Cookeyjar
í Suður-Kyrrahafi
hafa heimastjórn en heyra undir Nýja-Sjáland.
Þessar 15 smáeyjar eru 236 km² að flatarmáli en ná yfir tæplega
2 miljóna ferkílómetra hafsvæði.
Höfuðborgin Avarua er á eyjunni Rarotonga.
Hver eyja er tindur eins eða fleiri eldfjalla en aðeins á stærri
eyjunum bera háir gígtappar útbrunninna eldfjalla við himin í allt
að 632 m hæð yfir sjó. Rarotonga
er hæst eyjanna og aðeins sex km breiðl.
Flestar hinna eyjanna í suðurhluta klasans (Atiu, Mangaia,
Mitiaro og Aitutaki) eru umluktar kóralhringeyjum eða kóralrifjum.
Í norðurhlutanum (Penrhyn, Manihiki, Rakahanga og Nassau) eru kóralhringeyjar,
lágir og mjóir sandhryggir á hringlaga rifjum umhverfis sjávarlón,
sem iða af lífi. Flestar
eyjarnar eru svo litlar, að þar eru engar ár eða lækir.
Á eyjunum Mangaia, Atiu og Mitiaro eru smástöðuvötn. Úrkoman, sem fellur á kóralhringeyjarnar safnast í linsulöguð
lög undir yfirborði þeirra ofan á sjónum, sem er þyngri. Eyjaskeggjar verða að reiða sig á
brunna og regnvatnsgeyma til að hafa nægilegt drykkjarvatn.
Jarðvegurinn
á hinum lágu kóralhringeyjum er mjög grunnur og gæðarýr. Mestur hluti Rarotonga er erfiður yfirferðar og fjöllóttur
með þröngum dölum, þar sem er frjósamur jarðvegur.
Milli fjallanna og Strandar eru kóralrif, sem hafa þrýstst upp
á við (makatea), með rýrari jarðvegi.
Hinar hærri eyjarnar eru uppblásnar upp í miðjar hlíðar með
frjósamari jarðvegi milli fjallsrótanna og makatea-svæðanna.
Jarðvegseyðing og uppblástur hafa aukizt mjög eftir að ræktun
ananas og annarra útflutningsplantna hófst vegna þess að jarðvegurinn
er of viðkvæmur.
Loftslagið.
Allar eyjarnar eru í hitabeltinu og hinar syðstu við jaðar þess.
Þarna ríkja suðaustan staðvindar og hitastigið er yfirleitt
bærilegt. Meðalárshitinn
á suðureyjunni Rarotonga er 24°C en á norðureyjunum 28°C og árstíðamunur
er lítill. Þótt nöfn árstíðanna
séu notuð á eyjunum, hallast eyjaskeggjar fremur að viðmiðunum
eins og staðvindunum, regntíma og hitastigi.
Úrkoman er mismunandi mikil milli ára en samt nokkuð jöfn á
öllu svæðinu. Meðalársúrkoman
er 2000 m á Rarotonga, þótt talsverður munur sé milli hlé- og áveðurshluta
eyjarinnar. Úrkoman er lítið
eitt minni á Aitutaki og meiri á Penrhyn.
Fellibylja má vænta milli desember og marz einu sinni til
tvisvar á hverjum áratugi. Þurrkar
valda ekki minni skaða og norðureyjarnar verða oftar fyrir þeim en
hinar syðri.
Flóra
og fána.
Takmarkaður fjöldi plöntutegunda þrífst í norðurhlutanum,
þar sem mest ber á kókospálmum og pandanus.
Á frjósömum svæðum suðureyjanna vaxa margar tegundir ávaxta
og grænmetis. Náttúrulegar
tegundir eru m.a. taro, kartöflur (yams), bananar, brauðaldin og sætar
kartöflur. Tegundir, sem
voru fluttar til eyjanna, sumpart til útflutningsframleiðslu, eru aðallega
sítrusávaxtatré, tómatar, ananas, papæja, baunir og súkkiní.
Upprunalegu landnámsmenn eyjanna
fluttu með sér svín, hunda, hænsni og litla rottutegund.
Þessi dýr eru enn þá uppistaða dýrategundanna á eyjunum en
við bættust geitur, hestar og fáein önnur dýr.
Nokkrar fuglategundir urðu útdauða á 19. öld eftir að Evrópumenn
fluttu ketti til eyjanna. Kakirori-fuglinn
og Rarotonga-flugnaveiðarinn, lítill og fallegur fugl, sem á hvergi
annars staðar heima en á Rarotonga, voru í útrýmingarhættu upp úr
1990 og eru nú meðal verndaðra tegunda.
