St Helena England,
[Flag of the United Kingdom]


St HELENA
ENGLAND

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Saint Helena er brezk nýlenda í Suður-Atlantshafi, 1950 km vestan suðvesturstrandar Afríku.  Flatarmál eyjarinnar er u.þ.b. 122 km², mesta lengd frá suðvestri til norðausturs er 17 km og mesta breidd 10 km.  Höfuðborgin og aðalhöfn hennar er Jamestown.  Eyjan Ascension og eyjaklasinn Tristan da Cunha lúta stjórn landstjórans á Saint Helenu.

Sagan
  Spænski sæfarinn Joao da Nova Castella, sem eyjaskeggjar kalla John Newcastle og var í þjónustu portúgölsku krúnunnar, fann eyjuna 21. maí 1502.  Þessi dagur er hátíðisdagur heilagrar Helenu, móður Konstantíns keisara, samkvæmt siðum rétttrúnaðarkirkjunnar.  Tilvist eyjarinnar var ókunn öðrum en Portúgölum til ársins 1588, þegar enski sæfarinn Thomas Cavendish kom þar við eftir heimssiglingu sína. 

Eyjar varð síðan viðkomustaður skipa á leiðinni milli Evrópu og Austur-Indía.  Hollendingar réðu eyjunni líklega á árunum 1645-51 en Brezka Austurindíafélagið tók þar öll völd árið 1659.  Eftir stutt hernám Hollendinga árið 1673 var eignarhald Austurindíafélagsins staðfest.  Þá var u.þ.b. helmingur íbúa eyjarinnar innfluttir þrælar en á áratugnum 1826-36 var þrælahald afnumið.  Evrópsk stjórnvöld voru í vandræðum með Napóleon eftir ósigur hans við Waterloo árið 1815 og þótti Saint Helena nógu afskekkt til að halda honum í skefjum.  Þar var hann í stofufangelsi frá október 1815 til dauðadags í maí 1821.

Á þessu tímabili var eyjan sett undir stjórn brezku krúnunnar og Austurindíafélagið réði lögum og lofum til 1834.  Þá tók brezka krúnan við stjórninni aftur.  Íbúarnir undu hag sínum tiltölulega vel fram undir 1870, þegar gufuskip tóku við af seglskipum og Súezskurðurinn var opnaður (1869), þannig að leiðir skipa breyttust.  Snemma á sjöunda áratugi 20. aldar var byggð fjarskipta- og samgöngumiðstöð á eyjunni Ascension og margir íbúar Saint Helenu fengu vinnu við uppbygginguna.  Saint Helena fékk aukna sjálfstjórn 1967.  Þá voru sett á fót löggjafar- og framkvæmdaráð.  Eyjan fékk síðan stjórnarskrá árið 1988 og hún tók gildi árið eftir.


Landið
  Eyjan byggðist upp í eldgosum á Atlantshafshryggnum en eldvirknin er útdauð.  Þverhnípt björg skaga 490-700 m úr sjó á vestur-, norður- og austurströndum hennar og allt að 820 m há fjöll mynda hálfhring norðan Sandy Bay.  Sunnan fjallanna eru vatnsgrafin gljúfur og gil, sem breiða úr sér í mjóa dali, þegar nær dregur sjó.  Víða er að finna uppsprettur og lindir.  Mikið ber á eldfjallaösku og kynjamyndum í landslaginu.  Eina höfnin á eyjunni er í James Bay á eyjunni norðvestanverðri.  Þar er Jamestown í löngum og mjóum dal, sem teygist 2,4 km inn í hálendið.

Staðvindar Suður-Atlantshafsins valda tempruðu og hollu loftslagi með hlýjum sumrum og lítið eitt kaldari vetrum.  Meðalúrkoma ársins er 200 mm við sjávarsíðuna og í kringum 760 mm á miðri eyjunni.  Gróðri má skipta í þrjú svæði:  Á grýttri og snauðri strandlengjunni vex kaktus á 1,6 km breiðu belti.  Þá tekur við 0,4-1,6 km breitt miðbelti með grasi- og runnavöxnum hæðum auk víðis, aspar og furu.  Á eyjunni miðri (5x3 km) er fjölbreyttari gróðaur með eik, sedrusviði, eucalyptus, bambus og bananaplöntum.


Íbúarnir eru aðallega af evrópsku bergi brotnir (brezkir) en líka frá Asíulöndum og Afríku.  Enska er eina tungan, sem er töluð og meirihlutinn er fylgjandi biskupakirkjunni.  Fjórðungur íbúanna býr í Jamestown.

Efnahagsmálin
  Tæplega þriðjungur lands er fallinn til landbúnaðar eða skógræktar.  Aðaluppskeran er maís, kartöflur og grænmeti.  Kvikfjárræktin byggist á sauðfé, geitum, svínum og nautgripum.  Námagröftur er enginn og iðnaður lítill.  Trjáviður er að mestu innfluttur, þótt lítið eitt sé notað af innlendu efni.  Uppistaðan í fiskveiðunum er túnfiskur, sem er annaðhvort frystur eða þurrkaður og saltaður til útflutnings.  Bretland leggur íbúunum til u.þ.b. tvo þriðjunga fjárlaganna með styrkjum.  Aðrar tekjur myndast við sölu frímerkja, tolla og hafnargjöld.

Stjórnsýsla  Landstjórinn er forseti löggjafarsamkomunnar, sem stjórnar eyjunni.  Forseti þingsins, aðalritarinn. Fjármálaráðherrann og 12 kjörnir þingmenn annast löggjöfina.  Framkvæmdavaldið er í höndum sömu aðila, en þingmennirnir eru aðeins fimm.  Þeir eru formenn nefndi og ráða, sem annast m.a. stjórn fjarlægra yfirráðasvæða.  Skólaskyldan hefst við fimm ára aldur og endar við 15 ára aldur.  Íbúafjöldi eyjarinnar árið 1987 var 5644.

Jamestown er aðalhöfn og höfuðborg eyjarinnar.  Hún var stofnuð árið 1659, þegar brezka Austurindíafélagið byggði virki og stofnaði varnarlið á bæjarstæðinu.  Virkið var nefnt eftir hertoganum af Jórvík, síðar James II.  Bærinn er aðallega byggður við eina götu, u.þ.b. 1,7 km langa, í þröngu og stuttu dalverpinu, þar sem hún nær allt að 150 m hæð yfir sjó.  Aðaltekjulindir bæjarins eru tollar, hafnargjöld og frímerkjasala til safnara.  Bústaður landstjórans, Plantation House, og dómkirkja Hl. Páls eru 3 km sunnan bæjarins.  Longwood, bústaður Napóleons, sem Frakkar eiga og ráða, er 4 km suðvestan hans.  Árið 1987 var Íbúafjöldinn 1332.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM