Tomás
de Berlanga, biskup í Panama, fann eyjarnar árið 1535 eftir að hann
hafði lent í hafvillum á leiðinni til Perú.
Hann kallaði þær „Las Encantadas” (Töfraeyjar) og lýsti
fjálglega þúsundum risaskjaldbakna, sem hann sá þar, í ferðasögu
sinni. Fjöldi spænskra sæfara kom við á eyjunum upp frá því
og sjóræningjar og hval- og selveiðimenn komu sér þar fyrir.
Ekkert ríki hafði helgað sér eyjarnar í tæpar þrjár aldir,
þegar landnám hófst á Santa María-eyju árið 1832.
Þá sló Ekvador eign sinni á þær.
Eftir að náttúrufræðingurinn Charles Darwin heimsótti
eyjarnar árið 1835 urðu þær heimsfrægar. Hann setti byggði kenningu sína um þróun tegundanna að
hluta til á óvenjulegri fánu og náttúrvali eyjanna árið 1859.
Einkenni
loftslagsins í eyjaklasanum er lítil úrkoma og raki og tiltölulega lágur
loft- og sjávarhiti. Tegundaauðgi
jurta og dýra skiptir þúsundum, sem finnast í flestum
tilfellum ekki annars staðar. Á
þurrum láglendissvæðum eru kaktusskógar.
Á næsta þrepi ofar eru skógar, þar sem pisonia- og gvavatré
eru ríkjandi og enn ofar eru scalesia-tré og þéttur runnagróður ríkjandi.
Á hæstu svæðum vaxa m.a. burknar og gras.
Eyjaklasinn
er kunnastur fyrir óvenjulega fánu.
Risaskjaldbökurnar eru taldar vera meðal langlífustu dýra jarðar,
en þær geta orðið 150 ára. Skyldleiki
margra dýra eyjanna við fánu Suð- og Mið-Ameríku gefur til kynna,
að þau séu kominn af þeim. Vegna
aðlögunar sinnar að skilyrðum Galapagoseyja hafa þróast margar
undirtegundir. Finkurnar á
Galapagos eru af mörgum undirtegundum, sem hafa aðlagast mismunandi
skilyrðum en eru allar af sama uppruna.
Aðalmunurinn liggur í þróun nefsins, stærð þess og lögunar.
Hinar einstöku sundeðlur, sem nærast á þangi, þekja sums
staðar strandsvæði svo hundruðum skiptir.
Enn ein athyglisverð dýrategund er ófleygi skarfurinn.
Þarna lifa líka mörgæsir og loðselir í nánu sambandi við
landdýr hitabeltisins.
Íbúar
eyjanna, sem eru flestir frá Ekvador, búa í byggðum á San Cristóbal,
Santa María, Isabela og Santa Cruz og á Baltra er ekvadorísk herstöð.
Sumar eyjanna eru nokkurn veginn ósnortnar en á öðrum vaxa nú
orðið aðfluttar plöntur og þær hafa orðið fyrir átroðningi íbúanna
og ferðamanna. Aðalatvinnuvegir
eyjaskeggja eru ferðaþjónusta, fiskveiðar og landbúnaður.
Tugir þúsunda ferðamanna heimsækja eyjarnar ár hvert (u.þ.b.
60 þúsund skömmu fyrir aldamótin). Áætlaður íbúafjöldi árið 1998 var 15.500. |