Eistland sagan,


EISTLAND
SAGAN

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Tacitus var fyrstur til að geta þjóðflokks, sem hann kallaði Eista.  Samkvæmt frásögn hans bjuggu þeir í smáríkjum á 1. öld f.Kr.  Valdimar II, Danakonungur, réðist inn í Norður-Eistland, byggði sér Tallinn-Reval-kastalann árið1219 og stofnaði biskupsdæmið Reval.  Eftir óeirðir á árunum 1343-45 seldi konungurinn Germönsku reglunni landsvæði sín í norðurhluta landsins.  Reglan átti þá þegar suðurhlutann (Lívóníu).  Riddararnir og Hansasambandið, sem kom sér upp verzlunarstöðum meðfram ströndinni, réðu landinu til 1561, þegar reglan var leyst upp.  Tallin og aðalsmenn í norðurhlutanum féllust á yfirráð Svía og Pólland fékk um tíma yfirráð yfir suðurhlutanum, þ.m.t. Tartu.  Árið 1645 var allt landið komið undir sænsk yfirráð.  Á áttunda og níunda áratug sautjándu aldar stóðu Svíar fyrir umbótum, sem komu sér vel fyrir almenning en féllu aðlinum ekki í geð.

Svíar réðu Eistlandi til 1721, þegar þeir létu Rússum það eftir í friðarsamningunum í Nystadt.  Pétur mikli, rússakeisari (1721-25) færði aðlinum aftur völdin, sem hann hafði misst við umbætur Svía.  Á árunum 1816-19 afnam Alexander I, Rússakeisari, átthagafjötra í landinu og þegnskylduvinnu og eftir miðja öldina fengu smábændurnir leyfi til að kaupa jarðir sínar af lénsherrunum.  Þjóðernisvitund landsmanna vaknaði smám saman við aukið frelsi og betri kjör.  Samvinnufélög og menntahreyfingar spruttu upp eftir byltinguna í Rússlandi 1905 í kjölfar rússnesk-japanska stríðsins.  Dagblöð og bókmenntir ýttu undir þjóðerniskenndina í Eistlandi.  Rússneska byltingin færði Eistum heimastjórn og 24. febrúar 1918 var lýst yfir stofnun sjálfstæðs lýðveldis.

Eftir styrjöld við bolsévískan innrásarher var samið um frið milli Rússa og Eista 2. febrúar 1920í Tartu og Rússar afsöluðu sér öllu tilkalli til Eistlands.  Í kjölfarið komu viðurkenningar frá Bretlandi, Frakklandi, Ítalíu, Þýzkalandi, BNA og öðrum löndum.  Eistland varð aðili að Þjóðabandalaginu.  Í júní 1940 lögðu Sovétríkin Eystrasaltslöndin undir sig í samræmi við Molotov-Ribbentrop-samninginn.  Syndarkosningar voru haldnar og leppar Sovétstjórnarinnar tóku völdin.  Hinn 6. ágúst 1940 varð Eistland eitt Sovétlýðveldanna.  Þegar Þjóðverjar réðust á Sovétríkin í júní 1941, lögðu þeir Eistland undir sig.  Í sept. 1944, þegar Þjóðverjar hörfuðu frá landinu og Rússar snéru aftur, flúðu rúmlega 60 þúsund Eistar til Svíþjóðar og Þýzkalands.

Næstu 45 árin viðurkenndu flestar þjóðir Sovétlýðveldið Eistland en BNA gerðu það aldrei opinberlega.  Eystrasaltslöndin voru meðal fyrstu Sovétlýðveldanna til að stefna að sjálfstæði á síðari hluta níunda áratugarins í trássi við miðstjórnina í Moskvu.  Eftir hrun kommúnismans viðurkenndi Sovétstjórnin opinberlega sjálfstæði þeirra 6. sept. 1991 og öll þrjú ríkin urðu aðilar að Sameinuðu þjóðunum síðar sama mánuð.

Austurlandamærin, milli Rússlands og Eistlands, héldu áfram að vera bitbein þjóðanna eftir sjálfstæðisyfirlýsinguna.  Árið 1945 lögðu Rússar undir sig 5% Eistlands og Eistar krefjast þess aftur.  Sumir eistneskumælandi íbúa þessa svæðis hafa fengið eistnesk vegabréf og Rússar hafa sakað Eista um yfirgang á rússnesku yfirráðasvæði.

Eistlendingar hafa lagt áherzlu á eflingu tengsla við önnur lönd, þ.m.t. hin Eystrasaltsríkin.  Í sept. 1993 var undirritaður fríverzlunarsamningur við Lettland og Litháen, sem kveður á um niðurfellingu tolla og staðlaðar reglur um vegabréfa- og tollskoðun.  Í febrúar 1994 undirritaði Eistland gagnkvæman friðarsamning við NATO.  Rússneski herinn lauk brottflutningi í ágúst 1994 og eistneska ríkisstjórnin gaf hermönnum á eftirlaunum leyfi til að vera um kyrrt og sækja um ríkisborgararétt.

Fyrstu þingkosningarnar eftir endurnýjað sjálfstæði voru haldnar í sept. 1992, þegar mið-hægri föðurlandssamsteypan tók við völdum.  Næstu kosningar voru haldnar í marz 1995, þegar dreifbýlisflokkurinn og miðflokkurinn bættust við samsteypustjórnina.  Tiit Wähi, sem varð forsætisráðherra 1992, leiðtogi samsteypuflokksins, var endurkjörinn og Edgar Savisaar, sem var forsætisráðherra síðustu kommúnistastjórnarinnar og leiðtogi miðflokksins, varð innanríkisráðherra.  Í apríl 1995 undirritaði Eistland sambandssamning við ESB eftir að hafa lagað efnahagsmál og löggjöf að kröfum sambandsins.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM