El Salvador íbúarnir,
Flag of El Salvador


EL SALVADOR
ÍBÚARNIR

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Búseta.  Rúmlega 75% landsmanna búa á sléttum og í dölum miðhálendisins.  Teinöldum saman bjuggu frumbyggjarnir á þessum svæðum og ræktuðu maís, baunir og ávexti.  Rústir borga þeirra sjást greinilega í Chalachuapa Sihuatán og Cara Sucia.  Byggðir Spánverja, sem urðu að aðalborgum landsins, voru líka á þessum slóðum, s.s. Santa Ana, Ahuachapán, San Salvador, San Vicente og San Miguel.  Framleiðsla litarefnisins indigo og sykurs á nýlendutímanum dró til sín fjölda landnema, sem unnu hjá ríkum landeigendum og stunduðu jafnframt sjálfsþurftarbúskap á smáskikum lands.  Allt frá 19. öld hefur kaffirækt verið stunduð á þessum slóðum með góðum árangri og kaffi varð að mikilvægustu útflutningsafurð þjóðarinnar.  Á  20. öldinni stækkuðu borgir og iðnvæðing jókst, þannig að rúmlega helmingur þjóðarinnar býr í þéttbýli á Miðhásléttunni.  Þessir kjarnar eru á hættulegustu jarðskjálftasvæðum landsins eins og hefur oft komið í ljós.

Höfuðborgin, San Salvador, var stofnuð árið 1525 og óx mjög á 20. öldinni.  Aðalþéttbýlið teygist frá Nueva San Salvador í vestri að Ilopangovatni í austri.  Þar býr u.þ.b. fimmtungur þjóðarinnar.  San Miguelborg er austar í hlíðum samnefnds eldfjalls.  Þar er gamall nýlendukjarni og umhverfis nútímaborgin.  Santa Ana er viðskiptamiðstöð vesturhlutans.  Offjölgun íbúa á Miðhásléttunni hefur valdið fólksflutningum til strandhérðaanna, þar sem land hefur verið brotið til baðmullarræktunar og nautgriparæktar frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar.  Landnám á norðurhálendinu á fyrri öldum olli miklum skaða, eyðingu skóga og jarðvegs.  Þar búa enn þá of margir, sem reyna að sjá sér farborða með sjálfþurftarbúskap.

Íbúarnir.
  Frumbyggjar landsins voru fjöldi indíánaættflokka.  Hinir elztu þeirra voru Pcomam, Chortí og Lenca, sem voru skyldir mæjum.  Pipilindíánarnir, sem eru skyldir aztekum í Mexíkó, voru fjölmennastir.  Yfirráðasvæði þeirra og höfuðborg hétu Cuscatlán (Gimsteinslandið), sem er stundum notað í stað El Salvador.  Rústir byggða þessara indíánaættflokka er að finna í Tazumal, Pamep, El Trapito og San Andrés.  Sumar byggðir þeirra eru enn þá til, s.s. Sonsonate og Ahuachapán.  Aldalöng blöndun spænskra landnema og indíána olli því, að u.þ.b. 90% íbúanna eru mestizos og flestir hinna eru izalco- og panchoindíánar og hvítt fólk. 

Áður en Spánverjar komu til sögunnar töluðu frumbyggjarnir ýmsar indíánamállýzkur.  Hin útbreiddasta var nahuatl, sem var töluð miðsvæðis í landinu, og poton í austurhlutanum.  Spænska varð að þjóðartungu, þegar Spánverjar voru búnir að koma sér fyrir og indíánamálin gleymdust að mestu.  Nú er lögð áherzla á að varðveita nahuatlmálið.  Flestir íbúarnir eru rómversk-katólskir.

Borgarastyrjöldin, sem hófst 1979, olli miklum þjóðfélagsbreytingum.  Talið er, að u.þ.b. 20% landsmanna hafi flúið til nágrannalanda og BNA.  Margir flúðu frá átakasvæðunum í norður- og austurhlutunum til borganna í miðhlutanum.  Röskun lifnaðarhátta og flótti ungs fólks úr landi olli samdrætti í fólksfjölgun en samt sem áður er landið ofsetið.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM