KÓKOSEYJAR
(KEELING-EYJAR) eru ástralskt
yfirráðasvæði í Austur-Indlandshafi.
Eyjarnar eru 3685 km vestan Darwin og u.þ.b. 1300 km suðsuðvestan
Singapúr. Heildarflatarmál
þeirra er 14,4 km² og þær ná yfir tvær kóralhringeyjar, hinar syðri
ná yfir 26 hólma og norðar er aðeins Keeling-eyja.
Stjórnsýslumiðstöð eyjanna er á Vestureyju í
hringeyjarklasanum.
Keeling-eyja er 24 km norðan lónsins,
sem er umkringt fjölda hólma Suður-Keeling-eyja.
Þar eru aðaleyjarnar Vestureyja (10 km löng), Suðureyja,
Heimaey, Stefnueyja og Horsburgh-eyja.
Hæsti staður eyjanna er aðeins 6 m yfir sjávarmáli.
Hitastigið er á bilinu 22°C-32°C og meðalársúrkoma er 2300
mm. Snemma ár hvert ríða
tortímandi fellibiljir yfir eyjarnar og jarðskjálftar af og til.
Flóran byggist aðallega á kókospálmum og á Keeling-eyju og
Horsburgh-eyju vex einnig gróft gras.
Þarna eru engin villt spendýr en aragrúi fugla.
Íbúarnir
eru aðallega afkomendur malæja, sem Skotinn Clunies-Ross flutti til
eyjanna á árunum 1827-31 sem verkamenn.
Þeir búa flestir á Heimaey ásamt afkomendum Clunies-Ross og
flestir þeirra eru ástralskir ríkisborgarar.
Langflestir þeirra tala malæísku og eru múslimar.
Um miðjan sjötta áratug 20. aldar fluttu margir íbúanna til
meginlandsins, aðallega Vestur-Ástralíu, vegna þrengsla á eyjunum.
Aðalatvinna eyjaskeggja er á kókosplantekrunum.
Efnahagslífið.
Framleiðsla og útflutningur kókoskjarna er undirstaða
efnahags landsmanna. Samvinnufélag
Kókoseyja var stofnað 1979 til að annast þessa atvinnugrein.
Mestur hluti matvæla og neyzluvöru er fluttur inn, þrátt
fyrir að fiskimið séu auðug og eyjaskeggjar eigi kost á garðrækt.
Flugvöllur var byggður á Vestureyju árið 1945 og var notaður
til millilendinga á flugleiðinni til Perth í Ástralíu og Jóhannesarborgar
í Suður-Afríku. Nú
annast leiguflugfélag loftflutninga milli eyjanna, Jólaeyjar og Perth.
Veðurupplýsingar frá Kókoseyjum eru mikilvægar vegna veðurspáa.
Stjórnsýsla og félagsmál.
Eyjarnar urðu ástralskt yfirráðasvæði 1955 og hluti Ástrálíu
1984. Árið 1979 stofnuðu
íbúar Heimaeyjar Kókoseyjaráðið landstjóra eyjanna til ráðgjafar
og til að koma á framfæri skoðunum íbúanna á framkvæmd innri mála.
Árið 1992 tók héraðsráð við þessu hlutverki.
Kókoseyjar reka sína eigin póstþjónustu.
Ástralska ríkið annast heilsugæzlu og tannlæknaþjónustu.
Sagan.
William Keeling, skipstjóri enska Austurindíafélagsins, fann
eyjarnar árið 1609, þegar þær voru enn þá óbyggðar.
Enskur ævintýramaður, Alexander Hare, nam land á eyjunum með
malæískt kvennabúr sitt og þræla 1826.
Árið 1827 settist John Clunies-Ross þar að með fjölskyldu
sinni, vann að endurbótum á náttúrulegum kókospálmalundum og
flutti síðan inn malæískt verkafólk til að vinna að framleiðslu
kókoshnetukjarna. Brezki náttúrufræðingurinn
Charles Darwin rannsakaði kóralrifin á svæðinu árið 1836.
Árið 1857 lýstu Bretar yfir
eignarrétti sínum og settu eyjarnar undir stjórn landstjórans á
Ceylon 1878. Eyjarnar voru lagðar undir Sundanýlenduna 1886 og
Clunies-Ross-fjölskyldunni var falin stjórn þeirra. Árið 1903 voru þær settar undir krúnunýlenduna Singapúr.
Í fyrri heimsstyrjöldinni réðist ástralski tundurspillirinn
Sydney á þýzka tundurspillinn Emden, sem neyddist til að sigla upp
á kóralrif Keeling-eyjar. Árið
1955 fluttust yfirráð eyjanna frá Singapúr til Ástralíu. Árið 1978 seldi Clunies-Ross-fjölskyldan plantekrur sínar
og afsalaði sér yfirráðum eyjanna til Ástrala, sem gerðu gjaldmiðil
sinn gildandi þar og unnu að heimastjórn eyjaskeggja.
Í apríl 1984 samþykktu íbúarnir í almennum kosningum að
verða hluti Ástralíu. Árið
1999 var íbúafjöldi eyjanna 636. |