Jólaeyja Kittimati Ástralía,
Flag of Australia


JÓLAEYJA
ÁSTRALÍA
.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

JÓLAEYJA (Kittimati) er yfirráðasvæði Ástralíu, 360 km sunnan Java og 1400 km norðvestan Ástralíu.  Flatarmál hennar er 135 km² og hún er í rauninni tindur mikils neðansjávarfjalls.  Hæsti punktur eyjarinnar er  Murray Hill (361m) á vesturhlutanum.  Aðalbyggðin og höfnin eru Flying Fish Cove á norðausturhlutanum.

Skipstjórinn á Thomas, Richard Rowe, sá eyjuna fyrstur 1615 en William Mynors, skipstjóri hjá Brezka Austurindíafélaginu, gaf henni nafnið.  Árið 1887 var safnaði áhöfnin á HMS Egeria þar sýnishornum af jarðvegi og grjóti, sem náttúrufræðingurinn John Murray skoðaði.  Hann komst að þeirri niðurstöðu að þau sýndu næstum hreint kalkfosfat.  Árið 1888 lögðu Bretar eyjuna undir sig og George Clunies-Ross frá Kókoseyjum (Keelingeyjum) stofnaði til fyrstu byggðarinnar við Flying Fish Cove.  Clunies-Ross fékk rétt til að nýta fosfat og stunda skógarhögg á eyjunni með 99 ára samningi árið 1891.  Sex árum síðar framseldi hann samninginn til Fosfatfélags Jólaeyjar, sem var að mestu í eigu þeirra, sem afsöluðu samningnum til Clunies-Ross.  Árið 1900 var eyjan gerð að hluta Brezku krúnunýlendunni samkvæmt Sundasamningnum með Singapúr sem höfuðborg.  Í síðari heimsstyrjöldinni hersátu Japanar eyjuna.  Árið 1948 eignuðust Nýju-Sjálendingar og Ástralíumenn námu- og skógarhöggsréttinn á eyjunni og árið 1958 varð hún að áströlsku landi.

Miðsléttu eyjarinnar hallar í þrepum niður að 20 m háum sjávarbjörgum meðfram mestum hluta strandlengjunnar.  Þarna eru engar sand- eða kóralstrendur.  Hitabeltisúrkoman fellur að mestu leyti í desember til apríl og lítill munur er á hitastigi allt árið (27°C).  Meðalársúrkoman er 2670 mm.  Regnskógar þekja eyjuna að mestu og dýralífið felst aðallega í miklum fjölda fugla, lítilla eðlna, krabba og skordýra.  Drykkjarvatn fæst úr brunnum og köldum lindum.  Mestur hluti vestureyjarinnar er þjóðgarður.

Íbúarnir eru að mestu kínverjar (73%) og 9% malæskir verkamenn frá Malasíu, Singapúr og Kókoseyjum.  Þarna búa líka ástralskar fjölskyldur stjórnenda fyrirtækja.  Flestir íbúanna hafa verið starfsmenn Fosfatnámufélagsins, sem ástralska ríkið á.  Afkoma eyjarskeggja byggist næstum eingöngu á fosfatinu, sem er flutt til Nýja-Sjálands eða Ástralíuð.  Vinnanlegt fosfat var að mestu uppurið snemma á tíunda áratugi 20. aldar, þannig að leitað var og er leiða til framfærslu íbúanna.  Unnið er að uppbyggingu ferðaþjónustu.  Landbúnaður er lítill og fiskveiðar eru stundaðar í smáum stíl, þannig að mestur hluti matvæla er innfluttur.

Aðalstjórnandi eyjarinnar er fulltrúi landstjóra Ástralíu.  Starfsfólk hans annast mál, sem snerta menntun, póstþjónustu, löggæzlu, og rekstur útvarps og hafnarinnar.  Íbúarnir kjósa fulltrúa á þing.  Þeir eru flestir ástralskir ríkisborgarar eða hafa dvalarleyfi.  Lítið sjúkrahús annast heilsugæsluna.  Skólastarfið byggist á ástralska kerfinu.  Um flugvöll eyjarinnar fer vikulegt leiguflug og vegir og járnbraut voru byggð til að flytja hráefni úr fosfatnámunum til Flying Fish Cove.  Áætlaður íbúafjöldi árið 1989 var tæplega 1240.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM