El Salvador efnahagur samgöngur,
Flag of El Salvador


EL SALVADOR
EFNAHAGUR og SAMGÖNGUR

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Efnahagur landsins byggist að mestu á landbúnaði, þótt talsverð iðnvæðing ætti sér stað á sjöunda og áttunda áratugnum.  Landbúnaðarframleiðslan nægir samt ekki til að brauðfæða íbúana, svo að matvælainnflutningur er mikilvægur.  Aðalástæðan er misskipting landsins milli fárra stórra landeigenda, sem rækta til útflutnings og allt of fárra smábænda, sem stunda sjálfþurftarbúskap.  Vandræðin væru minni, ef fleiri ættu þess kost að sjá sér farborða á smáskikum lands.

Mikilvægustu landbúnaðarafurðirnar eru kaffi, baðmull, maís og sykur.  Kaffiútflutningur er rúmlega helmingur allrar framleiðslu, sem er seld úr landi, aðallega til BNA, Þýzkalands, Hollands og Japan.  Nautgriparækt er líka mikilvæg.  Timbrið er notað til húsgagnaframleiðslu og sem eldsneyti.  Litarefni og lyf eru líka unnin úr viði.

Fiskveiðar eru undir stjórn ríkisstjórnarinnar og hafa aukið útflutningstekjur þjóðarinnar.  Mest er veitt af krabbadýrum (rækjur, humar o.fl.), margs konar matfiskum, ansjóvíu og hákarli. 

Námugröftur er ekki mikilvægur.

Aðalorkuver
landsins, sem eru við Lempaána, tæplega 60 km norðaustan San Salvador, eru ríkisrekin og sjá landsmönnum fyrir mestum hluta raforkunnar. 

Iðnaður.
  Upp úr miðri 20. öldinni var talsvert fjárfest í iðnvæðingu í tengslum við Efnahagsbandalag Mið-Ameríkuríkja.  Ný iðnfyrirtæki risu um allt land og mörg þeirra, sem fyrir voru, urðu stærri.  Ríkisstjórnin hafði frumkvæði að þessari uppbyggingu með stuðningi banka og erlendri þróunaraðstoð.  Framleiðslunni hnignaði eftir 1979, aðallega vegna óeirða og stjórnmálalegrar ringulreiðar.  Helztu framleiðsluvörur iðnaðar í landinu eru drykkjarvörur, niðursoðin matvæli, áburður, sement, plastvörur, vindlingar, skór, baðmullarvörur, leðurvörur, olíuvörur og vélar.

Ferðaþjónustan varð æ mikilvægari fram að borgarastyrjöldinni 1979.  Árið 1980 vour bankar og markaðsfyrirtæki útflutningsins þjóðnýtt.  Ríkisstjórnin hefur aðaltekjur af söluskatti, og tollum af kaffiútflutningi.  Ríkisstjórnir landsins hafa reitt sig á fjárhagsstuðning BNA síðan 1980.

Samgöngur eru í tiltölulega góðu lagi nema á afskekktustu svæðunum.  Út frá „Panamerísku” hraðbrautinni liggja vegir til flestra afkima landsins.  Einn þeirra liggur um miðhálendið og annar eftir strandlengjunni.  Nokkrir hliðarvegir með slitlagi tengjast þessum aðalvegum um landið.  Járnbrautir á mjóum sporum eru ríkisreknar.  Aðalbrautirnar tengja höfuðborgina við hafnir á ströndinni og landamæri Gvatemala.  Hlið El Salvador að Atlantshafinu er gvatemalska hafnarborgin Puerto Barrios, sem er í vega- og járnbrautasambandi við landið í gegnum höfuðborgina Gvatamalaborg.  Nýr alþjóðlegur flugvöllur var byggður á áttunda áratugnum á ströndinni, u.þ.b. 40 km frá San Salvador.  Hann kom í staðinn fyrir flugvöllinn við Ilopango, sem er herflugvöllur núna.  Borgarastríðið olli miklum skemmdum á samgöngumannvirkjum landsins.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM