Santiago
de Guayaquil er stærst borga landsins og aðalhafnarborgin.
Hún er á vesturbakka Guayas-árinnar, 72 km frá Guayaquil-flóa
við Kyrrahaf. Upprunalega
byggðin var stofnuð 1530 við mynni Babahoyo-árinnar austan núverandi
borgarstæðis. Þar var að verki Sebastián de Belacázar, liðsforingi spænska
sigurvegarans Francisco Pizarro, en indíánar lögðu hana tvisvar í rústir.
Árið 1537 stofnaði landkönnuðurinn Francisco de Orellana til
byggðar á sama stað og borgin er nú og nefndi hana Santiago de
Guayaquil til heiðurs heilögum Jóhannesi og indíánahöfðingjanum
Gyaya og konu hans Quila. Á
nýlendutímanum réðust sjóræningjar oft á byggðina.
Árið 1822 hittust þar Simón Bolívar og José de San Martin
og að fundi þeirra loknum var Bolívar eini leiðtogi
frelsishreyfingar Suður-Ameríku.
Quayaquil
stendur lágt yfir sjávarmáli, aðeins 2° sunnan miðbaugs, og þar
er loftslag heitt og rakt. Borgin var löngum álitin pestarbæli. Eftir 1920 tókst að gera hana heilsusamlegri með auknu
hreinlæti og verkfræðivinnu.
Nú
er hún orðin að mikilvægri hafnarborg og miðstöð viðskipta
innanlands sem utan. Þar
eru sykurverksmiðjur, járnbræðsla, verkstæði, litunarstöðvar og
sögunarmyllur auk talsverðrar framleiðslu margs konar neyzluvöru. Rækjuveiðar eru mikilvægur útvegur. Árið 1979 var hin nútímalega höfn Puerto Marítimo opnuð
10 km neðar við ána. Þar
fer fram um- og útskipun í hafskip.
Alls fara u.þ.b. 90% alls innflutnings landsins um hana og
kringum 50% útflutnings. Helztu
útflutningsvörurnar eru bananar, kaffi og kakó frá Guyayas-dalnum.
Iðnþróunin
hefur valdið meiri íbúafjölgun en í Quito og aðstreymi verkafólks
úr dreifbýlinu hefur valdið stækkun fátækrahverfa.
Guayaquil is setur ríkisháskólans (1867) og katólska háskólans
(1962), Vicente Rocafuerte-háskólans (1847; háskóli frá 1966) og
listaskóla (1958). Meðal
áhugaverðra staða í borginni er fyrsta kirkja hennar, Santo Domingo
(1548) og nýlendudómkirkjan San Francisco.
Borgin varð katólskt biskupsvæmi 1838 og setur erkibiskups
1956. Eftir jarðskjálftana
1942 var mestur hluti borgarinnar endurbyggður.
Borgin er endastöð járnbrauta frá Quito og þjóðvegir
tengja hana Pan-American-hraðbrautinni.
Skammt utan borgar er millilandaflugvöllur.
Áætlaður íbúafjöldi 1990 var rúmlega 1,5 miljónir. |