Ríkið.
Vels
er stjórnað sem hluta af Englandi.
Innanríkisráðherra Vels er ábyrgur fyrir sérmálum þessa
landshluta. Takmörkuð
heimastjórn var viðurkennd árið 1974, þegar átta ný héruð voru
skipulögð og stofnuð í stað hinna eldri.
Nýju héruðin eru Clywd, Dyfed, Gwent, Gwynedd, Mid Glamorgan,
Powys, South Glamorgan og West Glamorgan.
Héruðunum var skipt í 37 svæði, sem síðan skiptast í
sveitarfélög. Stjórnsýslan
er í höndum ráða, sem eru kosin í almennum kosningum. Samkvæmt stjórnsýslulögum Vels frá 1994 fór fram
frekari endurskipulagning stjórnsýslunnar í landinu.
Eftir 1966 tóku 22 sveitarstjórnir við af 8 héraðsstjórnum
og 37 sveitarstjórnum. Kosningar
til þessara 22 sveitarstjórna fóru fram í maí 1995.
Menntamál.
Skóla-
og fræðslukerfi Vels er hið sama og í Englandi að frátaldri
kennslu í velsku. Árið
1970 voru lögð drög að velskukennslunni og enskan varð önnur í röðinni. Í skólum, sem byggðu áfram á ensku sem aðalmáli, var
tekin upp kennsla í velsku fyrir aldurshópana 14-16 ára 1999.
Meðal
æðstu menntastofnana er Velsháskóli (1893).
Hann nær yfir háskólann í Aberystwyth, Norður-Velsháskólann
í Bangor, háskólann í Cardiff, St. David’s háskólann í Lampeter,
háskólann í Swansea, læknaháskólann í Cardiff og vísinda- og tækniháskólann
í Cardiff. Snemma á tíunda
áratugnum voru u.þ.b. 29.500 stúdendar við nám í háskólum
landsins. Árið 1992 varð
vísinda- og tækniháskólinn í Pontypridd annar háskóli landsins
sem Glamorganháskóli með 7270 stúdenta.
Auk þessara háskóla eru sjö aðrar æðri menntastofnanir með
u.þ.b. 13.000 stúdenta.
Efnahagslífið.
Efnahagslíf
landsins hefur breytzt í grundvallaratriðum á síðastliðnum áratugum.
Kolanám og hefðbundinn þungaiðnaður, s.s. skipasmíðar, sem
voru uppistöðuatvinnuvegur allt frá 19. öld, hafa næstum orðið að
engu. Þjónustugreinar,
s.s. ferða- og fjármálaþjónusta, hafa haslað sér völl og nýr iðnaður
tekið við. Landshlutar,
sem hafa orðið verst úti vegna þessarar þróunar, hafa notið ríkisstyrkja
til uppbyggingar. Umbætur
í samgöngukerfi landsins hafa leitt til fjölgunar atvinnutækifæra
og auðveldað aðgang að erlendu fjármagni, einkum frá japönskum fjárfestum.
Þrátt fyrir verulegar framfarir og stöðuga fjölgun atvinnutækifæra,
er atvinnuleysi meira í Vels en annars staðar á Bretlandseyjum,
einkum á fyrrum námusvæðum, þar sem flest ný störf hafa fallið
konum í skaut.
Landbúnaður
og skógnýting.
Nærri
80% lands í Vels eru nýtt til landbúnaðar.
Í uppsveitum er aðallega stunduð búfjárrækt, sauðfé og
nautgripir og mjólkurframleiðsla í lágsveitum.
Ræktun beinist aðallega að fóðri fyrir búsmalann og kartöflum.
Grænmetis-, svína- og hænsnarækt er vaxandi. Vegna aukinnar áherzlu á skógrækt, eru u.þ.b. 12% lands
nú skógi vaxin. Víðast
eru fljótvaxnar nytjategundir trjáa gróðursettar og sífellt fleiri
fá atvinnu við skógrækt og nýtingu skóga í Mið-, Vestur- og Norður-Vels.
Námur
og orkumál.
