Chuuk-eyjar,
áður Truk-eyjar, er klasi eyja í Austur-Karólínuklasanum í
Vestur-Kyrrahafi. Þær eru
u.þ.b. 50 talsins og allar eldfjallaeyjar með hringkóralrifjum, sem ná
yfir svæði með 65 km þvermáli.
Chuuk-eyjar eru hluti af Bandaríkjum Míkrónesíu.
Aðalstjórnsýslumiðstöð Chuuk-eyja og aðaleyjan er Moen.
Áætlaður íbúafjöldi árið 1990 var 45.000.
Sjálfsþurftarbúskapur
og fiskveiðar eru helztu atvinnuvegir landsmanna.
Þeir rækta mest af brauðaldinum, taro, kókoshnetum og banönum.
Víða á hærri eyjunum eru ræktaðar stórar kartöflur
(yams), kassava og sætar kartöflur.
Þá eru einnig ræktuð hænsni, svín og hundar til
matar.
Aðaltekjur landsins eru byggðar á styrk frá BNA, sem
jafngildir u.þ.b. 70% af vergri þjóðarframleiðslu.
Ríkið er stærsti launagreiðandi landsins.
Útflutningurinn, sem stendur undir tæplega 5% af vergri þjóðarframleiðslu,
byggist aðallega á kópra, fiskafurðum, svörtum pipar og handverki.
Ríkið hefur tekjur af sölu veiðikvóta í landhelgi eyjanna
og ferðaþjónustan vex hægum skrefum. |