El Salvador náttúran,
Flag of El Salvador


EL SALVADOR
NÁTTÚRAN

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Vatnasvið.  Lempaáin er hin stærri tveggja aðal vatnakerfa landsins.  Hún á upptök sín í Gvatemala og rennur yfir norðvesturlandamærin til austurs (130 km) og myndar hluta landamæranna við Hondúras.  Síðan sveigir hún til suðurs, 105 km leið um Miðhásléttuna til Kyrrahafs.  Hún var skipgeng nokkra kílómetra áður en tvö stór raforkuver voru byggð um miðbik hennar (Cerron Grande og 1. nóvember stíflan).  Í austurhlutanum er Rio Grande de San Miguel.  Nokkrar smáár renna beint til sjávar frá miðhálendinu.

Loftslagið einkennist af hitabeltinu en er mismunandi eftir hæð yfir sjó og meðalhiti 15-23°C.  Mikið rignir frá maí til október (temporales) og þurrast er aðra mánuði ársins.  Á láglendinu við Kyrrahafið má reikna með 25-29°C.  Í San Salvador (711m) er hámarkshiti 34°C í marz en lágmarkshiti í janúar 16°C.  Í fjöllunum ofar 1450 m er hitinn 17-22°C og meðalúrkoma við sjávarsíðuna er 1700 mm. Í suður- og norðurfjalllendinu milli 600 og 1000 m yfir sjó er úrkoman milli 1800 og 2500 mm.

Gróðurfar.  Hátt uppi í fjöllum eru strjál graslendi og leifar eikar- og greniskóga.  Á Miðhásléttunum og í dölunum eru lágvaxin lauftré, runnar og jaðartrópísk graslendi.  Í hlíðum strandfjallanna og láglendisins eru steppur og laufskógar.  Talsvert vex af balsatrjám, sem gefa af sér verðmætan við og efni til lyfjagerðar.  Aðrar verðmætar trjátegundir eru sedrustré, mahónitré, lárviðartré, nisperotré og madrecacaotré, sem eru notuð til húsgagnagerðar.  Maquilishuattréð, sem er þjóðartré landsins, er sérdeilis fallegt.  Á strandsvæðunum vaxa allmargar tegundir pálma og fjöldi tegunda hitabeltisávaxta, s.s. kókoshnetur, tamarind, melónur og mango.  Izoteplantan er þjóðarblómið.

Dýralíf.  Vegna þess, hve mikið land hefur verið brotið til ræktunar, er fjöldi villtra dýrategunda takmarkaðri í El Salvador en öðrum Mið-Ameríkuríkjum.  Nóg er af nagdýrum, skriðdýrum og skordýrum og fuglafánan er allfjölbreytt, endur, hvíthegrar, konungshegrar, bláskjór og urraca, sem gefur frá sér hljóð, sem líkjast hæðnishlátri, og fjöldi annarra litskrúðugra tegunda.  Í ám og vötnum er fjöldi fiskategunda, skjaldbökur og krókódílar.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM