Fijieyjar
eru sjálfstætt lýðveldi í Suður-Kyrrahafi og hluti af Melanesíu.
Eyjaklasinn (rúmlega 200 eyjar) er u.þ.b. 1800 km norðan Nýja-Sjálands
og 100 eyjar hans eru byggðar. Heildarflatarmál
hans er 18.333 km² og höfuðborgin er Suva.
Stærstu eyjarnar eru Viti Levu og Vanua Levu, sem ná saman yfir
rúmlega 85% af flatarmálinu. Aðrar mikilvægar Eyjar eru Taveuni, Kadavu og Koro.
Þessar eyjar, smærri eyjar Yasawa-klasans í vestri og
Lau-klasinn í austri auk fjölda kóralrifja, liggja umhverfis Korohaf.
Roturma-eyjan er í horðvesturhlutanum.
Stærstu eyjarnar urðu til í eldgosum og eru fjöllóttar.
Hæsti tindurinn er Tomaniivi (1323m) á Viti Levu og fjöldi
vatnsfalla hafa grópazt í landslagið.
Frjósamur setjarðvegur er í árósum.
Minni eyjarnar og hólmar eru úr kóral og kalksteini.
Hitabeltisloftslag ríkir en suðaustan staðvindarnir tempra það.
Meðalárshitinn er 25°C og úrkoman 2540 mm. Helztu náttúruauðlindirnar eru þéttur regnskógur með
mjúk- og harðviði og gull og magnesíum í jörðu.
Íbúafjöldi
Fijieyja 1996 var tæplega 800 þúsund (40 á km²). Meðallífslíkur karla eru 63 ár og kvenna 68 ár.
Árið 1991 voru Fijimenn 49% íbúanna og Indverjar 46%.
Fyrir byltinguna 1987 voru Indverjar, afkomendur verkamanna á
sykurekrunum, í meirihluta (49%) en margir þeirra fluttust brott í kjölfarið.
Höfuðborgin og aðalhafnarborgin Suva (72 þúsund 1986) er
einnig aðalverzlunarmiðstöð landsins.
Hún er á suðausturströnd Viti Levu.
Aðrar borgir eru Luatoka, Lami og Nadi.
Stærstu trúarhóparnir eru kristnir (53%), meþódistar og rómversk-katólskir.
Hindúar eru 38% og 8% eru múslimar.
Smáhópar aðhyllast síkatrú og kenningar Konfúsíusar.
Helztu tungumálin eru fijimál (malæ-pólýnesískt mál)
hindi og enska, sem er opinbert mál.
Suður-Kyrrahafsháskólinn var stofnaður í Suva 1968.
Læsi er 91%.
Efnahagslífið.
Verg þjóðarframleiðsla Fijieyja 1994 var skv. áætlun Alþjóðabankans
US$ 1785 miljónir (2.185.- á mann).
Þjóðin er meðal hinna efnahagslega þróuðustu eyríkja í
Kyrrahafi, þótt margir stundi enn þá sjálfsþurftarbúskap.
Talsvert er flutt út af sykri og ferðaþjónusta er ofarlega á
blaði. Iðnaðurinn
stendur undir 17% af vergri þjóðarframleiðslu og sykruframleiðslan
er þriðjungur hans.
Efnahagslífið
byggist aðallega á landbúnaði.
Aðaluppskerurnar eru sykur, kókoshnetur, engifer, hrísgrjón,
kakó, kaffi, maís, bananar, kartöflur, kava, taro, baunir, grasker,
ananas og tóbak. Árið
1992 var fjöldi nautgripa 160.000, Geita 124.000 og svína 15.000.
Iðnaðurinn
byggist á vinnslu timburs og sjávarfangs.
Skattaívilnanir hafa stuðlað að uppbyggingu fataverskmiðja
á síðari árum. Talsvert
gull er í jörðu (heildarframl. 1991 var rúmlega 2700 kg).
Handverksiðnaður er velþróaður (mottur, körfur, fiskinet og
leirkeragerð). Fijibúar
eru snilldarsmiðir (bátar), bændur og fiskimenn.
Árið
1995 var heildarverðmæti útflutnings US$ 571 miljón og
innflutningsverðmæti US$ 865 miljónir.
Aðalútflutningsvörur eru sykur, gull, fiskafurðir, timbur,
fatnaður og kókosolía. Bretland,
Ástralía, Nýja-Sjáland og Japan eru aðalviðskiptalöndin.
Ferðaþjónustan er mjög mikilvæg tekjulind og er í öðru sæti
eftir sykurútflutningnum. Árið
1995 námu fjárlögin tekjumegin US$ 495 miljónum og US$ 591 miljón
í gjöld. Gjaldmiðill
landsins er Fiji-dollar (100 sent).
Þjóðvegakerfið
er 4820 km langt og járnbrautakerfið 595 km.
Millilandaflugvöllurinn er í Nadi í vesturhluta Viti Levu.
Sjónvarpsstöðvar eru engar á Fijieyjum.
Tvö dagblöð og tvö vikublöð eru gefin út.
Heraflinn telur í kringum 4000 manns.
Stjónsýsla.
Þingbundin stjórn var við lýði fram að byltingunni 1987 og
landstjóri stjórnaði fyrir hönd Breta en framkvæmdavaldið var í
rauninni í höndum forsætisráðherra og stjórn hans.
Eftir að herinn gerði uppreisn 1987 var samin bráðabirgðastjórnarskrá,
sem fól forseta landsins framkvæmdavaldið og þinginu löggjafarvaldið.