Kolanám
í Suður-Vels um aldamótin 1900 byggðist aðallega á stáliðnaðnum,
sem hafði þróast í norðausturhlutanum frá lokum 18. aldar. Bættar samgöngur með skipaskurðum og járnbrautum ollu síauknum
útflutningi kola. Eftir
1840 var kolanámið orðið mikilvægari atvinnugrein en stáliðnaðurinn
og var aðalundirstaða efnahagslífs landsins næstu öldina.
Fyrstu merki hnignunar þessa atvinnuvegar komu í ljós í
heimskreppunni á fjórða áratugi 20. aldar, en síðari heimsstyrjöldin
lífgaði hann um stundar sakir. Eftir
1945 dró úr eftirspurn og óhagstæð lega velsku kolanámanna auk
aukinnar samkeppni gerði það að verkum, að 115 námum var lokað á
árunum 1947-66. Snemma á
tíunda áratugnum voru aðeins 5 námur í rekstri.
Árið 1993 leigði ríkið einkafyrirtæki antrasítnámurnar í
Betws-y-Coed. Í janúar
1995 voru síðustu námurnar einkavæddar.
Flögu- eða hellugrjót er enn þá unnið í Gwynedd.
Granítnám er enn þá stundað og lítil gullnáma er í
rekstri í miðhluta landsins.
Vels
er auðugt af vatni. Manngerð
lón eru víða í mið- og norðvesturhlutum landsins og orkuver voru
reist við sum þeirra. Mestur
hluti vatnsins er samt notaður til vatnsveitna í borgum Ensku miðlandanna. Vatnsorkuverið í Llanberis, Gwynedd, sem er hið stærsta
sinnar tegundar í Vestur-Evrópu, var byggt inni í fjallinu. Á Anglesey- og Gwynedd-ströndunum eru líka kjarnorkuver.
Iðnaður.
Upphaf
iðnaðar má rekja til 18. aldar, þegar vinnsla tins og kopars frá
Cornwall hófst. Mestur
skriður komst á iðnvæðinguna, þegar járnnámurnar í Suður-Vels
voru uppgötvaðar og stáliðnaðurinn tengdur þeim byggðist upp
eftir 1770. Þá varð þessi landshluti mesta iðnaðarsvæði
Bretlandseyja og jafnvel alls heimsins um tíma.
Upphaf stáliðnaðarins og nýting náma hófst í raun og veru
í norðausturhlutanum. Í
kringum 1820 var hann mestur á jaðarsvæðum kolanámanna í suðurhlutanum
og þar voru framleidd u.þ.b. 40% hrájárns á Bretlandseyjum.
Eftir 1840 var Dowlais stálverið í grennd við Merthyr Tydfil,
með rúmlega 5000 verkamenn, hið stærsta sinnar tegundar í heiminum.
Bærinn Merthyr þróaðist úr þorpi í stærstu borg Vels með
46.000 íbúa. Kolanámið
varð efnahagslega mikilvægara en járnvinnslan, sem hélt samt sem
áður velli sem mikilvæg atvinnugrein fram yfir 1950.
Síðan hefur dregið úr mikilvægi stáliðjunnar en Vels
framleiðir enn þá u.þ.b. þriðjung þess stáls, sem framleitt er
á Bretlandseyjum. Helztu
verksmiðjurnar eru í Llanwern í grennd við Newport og við Port
Talbot.
Fjöldi
nýrra iðnfyrirtækja spratt upp eftir 1950, einkum á síðustu
tveimur áratugum 20. aldar, þegar mörg hátæknifyrirtæki komu sér
fyrir í Vels. Mörg þessara
nýju fyrirtækja eru fjarri hefðbundnum iðnaðarsvæðum og hafa
skapað atvinnu í sveitum Mið- og Norður-Vels.
Landið er orðið að mikilvægri miðstöð fyrirtækja á svið
elektrónísks iðnaðar, upplýsingatækni, framleiðslu varahluta,
efnaiðnaðar og framleiðslu plasts og gerviefna.
Milford Haven er í fararbroddi sem hafnarborg á Bretlandseyjum,
einkum í tengslum við olíuinnflutning og hreinsun. |