja ekki lengur eingöngu á
útflutningi sykurs. Verg
þjóðarframleiðsla jókst mun meira en íbúum fjölgaði á tíunda
áratugnum. Landbúnaðurinn stendur undir u.þ.b. áttunda hluta þjóðarframleiðslunnar
og við hann starfa 17% vinnuaflsins.
Sykurframleiðslan stendur undir þriðjungi útflutningstekna og
reyrinn er ræktaður á 80% ræktanlegs lands.
Landsmenn eru mjög háðir innflutningi matvæla, einkum hrísgrjóna.
Teræktunin hefur aukizt og ræktun karfaflna, tómata, kókoshnetna
og banana er mikilvæg. Tækniaðstoð
frá Japan og Ástralíu hefur hleypt nýju lífi í fiskveiðar
landsmanna. Iðnaðurinn
stendur undir u.þ.b. fjórðungi þjóðarframleiðslunnar og við hann
starfa u.þ.b. 40% vinnuaflsins. Iðnframleiðslan
hefur stöðugt aukizt og mannfrekar framleiðslugreinar, sem byggjast aðallega
á innfluttum hráefnum eða hálfunnum vörum, hafa laðað til sín
erlenda fjárfesta. Innflutingurinn
byggist aðallega á vefnaðarvöru, elektrónískum tækjum, plast- og
leðurvöru og gervigimsteinum. Mestur
hluti raforkunnar er framleiddur með innfluttu eldsneyti.
Þjónustugeirinn
stendur undir rúmlega helmingi vergrar þjóðarframleiðslu og við
hann starfa 40% vinnuaflsins. Mikilvægur
vöxtur ferðaþjónustunnar á áttunda áratugnum gerði þessa
atvinnugrein að stærstu tekjulindinni í erlendum gjaldeyri.
Innflutningur neyzluvöru, vélbúnaðar og matvæla er mun meiri
en útflutningur fatnaðar, sykurs fisks, unninna demanta og gervieðalsteina.
Helztu viðskiptalönd Máritíus eru ESB (Bretland, Frakkland,
Þýzkaland) og BNA.
Stjórnsýsla og félagsmál.
Samkvæmt stjórnarskránni frá 1968 var landið þingbundið
konungsríki í Brezka samveldinu.
Árið 1991 var samþykkt breyting á stjórnarskránni í átt
til lýðræðisstjórnar og forseta í fararbroddi.
Þessar breytingar tóku gildi 1992.
Þingið er kosið til 5 ára í senn og þar sitja 62 kjörnir
þingmenn og 4 skipaðir. Forseti
og varaforseti eru kosnir í þinginu til 5 ára.
Framkvæmdavaldið er í höndum ríkisstjórnar undir forystu
forsætisráðherra. Hæstiréttur
er æðsta dómsstig landsins.
Velferðarkerfið
byggist á sjúkrahúsum og heilsugæzlustöðvum og félagsmiðstöðvar
annast takmarkaða þjónustu, þar sem full heilbrigðisþjóusta er
ekki veitt. Tryggingastofnun
annast greiðslur eftirlauna, fjölskyldubóta o.fl. þess háttar.
Í þéttbýlinu eru þrengslin mest og ríkissjóður styrkir
sveitarfélög til uppbyggingar húsnæðis.
Rúmlega 90% barna á skólaskyldualdri ganga í skóla.
Staðall framhaldsmenntunar er hár og Máritíusháskóli (1965)
býður nám á sviðum landbúnaðar, tækni, menntunar og stjórnsýslu.
Ríkisútvarpið útvarpar
erlendum útvarps- og sjónvarpssendingum auk innlends efnis.
Skólaútvarp- og sjónvarp gegnir mikilvægu hlutverki.
Nokkur dagblöð og vikublöð eru gefin út á ensku, frönsku,
kínversku og öðrum tungumálum.
Menningarmál.
Frjáls samtök áhugafólks stendur undir listalífi landsins.
Þjóðin hefur alið af sér mörg skáld og rithöfunda.
Málaralist er í hávegum höfð.
Helztu menningarstofnanir landsins eru Máritíusstofnunin og Þjóðskjalasafnið.
Leikhús eru vinsæl og leikarar eru aðallega áhugafólk.
Allmörg opinber og stofnanabókasöfn standa fólki til boða.
Sagan.
Arabískir sæfarar hafa líklega verið kunnugir landinu allt frá
10. öld eða jafnvel fyrr. Portúgalar komu þangað snemma á 16. öld en þeir settust
ekki að. Hollendingar réðu
landinu frá 1598-1710 og nefndu það Máritíus eftir landstjóranum
Maurice af Nassau og reyndu landnám á árunum 1638-58 og aftur
1664-1710. Þeir yfirgáfu eyjuna og létu sjóræningjum hana eftir.
Árið 1721 lagði Franska Austurindíufélagið eyjuna undir sig
og nefndu hana Île de France. Næstu
40 árin gekk landnámið hægt fyrir sig og franska siglingaráðuneytið
tók að sér stjórn eyjarinnar árið 1767.
Aðalatvinnuvegurinn var sykurrækt og nýlendan dafnaði.
Í upphafi 19. aldar, þegar Frakkar og Bretar stóðu í stríði,
var Máritíus Bretum stöðug ógn á siglingaleiðum um Indlandshaf.
Árið 1810 lögðu Bretar eyjuna undir sig árið 1814 fengu þeir
framtíðaryfirráð yfir henni í friðarsamningunum í París.
Eyjaskeggjar héldu frönskum siðum, lögum og tungu en nafni
landsins var breytt til fyrri vegar.
Þrælahald var afnumið 1935 og indverskir verkamenn tóku við
verkefnum þeirra. Máritíus
blómstraði á sjötta áratugi 19. aldar en aukið framboð rófusykurs
í Evrópu leiddi til hnignunar. Malaríuplágan
á árunum 1866-68 dró mjög úr skipakomum og opnun Súezskurðarins
1869 enn frekar. Í fyrri heimsstyrjöldinni, þegar sykurverð hækkaði, kom
uppsveifla en heimskreppan á fjórða áratugi 20. aldar leiddi eymd
yfir þjóðina og verkamenn gerðu uppreisn 1937.
Síðari heimsstyrjöldin bætti ekki efnahaginn og eftir stríð
var hafizt handa við umbætur í efnahagslífinu.
Umbætur í stjórnmálum landsins leiddu til sjálfstæðis þess
1968 innan Brezka samveldisins.. Árið
1979 reið fellibylurinn Claudette yfir landið og olli gífurlegu tjóni.
Lágt heimsmarkaðsverð á sykri á níunda áratugnum leiddi
til mikilla umbóta í landbúnaði og þróunar í framleiðsluiðnaði
úr innfluttum hráefnum eða hálfunninni vöru til endurútflutnings. |