Stjórnarskráin
frá 1990 var samin með það í huga, að melanesískir Fijibúar færu
með stjórn landsins. Samkvæmt
henni er landið forsetalýðveldi með þjóðþingi, sem skiptist í
öldungadeild (34), þar sem a.m.k. 24 þingmanna skulu vera melanesískir
Fíjibúar, 9 af öðrum þjóðernum og 1 fulltrúi fyrir Rotuma-eyju.
Í fulltrúadeildinni sitja 37 Fijibúar, 27 Indverjar, 5 af öðrum
þjóðernum og 1 frá Rotuma-eyju.
Sagan.
Melanesar hafa búið á Fijieyjum í rúmlega 3000 ár.
Hollenski sæfarinn Abel Janszoon Tasman kom auga á eyjarnar árið
1643 og þar með hófst sambandið við Evrópu.
Brezki sæfarinn James Cook, skipstjóri, kannaði Skjaldbökueyju,
syðst í í eyjaklasanum árið 1774.
Bandarískur leiðangur gerði fyrstu heildarlandmælingar
eyjanna 1840.
Frá
fyrstu árum 19. aldar fram að stofnun brezkrar krúnunýlendu 1874
settist fjöldi erlendra kaupnanna, landræktenda og trúboða að á
eyjunum og í kjölfarið ríkti hálfgerð borgarastyrjöld.
Árið 1874 leitaði konungur Fijieyja, Cakobau, til Breta til að
koma á friði og þeir féllust á að miðla málum.
Frá 1879 til 1916 fluttist fjöldi verkamanna frá Indlandi til
Fijieyja til að vinna á sykurekrunum.
Árið 1881 bættist Rotuma-eyja við nýlenduna.
Í síðari heimsstyrjöldinni voru mikilvægar birgðastöðvar
bandamanna á eyjunum og fjöldi hernaðarmannvirkja var byggður.
Fijibúar þjónuðu einnig í brezka hernum á stríðsárunum,
bæði heima og heiman.
Sjálfstæði.
Fijieyjar urðu sjálfstætt lýðveldi 10. október 1970 og hinn
13. október urðu þær aðili að Sameinuðu þjóðunum.
Fyrsti forsætisráðherra sjálfstæðra Fijieyja varð Ratu Sir
Kamisese Mara, erfðahöfðingi Lau-eyja og stofnandi
Samsteypuflokksins. Hann og
flokkur hans héldu völdum til 1987.
Bylting
hersins 1987.
Í maí 1987 gerði herinn uppreisn og innfæddir Fijibúar réðust
gegn fólki af indverskum uppruna.
Ríkisstjórnin fell og stjórnarkreppa ríkti.
Önnur bylting, sem Sitiveni Rabuka, liðsforingi, stóð fyrir
í september sama ár kom í veg fyrir að þingið kæmi saman.
Í desember skipaði Rabuka Ratu Sir Penaia Ganilau, fyrrum
landshöfðingja, forseta lýðræðislegrar stjórnar.
Landstjóri eyjanna sagði af sér og Fijieyjar sögðu sig úr
Brezka samveldinu.
Árið
1992 varð Rabuka forsætisráðherra, þegar flokkur hans sigraði í
kosningum og hann var endurkosin til fimm ára 1994.
Þegar Ganilau dó í desember 1993, var Ratu Sir Kamisese Mara
kosinn forseti í foringjaráðinu, sem setið er foringjum ættkvísla
Fijieyja.
Fiji
fékk aukna hernaðaraðstoð frá Frökkum 1990.
Samskipti Fijieyja og Frakka versnaði til muna vegna áframhaldandi
tilrauna Frakka með kjarnorkusprengjur í Kyrrahafi 1995.
SUVA,
stærsta borg Fijieyja og jafnframt höfuðborgin, er í Rewahéraði á
suðausturströnd Viti Levu-eyjar, nánar tiltekið á Suva-skaga nærri
ósum Rewa-árinnar. Hún
er aðalhafnarborg Fijiheyja og aðalviðskiptamiðstöð.
Ferðaþjónusta er mikilvæg tekjulind.
Meðal þess, sem er framleitt í borginni eru sígarettur, sápa,
vefnaðarvörur, matvæli og drykkjarvörur.
Suður-Kyrrahafsháskólinn var stofnaður 1968, Læknaskóli
Fijieyja (1886), Þjóðskjalasafnið (1954) og Fiji-safnið (1906), sem
hýsir minjar frá Kyrrahafseyjum.
Stofnað var til byggðar í Suva árið 1849 og hún óx og varð
að millihöfn fyrir kaupskip á leið um Kyrrahafið.
Árið 1882 varð Suva höfuðborg Fijieyja og í síðari
heimsstyrjöldinni var hún stöð bandamanna.
Áætlaður íbúafjöldi árið 1986 var 72.000.
ROTUMA.
Rotuma
er eldfjallaeyja og ein Fijieyjanna í Suður-Kyrrahafi.
Hún er fjöllótt og þakin pálmum og öðrum gróðri.
Flatarmál hennar er 47 km² og veðurlagið er votviðrasamt. Helzta framleiðsla eyjaskeggja er kókoshnetukjarnar.
Höfuðborgin er Ahau en Motusa er aðalborgin og hafnarborg.
Íbúafjöldi eyjarinnar árið 1986 var í kringum 2700.
Árið 1791 kom brezkur skipstjóri til eyjarinnar og 1881 gerðu
Bretar hana að nýlendu. Hún
fell til Fijieyja, þegar þær fengu sjálfstæði árið 1970. |