Íbúarnir.
Flestir eyjaskeggjar búa í þorpum.
Hið stærsta er Avarua á Rarotonga.
Margir búa engu að síður á búum sínum (einkum á Rarotonga).
Gamla húsagerðin, timburhús með stráþökum, sést tæpast
lengur. Nú er byggt úr
steinsteypu, timbri og járni.
Langflestir íbúar eyjanna eru af blönduðu, pólýnesísku
bergi brotnir en á afskekktu eyjunni Pukapuka eru þeir að mestu frá
Samóa og Tonga. Á 19. öld
voru hjónabönd innfæddra og Evrópumanna, kínverja og Afríkumanna
algeng. Rúmlega 90%
eyjaskegga aðhyllast Kristkirkju Cookeyja.
Tvö pólýnesísk tungumál eru mestráðandi, annað á
Pukapuka og hitt, með mállýzkum, á hinum eyjunum.
Flestir íbúarnir tala ensku og læsi er u.þ.b. 90%.
Íbúafjöldinn
er nokkuð stöðugur (17.000) og svo hefur verið lengi. Náttúruleg fjölgun er mikil en fjöldi folks flytur stöðugt
til Nýja-Sjálands og Ástralíu, þannig að a.m.k. tvöfalt fleiri
Cookeyjabúar eru á Nýja-Sjálandi en á eyjunum sjálfum.
Flestir íbúanna, sem eru ekki innfæddir, eru af evrópskum
uppruna frá Nýja-Sjálandi. Talsverðir
fólksflutningar eru frá minni eyjunum til Rarotonga, sem er fjölbýlasta
eyjan og býður oftast næga atvinnu.
Efnahagurinn
byggist ferðamönnum, aðallega frá Nýja-Sjálandi, Ástralíu,
Kanada, BNA og Evrópu, og fjármálastarfsemi.
Cookeyjar eru mikil skattaparadís.
Stjórn landsins leikur stórt hlutverk í efnahagslífinu og er
stærsti vinnuveitandinn, einkum í þjónustugeiranum.
Framleiðslan og viðskipti eru að mestu einkarekin.
Skattar eru lágir og hvatt er til erlendrar fjárfestingar.
Erlend fjárhagsaðstoð, aðallega frá Nýja-Sjálandi, vegur
þungt í efnahagslífinu. Bankakerfið
nær yfir tvo ástralska banka, nýsjálenzkan verzlunarbanka, ríkisrekinn
þróunarbanka og fjölda útibúa erlendra banka með alþjóðlega fjármálastarfsemi.
Engin jarðefni eru unnin
á eyjunum, þótt talsvert sé af fosfati á botni lóns Manihiki og
miklar birgðir magnesíums, kóbalts og annarra málma á sjávarbotni
úti fyrir Manihiki. Landbúnaðurinn
byggist aðallega á smábændum, sem stunda margir sjálfsþurftarbúskap
og aðrir senda afurðir sínar ferskar með flugi til Nýja-Sjálands
utan ræktunartíma þar. Fiskiskip
frá Tævan, sem gera út frá Bandarísku Samóaeyjum, veiða við
eyjarnar en eyjaskeggar róa líka til fiskjar til eigin þarfa.
Perluskeljarækt stefnir í að verða veigameiri atvinnuvegur en
allur landbúnaðurinn, fiskveiðarnar og iðnaðurinn á eyjunum
samanlagt.
Léttur
iðnaður á eyjunum byggist á fata-, skó- og matvælaframleiðslu, aðallega
til útflutnings til Nýja-Sjálands.
Mestur hluti innflutningsins kemur frá Nýja-Sjálandi, Japan og
BNA. Innflutt eldsneyti er
notað til raforkuframleiðslu. Einnig
er nokkuð um nýtingu solar- og vindorku til slíks.
Hver eyja hefur sitt vegakerfi og vegur með
bundnu slitlagi liggur umhverfis Rarotonga.
Litlar flugvélar annast eyjahopp milli stærri eyjanna en
skipakomur eru óreglulegar. Beint
flug er til Nýja-Sjálands, Ástralíu, Hawaii, Tahiti, Fijieyja og Samóa
frá millilandaflugvellinum á Rarotonga.
Skipaferðir eru aðallega til Nýja-Sjálands og BNA.
Stjórnsýsla
og félagsmál. Cookeyjar eru
lýðræðisríki með heimastjórn og almennum kosningum á fimm ára
fresti. Stærstu stjórnmálaflokkarinir
eru Cookeyjaflokkurinn og Lýðræðisflokkurinn.
