Kiribati,

LÍNUEYJAR      

KIRIBATI
.

.

Utanríkisrnt.

Lýðveldið Kiribati er eyjaríki í Mið-Kyrrahafi.  Alls eru eyjarnar 33 og 20 þeirra eru byggðar.  Mestur hluti íbúanna býr á hinum 16 Gilbertseyjum, sem liggja á og í kringum miðbaug.  Þaðan teygjast eyjarnar 400 km til vesturs til Banaba (fyrrum Úthafseyjar) og tæplega 3000 km til austurs til Línueyja (þrjár þeirra eru byggðar).  Í þessari röð eyjaklasa eru m.a. Fönixeyjar, þar sem er engin föst byggð.  Höfuðborg Kiribati er Bairiki á Tarawa kóraleyjunni í norðanverðum Gilberteyjaklasanum.  Kiribati er í Brezka samveldinu.  Kiribati og Tuvalu voru opinberlega sameinaðar sem Gilbert og Ellice-eyjanýlendan.
Nokkrar eyjanna eru samsafn kóralrifja en flestar eru kórallóneyjar.  Stærst hinna siðarnefndu er Kiritimati (Jólaeyja) í Línueyjaklasanum, sem er 388 km² að flatarmáli, sem nálgast helming heildarflatarmál landsins.  Kiritimati var notuð til kjarnorkutilrauna Bandaríkjamanna og Breta á sjöunda áratugi 20. aldar en þar eru nú stærstu kókospálmalundir eyjanna og mesta fiskiræktin.  Banaba er 80 m há hæð, þar sem fosfat var unnið á árunum 1900-1979.  Eyjan er mjög strjálbýl.  Meðalúrkoman í Gilberteyjaklasanum er 3000 mm í norðurhlutanum og 500 mm í suðurhlutanum.  Mest rignir á tímabilinu nóvember til marzloka, þegar vestanvindarnir ríkja.  Norðaustur staðvindarnir ríkja frá apríl til október.  Hitastigið er venjulega á bilinu 27°C-32°C.

Helzta einkenni landslagsins á eyjunum er pálmaplantekrurnar.  Matarræði fólksins byggist aðallega á afurðum pálmanna og því, sem það aflar sér á rifinu og í sjónum.  Safinn úr pálmunum er notaður til matreiðslu og sé hann látinn gerjast, verður hann að göróttum drykk.  Á eyjunum eru líka ræktuð brauðaldin og pandanus.  Rætur Cyrtosperma chamissionis eru notaðar til matar.  Taro, bananar og kartöflur eru óvíða ræktaðar.  Talsvert er ræktað af svínum og hænsnum.

Íbúarnir eru míkrónesar og tala allair sömu tungu, sem hefur 13 hljóð.  „ti” er borið fram sem „s”, þannig að Kiribati er borið fram Kiribas.  Enska er víða töluð, einkum á Tarawa.  Helmingur íbúanna er rómversk-katólskur og flestir hinna eru mótmælendur.  Íbúafjöldi flestra hinna byggðu eyja hefur staðið nokkuð í stað síðustu árin vegna mikils flutnings til þéttbýlisins á suðurhluta Tarawa, þar sem u.þ.b. þriðjungur landsmanna býr nú.  Betio er hafnarbærinn og aðalverzlunarstaðurinn.  Þar búa u.þ.b. 5000 manns á hverjum ferkílómetra í einnar hæðar húsum.  Fólkið í strjálbýlinu býr í þorpum með vestrænum kirkjum og opnum stráhúsum til fundarhalda.  Vestræn hús eru til á ytri eyjunum og á Tarawa.

Efnahagslífið.  Á tímabilinu 1900-1979 byggðist efnahagur landsins að verulegu leyti á fosfatvinnslunni.  Áður en það þraut hafði landsmönnum tekizt að safna digrum varasjóði, sem gefur af sé væna vexti til ríkissjóðs.  Aðrar tekjulindir eru þurrkaðir kókoskjarnar og sala veiðileyfa til erlendra skipa í lögsögu landsins.  Kiribati nýtur erlends fjárstuðnings við uppbyggingu og þróun í landinu.  Matvæli eru u.þ.b. þriðjungur alls innflutnings og aðaltengslin á sjó eru við Fiji-eyjar og Ástralíu.  Íbúarnir á Suður-Tarawa stunda flestir launaða vinnu en flestir, sem búa á úteyjunum stunda sjálfsþurftarbúaskap auk þess að njóta smátekna fyrir þurrkaða kókoskjarna, fiskveiðar eða handverk.  Margir íbúanna njóta líka styrks frá ættingjum, sem stunda vinnu erlendis.  Ríkið sér um samgöngur milli eyjanna og flestar eyjanna eru í flugsambandi.  Aðalflugvellirnir eru á Tarawa og Kiritimati.

Banabaeyja tilheyrir Kiribati í Vestur-Kyrrahafi í nánd við miðbaug og Nauru.  Heildarflatarmál hennar eru 5 km².  Hún er hin eina í Kiribatiklasanum, sem er ekki kóraleyja.  Þar voru fyrrum verðmætar birgðir fosfats en þær kláruðust á níunda áratugi 20. aldar.  Bretar fundu eyjuna 1804 og innlimuðu hana í nýlenduna Gilbert- og Ellice-eyjar árið 1900.  Fyrir síðari heimsstyrjöldina var eyjan stjórnsýslumiðstöð nýlendunnar.  Japanar fluttu alla íbúa hennar í vinnubúðir í stríðinu.  Bretar komu íbúunum fyrir á einni Fijieyjanna eftir stríðið.  Þeir fóru að snúa aftur heim á áttunda áratugnum.  Árið 1990 var Íbúafjöldinn 284 og árið 1979 varð eyjan hluti af Kiribati-lýðveldinu.  Árið 1981 fengu íbúarnir bætur frá Bretum vegna 50 ára fosfatvinnslu á eyjunni.

Rawaki er klasi eyja, sem tilheyra Kiribati í Mið-Kyrrahafi, sunnan Hawaiieyja.  Klasinn nær yfir Nikumaroro (Gardner), Manra (Sydney), Orona (Hull), Enderbury, Kanton, Mckean, Birnie og Rawaki (Phoenix).  Eyjaklasinn er undir stjórn hins sjálfstæða lýðveldis Kiribati.  BNA gerðu kröfu til Kanton og Enderbury-eyja í marz 1938 og samkvæmt samningum milli Breta og Bandaríkjamanna voru þær undir sameiginlegri stjórn beggja ríkjanna þar til þær voru afhentar Kiribati 1983.  Heildarflatarmálið er 29 km² og áætlaður íbúafjöldi árið 1990 var 45.

Tarawa-kóralhringeyjan er í Mið-Kyrrahafi og höfuðstaður lýðveldisins Kiribati.  Hún er samansett af fjölda smárra kóraleyja, sem ná yfir 23 km².  Aðaleyjarnar eru Bainiki, Betio, Bonriki og Bikenibeu.  Tarawa er miðstöð viðskipta með höfn og millilandaflugvelli.  Háskóli Suður-Kyrrahafs er þar.  Í síðari heimsstyrjöldinni var Tarawa vettvangur einnar mestu orrustu í Suður-Kyrrahafi, þegar bandaríski sjóherinn sigraði japanskar herdeildir, sem hersátu eyjuna.  Bretar gerðu Tarawa að höfuðstað verndarsvæðis sins (Gilbert- og Ellice-eyjar) eftir stríð og árið 1979 varð hún að höfuðstað nýja lýðveldisins Kiribati.  Áætlaður íbúafjöldi 1990 var tæplega 29 þúsund.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM