Quito
er höfuðborg Ekvador í Pichincha-héraði.
Hún stendur rétt sunnan miðbaugs í lághlíðum
Pichincha-eldfjallsins, sem gaus síðast 1666, í mjóum dal í Andesfjöllum,
2850 m.y.s. Hún er elzt
allra höfuðborga Suður-Ameríku og er kunn fyrir velvarðveittan,
gamlan borgarhluta, sem er á heimsverndarlista UNESCO (1978).
Fyrrum
var þarna höfuðstaður Quitu-konungsríkisins, sem var stærsta
sambandsríki indíána án nokkurra heimilda.
Á tímabilinu eftir 900 til 1487, þegar það var sameinað
inkaveldinu, Shyris-höfðingjaætt cara-indíánanna við völd.
Sebastián de Belacázar, liðsforingi spænska sigurvegarans
Francisco Pizarro, náði borginni á sitt vald 6. desember 1534 og
setti á fót borgarstjórn (Cabildo).
Quito varð strax miðstöð stjórn-, félags- og efnahagsmála
landsins. Snemma á 20. öldinni
varð Guayaquil miðstöð efnahagsmála landsins.
Samkeppni milli þessara tveggja borga er enn þá áberandi.
Nýlenduyfirbragðið
er velvarðveitt í borginni. Þar
ber fjölda kirkjuturna við eldfjallahringinn í kringum Quito-lægðina
og torg, gosbrunnar, svalahús, mjóar og brattar götur, járngrindahurðir
og húsagarðar prýða borgina. Fátækrahverfi
borgarinnar eru í miðborginni ólíkt öðrum suðuramerískum borgum,
þar sem þau eru úthverfi.
Árið
1552 var stofnaður listaskóli í borginni, hinn fyrsti í Suður-Ameríku.
Þessi atburður varð til stofnunar trúarlegrar
listahreyfingar, sem dafnaði á nýlendutímanum og skapaði ótal
marglit listaverk úr tré og málverk ólík öllu öðru í nýja
heiminum. Margar kirkjur í
Quito, klaustur og gömul hús eru sönn söfn.
Meðal áhugaverðustu kirkna og klaustra borgarinnar eru La
Companía (jesúítar) með baroksúlum, loftum og miklum altörum
skreyttum gulllaufum, San Francisco með hinu stórkostlega klaustri,
Carmen Alto með Santa Mariana de Jesús, San agustín, þar sem sjálfstæðisyfirlýsing
landsins var undirrituð 1809, Santo Domingo með frægu altari og
forhlið, Sagrario og 16. og 17. aldar dómkirkjan, þar sem sjálfstæðishetja
þjóðarinnar, Antonio José de Sucre liggur grafinn.
Trúarlegar byggingar og landið undir þeim nemur u.þ.b. fjórðungi
flatarmáls borgarinnar. Alvarlegasta
ógnunin við nýlendubyggingar borgarinnar hafa verið og eru jarðskjálftar
(1660, 1797, 1868 og 1987).
Hinn
ríkisrekni Miðháskóli var stofnaður 1586, Þjóðlistaskólinn 1869
og Páfaháskólinn 1946. Menningarhúsið
hýsir listasöfn og bókasafn. Fornleifa-
og þjóðfræðisafnið (1950), Mannfræðisafnið (1925),
Borgarlistasafnið og sögusafnið (1930) og Menningarsafnið (1969) í
seðlabankanum eru einnig áhugaverð.
Gracing Alameda Park er stjörnuskoðunarstöð með fimm litlum,
fallegum, hvítum turnum.
Quito
var lengi einangruð hálendismiðstöð, sem var tengd ströndinni með
Guayaquil-Quito-járnbrautinni árið 1908.
Millilandaflugvöllur borgarinnar er við Pan-American-hraðbrautina.
Borgin er ein mesta miðstöð iðnaðar í landinu. Helztu framleiðsluvörur hennar eru vefnaðarvörur, lyf,
neyzluvörur og handverk úr leðri, viði, gulli og silfri.
Olíuleiðslurnar frá Napo-olíusvæðinu liggja um Quito til
Esmeraldas. Önnur leiðsla
liggur til Guayaquil. Á síðari
hluta 20. aldar var viðskiptahverfi borgarinnar flutt norðar. Þar eru nýir bankar, verzlanir og skrifstofur ýmissa
fyrirtækja. Gamla viðskiptahverfið
gegnir enn þá veigamiklu hlutverki.
Hinir
vikulegu útimarkaðir indíána og litlar búðarholur selja þjóðlegt
handverk. Eitthvert bezta
útsýni yfir borgina og umhverfið fæst við Jómfrúna í Quito uppi
á El Panecillo-hæðinni. Áætlaður
íbúafjöldi árið 1998 var rúmlega 1,5 miljónir. |