Stjórnarskráin er frá árinu 1965 og henni hefur verið breytt
nokkrum sinnum síðan. Þótt
kosið sé til sveitarstjórna og þings, eru höfðingjar af Arikiætt
hafðir með í ráðu, þegar málin snúast um eignarhald á landi,
hefðir og þ.h.
Menntun er almenn og skólaskylda
frá 5-16 ára aldurs. Nokkrir
kirkjulegir skólar starfa samhliða hinum opinberu.
Æðri menntun býðst í kennaraháskólanum og hjúkrunarskólanum
og í Suður-Kyrrahafsháskólanum í Avarua.
Margir stunda nám erlendis og fá styrki til þess frá ríkinu
og einkaaðilum. Heilbrigðisþjónusta
er frí og veitt í sjúkrahúsum og heilsugæzlustöðvum ríkisins á
hverri eyju. Tannlæknaþjónusta
er einnig frí fyrir skólabörn. Ormaveiti
(filariasis) er algeng og siðmenningarsjúkdómar eins og sykursýki,
hjartasjúkdómar, skorpulifur o.þ.h. eru orðnir algengari en þeir
voru. Umferðarslys eru
algeng og mikið vandamál.
Menning
landsmanna er lík víðast á eynunum en hún er talsvert frábrugðin
á Pukapuka-eyju, þar sem íbúarnir eru af öðru sauðahúsi.
Ríkið leikur stórt hlutverk í menningarlífinu, einkum í hátíðahaldi,
sem hefur borið hróður eyjanna víða.
Í Avarua eru lítið bókasafn og leikhús, sem bjóða ýmislega
menningarviðburði. Lífsmunstur
íbúanna verður fyrir æ meiri vestrænum áhrifum vegna fjölda ferðamanna
og samneytis við iðnvædd lönd nær og fjær. Engu að síður eru gamlar hefðir og siðir í heiðri hafðir,
s.s. að halda upp á fyrsta hárskurð uppáhaldssonarins í fjölskyldunni.
Matreiðslan dregur dám af siðum í Evrópu, Kína, Fijieyjum
og Tahiti. Helgihald miðast
að mestu við gamla Viktoríutímann í Englandi en bandarískir siðir
evangelista vinna á. Aðalhátíðisdagur
landsins er Stjórnarskrárdagurinn, sem gefur oftast tilefni til 10
daga hátíðahalda. Tiare-hátíðir
(gardenía) með dansi og söng eru oft haldnar.
Ríkið rekur útvarpsstöð, sem nær til allra eyjanna og sjónvarpsstöð,
sem nær til Rarotonga og Aitutaki, og þar að auki er einkarekin FM-stöð
í rekstri. Eina dagblað
eyjanna var einkavætt 1989.
Sagan.
Pólýnesar frá svæðinu, sem heitir nú Franska-Pólýnesía,
voru einu íbúar eyjanna fram á 19. öld.
Flestar eyjarnar voru sjálfstæðar og á stærri eyjunum voru
nokkrar ættkvíslir, sem voru í harðri samkeppni.
Spænskir landkönnuðir heimsóttu nokkrar eyjanna í norðurhlutanum
síðla á 15. öld og snemma á hinni 16. en settust ekki að.
James Cook, skipstjóri, var fyrsti Evrópumaðurinn til að
heimsækja flestar eyjanna í suðurhlutanum á árunum 1773, 1774 og
1777. Trúboðar frá
Englandi og Tahiti á vegum Trúboðsfélagsins í London komu fyrst til
eyjanna 1821 og voru fyrstir útlendinga til að setjast að.
Þeir stofnuðu guðfræðiskóla á Rarotonga og höfðu mikil
áhrif á þróun stjórnar hverrar einstakrar eyjar næstu hálfu öldina. Óttinn við að Frakkar kæmu og legðu eyjarnar undir sig líkt
og á Tahiti og öðrum Félagseyjum leiddi til þess, að nokkrir höfðingja
eyjanna sendu bænarskjal til brezku krúnunnar um að gera eyjarnar að
verndarsvæði, sem varð raunin árið 1901.
Eftir 1912 var ekkert þing á eyjunum til ársins 1946, þegar
þingið var skipulagt á ný. Árið
1957 voru völd þess aukin og það var kallað löggjafarþing.
Árið 1965 fengu Cookeyjar fullveldi í sambandi við Nýja-Sjáland,
sem sér um varnir eyjanna í samráði við forsætisráðherra þeirra. |